Föstudagur, 26. desember 2008
Á leið til Lóu
Hún stóð þarna á horninu, álút með veskið sitt í beggja handa taki svona svipað og lyftingamaður upphafi réttstöðulyftu. Þarna á horninu á Ervallagötu og Batavegi var ekkert slíkt að gerast. Bara kyrrstaða. Ég sá hana útundan mér þegar ég beygði inn á Ervallagötuna og vonaði að slabbið undan hjólum bílsins hefði ekki slest á hana.
Mynd hennar festist í huganum, staðan, stellingin, aldurinn og fábreyttur klæðnaðurinn. Ég sinnti erindum mínum og keypti skrúfurnar sem áttu að festa fallegu myndina mína upp í kvöld. Skyldi hún fara betur fyrir ofan skrifborðið eða átti ég að setja hana fram á ganginn. Þá sæju hana fleiri. Þettað og fleira var ég að hugsa á leiðinni til baka. Um leið og ég ók um gatnamótin inn á Bataveginn sá ég hana aftur. Hún hafði fært sig aðeins fjær akbrautinni, eins gott, því fyrri staðurinn var nánast hættulegur. Stellingin sú sama. Þetta gat ekki verið í lagi hugsaði ég í heitum bílnum á leiðinni aftur í vinnuna. Eins gott að flýta sér, ekki gott að stelast svona burt úr vinnunni þar sem haugur af verkefnum biðu.
Fallega myndin mín og vinnan þynntust út í huganum en myndin af konunni festist því betur. Skýrðist upp; þessi álúta stelling, gamlar upplitaðar íþróttabuxur, græn prjónapeysa hneppt í hálsinn og gráar hárlýjunarnar sem stóðun niðurundan blárri kollhúfu sem skartaði 66°N merkinu. Svarta veskið. Ég kom að hringtorgi en í stað þess að aka beinustu leið áfram í vinnunna hafði ég snúið við. Vera konunnar þarna var ekki í lagi og hugsunin um hana dró mig til baka.
Það var farið að snjóa aftur. Kannski frekar slydda því snjókornin voru hlussustór og blaut. Hundslappadrífa var þetta kallað í minni sveit. Axlir og höfuð hennar hvít af snjókomunni þar sem hún stóð grafkyrr. Enn á sama stað. Ég renndi bílnum upp á stéttina, stoppaði og steig út. Hugsaði eitt andartak hvað ég væri eiginlega að gera þarna. Farinn enn og aftur að skipta mér af einhverju sem mér kæmi nákvæmlega ekkert við. Hún leit augnablik upp þegar ég nálgaðist og það fyrsta sem ég tók eftir voru rauð för á fölu nefi eftir gleraugu. Gleraugu sem vantaði.
- Góðann daginn, sagði ég og kynnti mig.
-Hvar er Lóa svaraði hún um leið og blimskakkaði augunum á mig, - ég er bara að fara til Lóu.
-Hver er Lóa, spurði ég, - ertu eitthvað að villast?
-Lóa, Lóa mín ætlaði að sækja mig, ég er bara að fara til Lóu, um leið og hún hagræddi veskinu í höndunum.
-Hver er Lóa? spurði ég, -og hvar áttu heima?
Hún leit upp og horfði í augun á mér. Finndu Lóu, finndu Lóu, og úr augnkróki hennar sá tár renna. Augun voru skörp og hvöss en í þeim var fjarrænt blik. Er þér ekki kalt að standa hérna? spurði ég um leið og ég tók í hendi hennar. Hendin var ísköld en hún sagði bara:
-Lóa mín, Lóa mín.
-Ég skal hjálpa þér en þú verður að segja mér hvar þú átt heima. Ég sá hávaxna vel klædda unga konu nálgast.
Hvað er að hérna, spurði hún.
-Hún finnur ekki einhverja Lóu, sagði ég, -vill ekki segja eða veit ekki hvar hún á heima. Unga konan spurði:
-Hvað heitirðu? og beindi spurningunni að þeirri gömlu.
Ekkert svar en tárunum hafði fjölgað á kinnum hennar og í augum hennar mátti lesa algjört umkomuleysi. Unga konan hafði opnað veskið hennar.
Hvað ertu að gera? spurði ég.
-Bara að reyna að finna einhver skilríki, kort eða eitthvað, ertu búinn að hringja á lögguna. Það verður að koma kellingunni eitthvað. Hún er ábyggilega búin að standa hér í tvo tíma.
-Nú, sagði ég hissa, þér hefur ekki dottið í hug að hringja og láta athuga málið?
-Kannski, ansaði hún, ég hef bara andskotans nóg með mig. Bíddu, bíddu hér er mynd af henni. Hún dróð eitthvað grænt upp úr veskinu.
-Lóa, Lóa mín hvar ertu, ekki taka þetta, sagði hún og reyndi að toga græna snepilinn úr höndum konunnar.
-Helduru að sú gamla sé ekki með ökuskírteini sagði konan sigri hrósandi og veifaði grænu ökuskírteininu framan í mig. Tárunum fjölgaði nú á kinnum gömlu konunnar og ekkakippir fóru um herðarnar. Á skírteininu stóð nafnið: Guðbjörg Alda Pálsdóttir Holti II, Lónsfirði. Ok, það var þó kennitala. Fædd 1 jan. 1929. Bara nokkrir dagar í níutíu ára afmælið.
-Anskotans andskoti tautaði Guðbörg Alda Pálsdóttir og leit reiðilega á konuna.
-Vertu bara róleg, við erum að hjálpa þér sagði konan, ég heiti Þóra og bý hérna á móti. Á meðan hringdi ég á Neyðarlínuna og eftir kennitölunni komst ég að því að hún átti heimili á Dvalarheimilinu. Á meðan ég talaði við neyðarlínumanninn sá ég snjóinn við fætur hennar litast gulan. Hún hafði skipt skapi. Var orðin reið.
-Af hverju hringdir þú ekki Lóu? Ertu að kalla á lögguna, ég vil hana ekki.
-Segðu mér númerið hennar Lóu, spurði ég.
-Ég man það ekki, ég vil fara heim.
-Á ég að keyra þig heim spurði ég.
-Geturðu það, sagði konan sem nú hét Þóra. Hún hafði farið úr kápunni og sett hana yfir herðar Guðbjargar Öldu.
-Ekkert má sagði ég og síðan leiddum við gömlu konuna að bílnum og hjálpuðum henni í framsætið.
Ég tók kápuna af henni og rétti Þóru. Takk fyrir hjálpina sagði ég um leið og ég settist undir stýri.
Það voru tíu tröppur upp að inngangi Dvalarheimilisins. Tíu tröppur og við leiddumst upp þær og inn um dyrnar. Þar var ys og þys og starfsfólk á fleygiferð fram og til baka um anddyrið. Eitthvað sem líktist móttöku blasti við en þar var enginn til svara.
-Afsakaðu sagði ég og sneri mér að stúlku í bláum slopp. Sorry, æ dónt tala íslansk svaraði hún og brosti. Líklega var hún ekki ættuð úr Grímsnesinu, dökkt yfirbragðið benti frekar til fjarlægari heimshluta. Svo hélt hún áfram án þess svo mikið sem gjóa augum á þá aumu konu, Guðbjörgu Öldu Pálsdóttur. Ég sneri mér að einkennisklæddum manni sem leit út fyrir að vera einhverskonar öryggisvörður:
-Fyrirgefðu, ég kom með hana Guðb.......
-Talaðu við afgreiðsluna svaraði hann, benti á móttökubúrið og dró upp talstöð. Úr talstöðinni heyrðist rödd sem spurði hvort hann ætlaði ekki að koma í kaffi.
Hjálpin barst í líki breiðvaxinnar frúar sem kom siglandi þvert yfir anddyrið eins og skonnorta undir seglum. Hér kom sú sem valdið hafði.
-Gugga mín, hvað er að sjá þig elskan mín? Öll blaut....hvað er að sjá. Varstu nú enn einu sinni á einhverju flakki. Hún leit á mig og mældi mig út frá toppi til táar.
-Hvaða herramaður er þetta nú, og benti með gullskreyttum fingri á mig. Frú Guðbjörg Alda Pálsdóttir leit á mig með þessu hvassa augnaráði sem ég hafði sé fyrst í augum hennar.
-Hann vildi ekki keyra mig til Lóu, sagði hún ákveðið og gekk af stað inn eftir ganginum. Ég leit á þá gullskreyttu og spurði hvort yrði ekki í lagi.
-Jú, jú elskan mín, takk fyrir að skutla henni Guggu. Hún er orðin svo rugluð blessunin. Hún hefur líklega ætlað til Lóu.
-Hver er Lóa? spurði ég.
-Lóa, veistu það ekki, það er dóttir hennar. Hún býr í Vestmannaeyjum. Hún kímdi, ýtti gleraugunum upp á nefið og sagði:
-Hún er búinn að vera á leiðinni til Lóu síðustu tíu tólf árin blessuð. Alltaf að fara út sama hvernig viðrar. Henni er alltaf bjargað alla vega hingað til. Svo snerist hún líka á hæl og hélt á eftir vinkonu sinni. Sneri sér svo við brosti út í annað og sagði:
-Gleðileg jól vinur. Hafðu það bara gott.
Athugasemdir
Áhrifamikil saga
takk fyrir
Ragnheiður , 26.12.2008 kl. 12:44
Þær eru margar Guðbjargirnar án bjargar. Og hefur fjölgað. Umkomuleysi og/eða einsemd eru að verða landlægur "faraldur" en því miður hefur "Sveinum" til björgunar ekki fjölgað samsvarandi.
Þakka þér Sveinn Ingi.
Guðný (IP-tala skráð) 26.12.2008 kl. 16:23
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.