Álftaneshreyfingin: Hvar eru fögru fyrirheitin?

Mér líður seint úr minni þegar ég sá franska bóndakonu sitja með stóra aligæs sem klemmd var í klafa hafandi sett trekt upp í kok fuglsins.  Trektin sú arna var fyllt kornstöppu.  Stöppunni  tróð síðan kerlingin ofan í fuglinn með rekaldi einu sem smellpassaði í kok fuglsins.  Allt var þetta gert til að fá ofurstóra lifur þegar gæsinni yrði slátrað. 

Mér og fleiri Álftnesingum líður eins og umræddri gæs.  Bæjarstjórinn, Sigurður Magnússon, komst með fulltingi fulltrúa Álftaneshreyfingarinnar fyrir rúmu ári í þá draumastöðu og taka kjósendur klafataki og treður núna gegnum trektina ofan í kokið á okkur arfavitlausu rugli sem hann kallar metnaðarfulla uppbyggingu miðsvæðis. 

Forsöguna ættu flestir að þekkja.  Gerð var uppsteit og safnað undirskriftum vegna skipulags sem samþykkt var í fyrri bæjarstjórn á síðasta ári.  Því var fundið allt til foráttu og gert tortryggilegt á allan hátt.  Ótrúlegustu sögum var komið á kreik upp um meinta spillingu og alls kyns annarlegar hvatir þáverandi bæjarstjóra og bæjarfulltrúa Sjálfstæðisfélagsins.  Þessum sögum (rógburði) var dreift frá manni til manns og síðan vísuðu frambjóðendur Álftaneshreyfingarinnar óspart í þessar sögur með hálfkveðnum hætti m.a. í greinaskrifum og áróðursbæklingum  Þar vantaði ekki fögru fyrirheitin eins og neðangreind dæmi sýna í skrifum Sigurðar Magnússonar þá frambjóðanda Álftaneshreyfingarinnar  en núverandi bæjarstjóra í málgagni hreyfingarinnar fyrir kosningar:

1.        ,,Álftaneshreyfingin hafnar gamaldags stjórnsýslu og verktakapólitík um að byggja mikið og hratt, eins og rekin hefur verið á Álftanesi."

2.        ,, Álftaneshreyfingin vill hinsvegar fá fleiri tillögur og gefa íbúunum kost á að velja úr ólíkum lausnum og koma með sínar hugmyndir."

3.        Við skorum á hinn almenna íbúa að taka undir kröfuna um íbúakosningu vegna miðsvæðisins, ekki síst fylgjendur D-listans sem margir hafa sömu sýn á skipulagsmálin og við sem styðjum Álftaneshreyfinguna. Látum íbúana kjósa um ásýnd miðsvæðisins."

4.       ,,Við viljum lágreista, vandaða húsagerð, þjónustu sem er sniðin að þörfum lítils samfélags og í samræmi við óskir íbúanna. Mikilvægt er að skapa samstöðu um þessa uppbyggingu."

Þessi fögru fyrirheit  Sigurðar virðast gleymd í dag.  Hvað er annað að gerast í skipulagsvinnunni en gamaldags „hér ræð ég" pólitík í bland við hagsmuni verktaka sem virðast beita bæjarstjórn mikilli pressu.  Hvað varð um íbúalýðræðið?  Einn kynningarfundur og öll umræða í skötulíki.  Meira að segja fær skipulags- og byggingarnefnd  ekki að taka þessar tillögur til efnislegrar umræðu fyrr en 4. okt. s.l.  Halló, halló, hvað er að gerast hér? 

Förum yfir málið.  1.  Við höfum í dag samþykkt deiliskipulag af miðsvæði.  2.  Efnt var til verðlaunasamkeppni.  Ein tillaga hlaut samdóma álit dómnefndar til fyrstu verðlauna.  Almenn samstaða virtist vera um hana.  3.  Á grundvelli hennar var verðlaunahöfunum gert kleyft að útfæra hugmyndina til alvöru deiliskipulags.  Það hafa þeir gert en gallinn á núverandi tillögu þeirra er að búið er að gjörbylta hugmyndinni frá upphaflegri verðlaunatillögu fyrst og fremst með því að  auka byggingamagn og kúvenda umferðarskipulagi. 

Þá erum við í raun með þrjár tillögur sem almenningur á Álftanesi mætti taka afstöðu til.  Ég legg til að Álftnesingar fái að kjósa í almennum kosningum um þessar þrjár tillögur.  „Látum íbúana kjósa um ásýnd miðsvæðisins" klifaði núverandi bæjarstjóri á fyrir rúmu ári síðan.  Látum hann standa við stóru orðin.  KJÓSUM!

Að síðustu:  Skipulag miðsvæðisins er mikið hitamál og var lagt undir af hálfu Sjálfstæðisfélagsins í síðustu sveitarstjórnarkosningum.  Þar féll þáverandi meirihluti á þrem atkvæðum.  Þrem atkvæðum!  Fulltrúar Álftaneshreyfingarinnar kusu að túlka kosningarnar sem svo að hverfa ætti frá samþykktri skipulagstillögu og efndu  til arkitektasamkeppni.  Lái þeim hver sem vill.  Með sömu rökum mætti þá líka ætla að hinn helmingurinn hafi verið sáttur við skipulagið.  Ég skynja mikla og nokkuð almenna óánægju með framgöngu bæjarstjórans og fylgifiska hans í þessu máli.  Ég vísa því beint til orða hans í dreifibréfi sem borið var í hús fyrir síðustu kosningar:  Mikilvægt er að skapa samstöðu um þessa uppbyggingu."  Það voru orð að sönnu.  Er það ekki verðugt verkefni hans eimmitt nú?

Þessi grein birtist einnig í Mbl. í dag. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Stefán Friðrik Stefánsson

Sæll Sveinn

Góð skrif. Hef heyrt margar sögur af stöðunni á Álftanesi. Tel nokkuð öruggt að oddaatkvæðin sem færðu Sigurði bæjarstjórastólinn sjái eftir því að kjósa hann og eflaust eru þeir talsvert fleiri. Þetta voru dýr mistök fyrir Álftanes. Verst að fólkið þar þurfi að þola þetta lið í 32 mánuði enn.

mbk.

Stefán Friðrik Stefánsson, 21.10.2007 kl. 01:00

2 Smámynd: Gísli Gíslason

Sæll Sveinn,

Aldeilis frábær skrif og ég tek undir með Stefáni að það eru ótrúlega margir sem maður hittir sem harma einræðisleg vinnubrögð bæjarstjóra og það slys að Á listi komst til valda.  

Gísli Gíslason, 21.10.2007 kl. 08:18

3 Smámynd: Sveinn Ingi Lýðsson

Takk fyrir undirtektirnar, Stefán og Gísli.  Það er mín upplifun að mjög almenn óánægja kraumi í íbúum Álftaness með þá útfærslu verðlaunatillögu Gassa arkitekta sem nú á að kýla í gegn á nýju Íslandsmeti, þ.e. áður er fleiri átta sig á að hafa keypt köttinn í sekknum. 

Það er ekki vænlegt til framtíðar litið að troða þessari stóru óumbreytanlegu ákvörðun ofan í íbúa Álftaness án almennrar samstöðu um verkefnið.  Það verður að gerast annars erum við í vondum málum hreint út sagt. 

Sveinn Ingi Lýðsson, 21.10.2007 kl. 08:29

4 Smámynd: Gissur Pálsson

Álftanesshreyfingin er í eðli sínu "einnota" pólitískt afl og þessvegna öðruvísi en aðrar pólitískar hreyfingar. Það skiptir þá engu máli hvaða skoðun kjósendur, eða íbúar í þessu tilfelli, hafa. Þetta þýðir að þeir geta hegðað sér eftir eigin geðþótta og persónulegum hagsmunum allt kjörtímabilið.  Það eru blikur á lofti og við sem hérna búum fáum að gjalda fyrir þessa gjörninga.

Gissur Pálsson, 21.10.2007 kl. 10:13

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband