Nýr gjaldmiðill; Bananar í bananalýðveldi.

Það voru tveir lögreglubílar fyrir utan bensínstöðina.  Ég lagði bílnum og gekk inn.  Á móti mér komu tveir lögreglumenn með mann á milli sín.  Ég þekkti þann handjárnaða frá gamalli tíð og vissi líka að þar fór einn af útigangsmönnum borgarinnir.  Blessaður strákurinn, löngu orðinn útúr steiktur af langvarandi fíkniefnaneyslu auk þess sem honum hafði aldrei verið ljóst hvað hugtakið eignarréttur þýddi.  

Inni á stöðinni heyrði ég á tal starfsfólksins og sagði hneykslað frá því að "rónadjöfullinn" hefði verið gripinn  með tvær kók og bananaknippi inn á sér og reynt að komast með það úr án þess að borga. "Ógeðs skítagaur" sagði rauðhærða afgreiðslustelpan "af hverju lokar löggan ekki þetta inni" spurði hún með vandlætingartón á meðan ég reyndi að vekja athygli hennar á girnilegu rúnnstykki sem mig langaði að gæða mér á.

Ég settist við gluggann með kaffi og rúnnstykki.  Seinni lögreglubíllinn rann út af planinu.  Á borðinu lá Mogginn.  Ég fletti honum annars hugar en allt í einu staldraði ég við fréttina af emírsbróðurnum frá Katar og viðskiptum hans og Ólafs Ólafssonar við Kaupþing.  Enn ein vonda fréttin og það þyrmdi yfir mig.  Þar léku menn sér að því í fullkomnu siðleysi að moka til sín annarra fjármunum og skilja síðan skuldirnar eftir hjá mér, börnunum mínum, barnabörnunum og öllum öðrum íslendingum sem ekkert höfðu til saka unnið annað en trúa þessum siðlausu lygamörðunum sem sögðu allt í himnalagi, allar götur þar til veröldin hrundi.

Ég gerði orð þeirrar rauðhærðu að mínum: "Ógeðs skítagaurar. Búum við í einhverju andsk... bananalýðveldi eða hvað"?

Já, auðvitað búum við í bananalýðveldi.  Er þá ekki lausnin komin.  Auðvitað, skiptum á krónunni og tökum upp nýjan gjaldmiðil; Banana - hvað annað.

Á leiðinni að bílnum hugsaði ég með mér: "Hvað skyldu Ólafur þurfa að stela mörgum banönum til að verða leiddur út í handjárnum?

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Já það er eitthvað mikið að þegar lítilmagninn er leiddur í járnum með bana naknippi innanklæða sér til lífsviðurværis og allir bankaræningjarnir ganga lausir.

Ef að þú ógnar bankastarfsmönnum með hnífi og ferð út með peningana í poka ertu settur í steininn en ef að þú rænir þinn eigin banka(og nokkra aðra líka helst) einfaldlega hreinsar allt út úr bankanum þínum í formi millifærslna og óábyrgra lána þá sleppur þú og ofan á allt er bara sagt. Ekki benda á sökudólga í þessu máli. Ég er svo sammála þegar þér finnst þú vera staddur í miðri skáldsögu, akkúrat þannig hefur mér liðið síðustu ár. Ég upplifi mig í skáldsögu á apaplánetu.

Bryndís (IP-tala skráð) 21.1.2009 kl. 08:42

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband