Færsluflokkur: Viðskipti og fjármál

Er ekki þörf á opinberri rannsókn?

Fréttir undanfarna daga af fjárstyrkjum til stjórnamálaflokka hafa vakið mikla athygli sem vonlegt er.  Sérstaka athygli vekur mikill munur milli áranna 2006 og 2007 en þá tóku í gildi ný lög um fjármál stjórnmálaflokka.  Hvað gerðist þar?  Hættu fyrirtæki að styrkja flokkana?  Ég ef grun um að svo sé ekki.

Aðallega hefur athyglin beinst að ofurstyrkjum Landsbankans og FL-group til Sjálfstæðisflokksins.  Vegna þess hefur flokkurinn skýrt frá þeim styrkjum sem námu 1 millj. eða meira á árinu 2006.  Skýringar sem gefnar hafa verið að tilkomu og tilurð þeirra hafa ekki reynst trúverðugar og ljóst að forustan hefur ekki náð að höndla málið sem skyldi.

Ótal spurningar hafa vaknað.  Hvað með Samfylkinguna?  Er það rétt að frá og með árinu 2007 hafi einstök félög hennar tekið við styrkum sem áður runnu til aðalskrifstofunnar?  Hvað með Framsókn og VG?  Hafa þeir opnað bókhaldið upp á gátt.  Nei.  VG birtir að vísu ársreikninga en ekki stafkrók um hvað felst þar á bakvið og alls ekki um fjárhag einstakra aðildarfélaga.  Sama gildir um Framsókn.

Mér sýnist í ljósi síðustu atburða að þörf sé á opinberri rannsókn á fjármálum flokkanna og óneitanlega líta sumar styrkveitingarnar illa út.  Jafnvel gætu sumar þeirra litið út sem hreinar mútur.   Hér þarf að hreinsa til og sanna eða afsanna illar grunsemdir.

Áður hefur verið efnt til opinberrar rannsóknar af minna tilefni.


mbl.is Fengu meiri styrki árið 2006
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Öðrum til eftirbreytni

Þetta er til eftirbreytni fyrir aðra þá sem sækjast eftir vinnu hjá okkur.  Með því að upplýsa um þetta eru tekin af tvímæli um skuldir og eignir. 

Hins vegar vantar hvort hún gegni stjórnarsetu eða  hafa bein hagsmunatengsl við félög og/eða fyrirtæki, þ.m.t. eignarhaldsfélög.

Að öðru leyti lýsi ég yfir ánægju minni með framtak Sigríðar sem er ein af vonarstjörnum okkar sjálfstæðismanna.  Okkur er nauðsyn að nýjum andlitum, ungs kraftmikils fólks.  Mistökum síðustu ára verður var mikið breytt nema með kraftmikilli endurnýjun í forustu og þingmannaliði.


mbl.is Birtir fjárráð sín á netinu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Laxveiðikaup bankanna falin?

Á undanförnum árum hafa bankar og fjármálastofnanir verið stærstu kaupendur laxveiðileyfa hér á landi.  Þetta hefur gert að verkum að mun meiri eftirspurn hefur myndast á markaðnum en framboð, sérstaklega á svokölluðum "primetime".  Verð leyfanna hefur hækkað upp úr öllu valdi þannig að okkur þessum venjulegu launaþrælum er gert ókleift að kaupa.  Kostnaður við dagsveiði í betri ánum getur numið meir en mánaðarlaunum, þ.e. getur hæglega farið í 200 þús.

Í svari ríkisbankanna þriggja, Glitnis, Kaupþings og Landsbankans, við bréfi Stangaveiðifélags Seyðisfjarðar kemur fram að bankarnir muni ekki kaupa veiðileyfi í sumar.  Við þetta svar varð mörgum veiðimanninum rórra og sumir eygðu möguleika að komast kannski í þokkalega sprænu í sumar.

Nú heyrast þær fréttir að bankarnir og aðrar fjármálastofnanir séu að gera sig gildandi á markaðnum með "óbeinum" veiðileyfakaupum.  Engin bein kaup eigi sér stað, heldur kaupa einstaklingar og smáfyrirtæki sem eru í viðskiptum við bankana leyfin og sendi síðan reikning til bankans fyrir sérfræðiþjónustu, ráðgjöf, verktöku eða annað slíkt.

Heimildir fyrir þessu eru nokkuð áreiðanlegar og sjálfur veit ég um aðila sem mun veiða í sumar í "boði" viðskiptabanka síns.  Í ljósi þessa held ég að tími siðbótar sé bara alls ekki upprunninn í þessum spillingargrenjum.  Enda er sama fólkið og tók fullan þátt í sukkinu enn að stjórna.

Hvað þarf að gerast til að þessu linni?


Reyna að maka krókinn á meintum olíuverðshækkunum

Það var kominn tími á að alvöru lækkunarferli hæfist hér innanlands en á undanförnum mánuðum hefur olían ekki bara lækkað á heimsmarkaði heldur hefur verðið hrunið úr tæpum 150 dollurum niður fyrir 50 dollara á tunnuna.

Það er eins og íslensku olíufélögin hafi ekki tekið eftir þessari lækkun og aðspurðir kenna talsmenn þeirra óhagstæðu gengi um.  Sú skýring er alls ekki haldbær því síðustu tvo mánuði hefur gengi krónunnar í Seðlabanka Íslands og Seðlabanka Evrópu verið hækkandi.

Þessar verðsveiflur reyna margir að nýta sér.  Sláandi dæmi um slíkt eru svör starfsmanns ferðaskrifstofu þegar ég kannaði hvað kostaði far með ferjunni Norrönu frá Seyðisfirði til Danmerkur á "low season" og aftur til baka á "high season".  Í pakkanum var fargjald hjóna í tveggja manna innklefa, jeppabifreið + meðalstórt  fellihýsi.  Allt þetta átti að kosta a sjötta hundruð þúsunda og hafði hækkað gífurlega frá fyrra ári þegar ég var að velta fyrir mér slíkri ferð.  Spurður um ástæðu þessarar miklu hækkana sagði hann hana vera hækkandi olíuverð!

Það er gott að geta kennt kettinum um þegar eitthvað fer aflaga!


mbl.is Atlantsolía lækkar dísilverð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Það er skítalykt af þessari bílasölu bankans?

Hvað er að gerast þarna? Er ekki alveg ljóst að Kaupþing hið nýja er í eigu ríkisins? Ef svo er hvernig stendur þá á því að Ríkiskaupum er ekki falið að selja þessa bíla eins og annara bíla í eigu ríkis og fyrirtækja í eigu þess?

Ljótar sögur um þessi viðskipti fara nú fjöllum hærra. Mér finnst alveg ljóst að bankinn þarf að gera þarna hreint fyrir sínum dyrum varðandi þessa sölu.  Eða eru stjórnendur bankans ekki vissir um hver sé eigandi hans?Það hljóta að hafa verið eðlilegri viðskiptahættir að bjóða þessa bíla upp eftir hefðbundum leiðum, þ.e. hjá Ríkiskaup úr því bankinn er í ríkiseign.


mbl.is Seldu lúxusbíla Kaupþings
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sjáið myndbandið þegar Davíð hringdi "viðvörunarbjöllum" 3. mars 2008.

Margt góðra gripa er að finna í safni Seðlabanka Íslands.  Þar mun meðal annars að finna hinar merku viðvörunarbjöllur sem Davíð Oddsson bankastjóri hafi hringt reglulega vegna hættulegrar stöðu íslensku bankana og vegna bliku sem dregið hafi á himinn hins íslenska efnahagslífs.

Í ljósi þess er áhugavert að skoða þetta viðtal þar sem Davíð "hringir" bjöllunum.  Er ekki rétt að þessar "bjöllur" verði geymdar á Þjóðminjasafninu með öðrum gersemum þjóðarinnar?


Er þetta hlutverk forsetans?

Mér finnst forsetinn kominn út á heldur hálan ís með þessum ummælum sínum.  Nógu slæmt er ástandið þó hann reyni að halda sér í sviðsljósinu með þessum svigurmælum.  Til sanns vegar má færa að yfirlýsing hans eigi við rök að styðjast.  Þetta er bara ekki hlutverk hans að gefa yfirlýsingar sem þessar.  Til þess höfum við ríkisstjórn. 

Svona bull er alveg sambærilegt við það sem kemur frá seðlabankastjóranum og er búið að valda okkur ómældum skaða.  Enda eru þeir líkir um margt, athyglissjúkir hrokagikkir, tilbúnir hvenær sem er að vekja athygli með alls kyns yfirlýsingum og fjölmiðlabrellum.

Betur þeir geri sér grein fyrir muninum á neikvæðri athygli og jákvæðri. 


mbl.is Þjóðverjar fái engar bætur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vaktir af værum blundi

Hversu langt nær hroki og afneitun þessara manna.  Látum liggja milli hluta öll afglöp formannsins en það liggur ljóst fyrir að þeir og bankinn eru rúnir öllu trausti heima sem heiman.

Okkur en nauðsyn á að afla okkur trausts.  Hluti af því er að skipta út þeim mönnum sem brugist hafa traustinu.  

Það er óskiljanlegt að virða ekki frestinn sem forsætisráðherra gaf.  Kannski hefur þetta komið þeim á óvart?

Ég bara spyr.


mbl.is Seðlabankastjórar svara Jóhönnu líklega í dag
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Er leiðtogi í sjónmáli?

Það ríkir undarlegt ástand á Íslandi.  Eins og hendi væri veifað bliknaði glansmyndin sem við höfðum búið okkur til og  vorum svo óspör að sýna umheiminum.  Við erum svo klár, við erum betri, við erum best.  Svo gerðist það.  Hrunið.  Við blasti nístingskaldur raunveruleikinn.  Raunveruleiki sem margir hafa ekki enn áttað sig á.

 

Fjárglæpamenn sem komist höfðu í áhrifastöður höfðu hreinlega stolið stórum hluta þjóðarauðsins, veðsett annara eigur upp fyrir haus, flutt þýfið í skattaparadísir Karabíska hafsins, Ermasundsins, Kýpur og efalaust á fleiri felustaði.

Við, almenningur í þessu guðs volaða landi eigum svo að borga skuldir þessara þjóðníðinga.  Af hverju?  Hvað hef ég gert til að verðskulda að vera nú skuldum vafinn, þurfa síðan að velta þeim yfir á börnin mín og barnabörnin.  Ekki eyddi, ég sóðaði eða sukkaði þjóðarauðæfunum á braut.

 

Á fjögurra ára fresti kjósum við okkur fulltrúa á löggjafarsamkomuna sem á að mynda löggjafarvaldið.  Löggjafarvaldið myndar síðan framkvæmdavaldið sem smátt og smátt í áranna ráðs hefur orðið einskonar YFIRVALD í landinu.  Löggjafarvaldið líkist mest eins konar afgreiðslustofnun YFIRVALDSINS sem einnig hefur dómsvaldið undir hælnum.  Framkvæmdavaldið deilir og drottnar og velur menn í alls kyns stofnanir, þ.á.m. stofnanir sem eiga að gæta fjármála og efnahags.  Tvær veigamestu stofnanir þessa málaflokks eru Seðlabankinn og Fjármálaeftirlitið.

Það blasir við hverjum viti bornum manni að þeir sem stjórnuðu (eða áttu að stjórna) þessum stofnunum brugðust algjörlega hlutverki sínu og stóðu eftir eins og hreinir afglapar.  Í hefðbundnu lýðveldisformi vestrænna ríkja hefðu stjórnendur þessara stofnana sagt störfum sínum lausum án tafar. Sömuleiðis þær stjórnir sem yfir þær eru settar.

Jafnframt hefðu þeir ráðherrar sem ábyrgð bera á þessum málaflokkum tafarlaust átt að segja af sér, viðskiptaráðherra og fjármálaráðherra hvers afglapasaga er að verða efni í heila bók.

Nei, öll berum við ábyrgð, var okkur sagt, við megum bara alls ekki persónugera vandann.  Kannski vilja þeir sem þetta sögðu skýra út fyrir mér hvað þeir sem ábyrgð bera eiga að gera þegar þeir hafa brugðist því trausti sem við sýndum þeim?  Axla ábyrgð? Hvað er nú það?  Ef við komum að vörðunum sofandi á meðan innbrotsþjófarnir fóru ránshendi um eigur okkar, eigum við að treysta þeim til áframhaldandi varðstöðu?

 

Nei, alls ekki.

 

Í þessu tilfelli hefði leiðtogi framkvæmdavaldsins átt að sýna hæfileika og myndugleik.  Hans var verkið.  Setja afglapana af.  Strax.  Því miður var það ekki gert og það afhjúpaði alvarlegan veikleika ríkisstjórnarflokkanna.   Þessi alvarlegi veikleiki var skortur á leiðtoga.  Leiðtoga sem tæki af skarið og gerði það sem gera þurfti strax.  Formaður annars flokksins lá veikur á sjúkrahús en það var engin tiltækur að halda merkinu á lofti og taka forustuna. 

 

Nú eftir meira en 100 daga aðgerðaleysi bættist enn á slæmu fréttirnar, nú af alvarlegum veikindum forsætisráðherra.  Lengi getur vont versnað.  Báðir leiðtogar stjórnarflokkanna frá vegna veikinda.  Nú þurfum við á samstöðu að halda.  Sjálfstæðismenn vantar leiðtoga, sterkan leiðtoga, sem hefur skýra stefnu og framtíðarsýn.  Leiðtoga sem nær til fólksins og getur dregið til sín fylgismenn.  Leiðtoga sem þjóðin getur treyst.

 

Nú hefur verið ákveðið að fresta landsfundi.  Það er skiljanlegt.  Annars vegar er mikil þörf á að forustan geti skynjað á slíkum fundi hver veruleiki almennings er og ættu því skapað sér skýra heildarmynd og gert áætlanir og stefnu í samræmi við hana.  Hins vegar er nauðsyn á endurnýjun forustunnar. 
Sú nauðsyn er æpandi.  Hver getur tekið við? 

 

Þorgerður Katrín?  Þorgerði urðu á afdrifarík mistök þegar ljóst var eftir fall Kaupþings sjóðabrall þeirra hjóna.  Sterkasti leikur hennar í þeirri stöðu hefði verið að segja af sér.  Sýna í verki að hér væri foringi sem tilbúinn væri að axla ábyrgð sína og gera það.  Með slíkt að baki hefði leið hennar verið greið í formannsstólinn.

 

Bjarni Benediktsson?  Hann hefur verið lítt áberandi frá þvi hann steig inn í pólitíkina, kurteis, sjarmerandi og efalaust hæfileikaríkur maður en því miður hefur hann ekki sýnt neina þá takta sem vísað gætu í leiðtoga.  Jafnframt er hann í hugum margra fyrst og síðast fulltrúi þeirra afla sem kennd eru við Engeyjarættina.

 

Illugi Gunnarsson?  Sá ágæti maður hefur verið nefndur til sögunnar.  Hans lönd eru nokkuð ókönnuð en varla það leiðtogaefni sem leitað er eftir.

 

Þá er ég kominn að þeim kostinum sem mér líst hvað best á.  Ljóst er að flokknum er mikil þörf á endurnýjun og bætingu ímyndar sinnar í augum almennings.  Eins og að ofan greinir er sagan undanfarnar vikurnar vörðuð mistökum.  Sporin sem tekin voru stutt og ómarkviss líkt að göngu um myrkra mýri.  Mýri hinnar mörgu forarpytta.  Og það sem verra var. Við duttum ofan í þá alla.  Því miður.  Vegna þessa hefur traust flokksmanna á forustunni beðið alvarlegan hnekki.  Við þurfum nýtt blóð.  Það er mitt mat að það skuli sækja til kvenna.  Á undanförnum árum hefur Guðfinna Bjarnadóttir rækilega stimplað sig inn í íslenskt athafnalíf, fyrst sem rektor HR og síðar sem alþingismaður.  Hún er gáfuð, kjarkmikil og fylgin sér.  Í starfi hennar í HR fóru leiðtogahæfileikar hennar vart framhjá þeim sem þar þekktu til.  Guðfinna er tvímælalaust besti kandidatinn sem flokkurinn á í dag og ég hvet hana til að gefa kost á sér.

 

Þá vantar varaformanninn.  Hann þurfum við ungan ferskan, vel menntaðan og hann finn ég í Erlu Ósk Ásgeirsdóttur.  Erla hefur verið mjög virk í pólítík, í Vöku, félagi lýðræðisinnaðra stúdenta, Heimdalli og SUS.  Hún hefur getið sér gott og á öllum vígstöðvum og er mjög frambærileg við hlið Guðfinnu.

Þarna held ég við fyrstu hugsun að tækifæri Sjálfstæðisflokksins liggi.  Hefjum til öndvegis hin kvenlegu gildi.  Karlarnir eru búnir að prófa að renna sér á hálu svelli frjálshyggunnar og runnu þar flestir á rassinn.

 

Ingibjörgu og Geir óska ég alls hins besta með von skjótan, góðan bata.


Ný vídd "bankarána"

Hugtökin "bankarán" og "bankaræningi" fá nýja vídd við lestur frétta undanfarinna daga.  Í næstu frétt segir frá afrekum lögreglunnar; Jú, þeir gómuðu kókosbolluþjófa í nótt!

Mér líður eins og ég sé staddur í miðri skáldsögu eftir Kafka.  


mbl.is Milljarðalán án áhættu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband