Nei takk, ég ætla ekki að borga skuldir íslensks sjávarútvegs, enn einu sinni!

Við hrun efnahagslífs þjóðarinnar koma þau nú í ljós meinvörpin í þjóðarlíkamanum eitt af öðru. Eitt það stærsta liggur í sjávarútvegi. Ein mesta blekking síðustu áratuga hefur verið sú fjarstæða að íslenskur sjávarútvegur sé sjálfbær og standi rekstrarlega á eigin fótum. Allt annað en útgerðin í ESB sem ekki gengur nema á beinum og óbeinum ríkisstyrkjum.

Á árum áður var gripið aftur og aftur inn í efnahagslífið, oftast með beinum gengisfellingum eða öðrum sértækum aðgerðum, nánast alltaf til að halda veikburða sjávarútveginum á floti. Á hvern féll kostnaðurinn? Jú, á íslenskan almenning í formi minnkaðs kaupmáttar, verðbólgu, okurvaxta og verðtryggingar.

Steininn tók svo úr við setningu kvótalaganna 1983 og framsalsheimildina 1990. Þar var grunnurinn lagður að hinni fullkomnu blekkingu. Látið var í veðri vaka að þetta væri til að vernda fiskistofna við Ísland. Akkúrat. Hvernig skyldi það nú hafa gengið? Svari hver fyrir sig.  

Stærstu mistökin lágu þó í úthlutun aflaheimildanna. Alþingi ákvað að þær skyldu renna til eigenda fiskiskipa. Ekkert var hugað að hagsmunum sjómanna, verkafólks, fiskvinnslu eða sveitarfélaganna. Allt rann án endurgjalds í vasa einnar stéttar manna. Þarna var kominn grunnur að þeim ójafnaði og græðisvæðingu sem við súpum nú seyðið af. Þarna varð til óefnislegur gróði við sölu á óveiddum aflaheimildum. Fjármálastofnanir tók veð í aflaheimildunum þrátt fyrir skýr lagaákvæði um eign þjóðarinnar (væntanlega ríkisins) á þeim. Nýtt umhverfi skapaðist, veröld „hrifsaranna“.

Veðsetningin var hrifsuruum fundið fé. Öllu var stjórnað úr herbúðum LÍÚ þar sem kvótanum var miðlað milli útgerða. Og alltaf hækkaði verðið. Að sjálfsögðu gerði það það. Enda auðvelt þegar öll trompin voru komin á eina hendi. A seldi B, B seldi C og svona koll af kolli og alltaf hækkaði verðið á heimildunum. Það var líka heppilegt til aukinna veðheimilda. Viðskiptalíkanið var þar sama og Baugsarar, Fonsarar, Bjöggar og aðrir seinni tíma skúrkar nýttu sér. Útgerðarmennirnir botnskuldsettu fyrirtækin, mjólkuðu miskunarlaust allt lausfé og nýttu allar lánalínur og skelltu sér á hlutabréfamarkaðinn.  Þjóðinni var talin trú um stórgróða sjávarútvegsins en því miður byggðist hann meira á væntingum en veruleika.  Algjör sjónhverfing og eftirleikinn þekkjum við.

Ég er sammála Þorvaldi Gylfasyni og fleiri fræðimönnum sem hafa bent á að þarna liggi rætur vandans. Þarna giltu ekki lögmál markaðarins, heldur sérhyggjunnar. Almenningur borgaði brúsann. Það þekkir fólkið í sjávarbyggðunum sem missti lífsafkomuna, eignirnar og sjálfsvirðinguna þegar kvótagreifanum þóknaðist í nafni hagræðingar að selja lífsbjörgina frá fólkinu. Ég fullyrði að framkvæmd þessa einokunarkerfis mun sagan dæma og setja á bekk með annarri illræmdri einokun; dönsku einokunarverslunarinnar.Nú er allt farið fjandans til og þrátt fyrir góðar meiningar (eða voru það meiningar) um verndun og uppbyggingu fiskistofna í hafinu við Ísland hafa helstu nytjastofnar hrunið. Hver er þá tilgangurinn?

Enn og aftur á að seilast í vasa almennings. Sjávarútvegsráðherrann vill fella niður skuldir sjávarútvegsins sem orðnar eru til af framvirkum gjaldmiðla og afleiðusamningum auk glórulausrar skuldsetningar. Blöðruhagkerfi kallaði ágætur maður þetta til sannmælis. Svo sprakk blaðran. Var einhver sem bað þessi fyrirtæki að taka þessa áhættu. Ég bað þá ekki og neita því að borga oftar skuldir þeirra sama hvaða fj..... barbabrellur á að framkvæma til þess. Til þessa nýtur þessi veruleikafirrti ráðherra fullþingis ráðvandra ofurmenna á borð við Árna Johnsen og Friðriks Arngrímssonar framkvæmdastjóra LÍÚ svo einhverjir séu nefndir.

Ef niðurstaðan verður eins og þessir herramenn fara fram hljóta aðrir skuldarar að fá sömu afgreiðslu. Ef ekki er ég hræddur um að hér verði allt vitlaust.

Svo einfalt er það.


mbl.is Skuldastaðan mun batna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Gísli Ingvarsson

Þetta er bara allt rétt hjá þér! Ef þjóðin á að borga skuldir útgerðarinnar líka þá er allt réttlæti fyrir bí. Dæmigert að Árni Johnsen verði svo talsmaðurinn fyrir svínaríið.

Gísli Ingvarsson, 4.1.2009 kl. 20:41

2 identicon

heyr heyr,þetta mættirðu gera aðgengilegt á eyjunni eða öðrum netmiðli

árni (IP-tala skráð) 4.1.2009 kl. 20:51

3 Smámynd: Ólafur Þór Gunnarsson

Engar áhyggjur, ef Árni Johnsen mælir með einhverju þá er það yfirleitt þess eðlis að engin tekur mark á því.

Í Alvöru talað!

Ólafur Þór Gunnarsson, 4.1.2009 kl. 21:33

4 Smámynd: Sveinn Ingi Lýðsson

Þakka þér Kristinn, fáir sem þekkja þessi mál betur en þú. Mér alltaf fundist þessi leið skynsamleg.

Í henni felst:

A. Kvótinn er sameign almennings.

B. Kvótatímabilið er 5 ár í senn.

C. Afnotarétturinn er boðinn út til fimm ára, fimmtungur árlega þannig að kerfið rúllar á fimm árum (20% á ári til 5 ára).

D. Öllum er heimilt að bjóða í. Ekki er skilyrði að bjóðendur eigi skip. Slíkt skiptir engu máli. Það þarf hvort eð er skip til veiðanna. Þau eru til.

E. Kvóti er bundinn svæðum, þó er 5% hans færanlegt milli svæða innan tímabilsins. Hverjum bjóðanda er bara heimilt að leigja allt að 5% kvótans innan hvers svæðis og að auki 2,5% á öðru svæði.

F. Öllum afla er landað á löglegan markað. Markaður er ábyrgur fyrir skilum á afgjaldinu. Framsal til þriðja aðila er óheimill en fá má aðra til að veiða kvótann.

Þarna er farin einföld útboðsleið á takmörkuðum gæðum. Leið sem víða er farin, s.s. í veiðirétti, námrétti o.fl. sem er almannaeign. Með þessu er tryggð hámarksarðsemi, jafn aðgangur allra að réttinum til veiða auk þess að eigandi nýtur afraksturs af eign sinni.

Í dag er tvennt í stöðunni. Í fyrsta lagi að láta veðin falla og þá eignast væntanlega erlendir kröfuhafar kvótann. Í öðru lagi leysir ríkið (almenningur) kvótann til sín og endurúthlutar honum með útboði eins og hér er lýst eða án annan hagkvæman hátt.

Ef almenningur á að taka á sig skuldbindingar og láta sömu menn halda áfram að misfara með þess eign okkar er komið í mikið óefni sem ég vil varla hugsa til enda.

Sveinn Ingi Lýðsson, 4.1.2009 kl. 22:03

5 identicon

Ég er algjörlega sammála. Löngu tímabært að taka aftur til þjóðarinnar aflaheimildir við Íslandsstrendur. Því landsbyggðarfólk hlítur að eiga skaðabótarétt vegna verðfralls eigna þegar kvótinn var stolinn og síðan seldur frá byggðarlögunum í hagræðingarskini fyrir útgerðarmenn. Eftir hafan setir starfsmenn í fiskvinslu með verðlausar eignir um allt land.

Kvótakerfi sem minna en engu hefur skilað í auknum fiskveiðiheimildum. Nú þarf þjóðin að taka lán í þeim bönkum sem eru lánshæfir og eru þeir staðsettir allt í kringum landið. Auka þarf kvótann um 100 til 150 þúsund tonn í þorski og frjálsan meðafla. Skjótum allan þann hval sem Japanir og innanlandsmarkaður tekur við 200 til 300 stórhvali. Það mætti að skaðlausu reka annan hvern fiskifræðing hjá Hafransóknarstofnum og ráða aðra með nýjar hugsanir ættaðar frá Jóni Kristinssyni. Sem reikna ekki stofnstærðir í stórtölvum og hafa forsendur útreikninga þannig að niðurstöðurnar séu í samræmi við yfirlýsingar forstjóra Hafró, sem hafa verið tómt rugl fram að þessu.

Jón Halldór Gunnarsson (IP-tala skráð) 4.1.2009 kl. 23:14

6 identicon

Og Geir Haarde og fleiri hafa oftar en einu sinni og oftar en tvisvar sagt í ræðu og riti að það sé litið til Íslands því kvótakerfið sé svo frábært!

Sammála - ég ætla heldur ekki að greiða skuldir þessara arðræningja oftar.

ÞA (IP-tala skráð) 5.1.2009 kl. 12:13

7 Smámynd: Sveinn Ingi Lýðsson

Afæturnar í LÍÚ hafa alltaf átt vísan stuðning hjá stjórnmálamönnum.  Svo virðist sem þeim sé alveg sama um hagsmuni umbjóðenda sinna, kjósendanna.  Þeir hafa líka gleypt hvert það blekkingaragn sem LÍÚjarar og skósveinar þeirra kastað út.   Kjósa delluna yfir sig aftur og aftur.

Eitt sinn var talað um pilsfaldakapítalisma.  Hann fólst ofureinfaldlega í því að einkavæða hagnaðinn en þjóðnýta tapið.

Sveinn Ingi Lýðsson, 5.1.2009 kl. 12:58

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband