Erum við að gleyma Fullveldisdeginum?

Á leiðinni í vinnuna í morgun hlutstaði ég á Rás 2.  Þar var morgunþáttastjórnandinn að bjóða hlustendum góðann daginn, sagði hann merkilegan, sérlega fyrir þá sök að þennan dag, 1. des. hafi Rás 2 farið í loftið í fyrsta sinn fyrir 25 árum.  Síðan taldi stjórnandinn upp hvað helst annað hefði gerst þennan dag í sögu þjóðarinnar.

Ekki man ég hvað stjórnandinn taldi upp en hitt man ég að ekki minntist hann einu orði á að Ísland hlaut fullveldi þennan dag, 1. des. 1918.  Íslensk þjóð á þess vegna 90 ára fullveldisafmæli í dag.  Einhvern veginn er það svo að þessi merkilegi dagur hefur fallið nokkuð í skuggann af 17. júní en er þó engu að síður ein merkasta og stærsta varðan á þrautagöngu þjóðarinnar til sjálfstæðis.  Meira að segja fellur dagurinn í skuggann af 25 ára afmæli Rásar 2.  Vissulega má óska þeim rásarmönnum og konum til hamingum með áfangann en hann telst þó ansi léttvægur miðað við 90 ára afmæli sjálfstæðrar þjóðar.

Ísland. Til hamingu með daginn!


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Stefán Þór Steindórsson

Í dag finnst mér það merkilegra að rás2 á afmæli. 

Hitt hefur verið grafið neðar í vitund manna enda kanski ekkert til að vera stoltur af á þessum tímum. Viðhöfum eitt miklum tíma í eitthvað sjálfstæði sem kanski er aðkoma okkur í koll núna. En líkt og forsetinn sagði við setningu alþingis í haust ber okkur að endurvekja þennan dag ...... ég held bara að við ættum að gleyma honum núna í ár.... 

Stefán Þór Steindórsson, 1.12.2008 kl. 12:12

2 Smámynd: Jón Valur Jensson

Sæll, Sveinn. Tek sérstaklega undir það, sem þú segir hér um 1. desember, þann dag sem við fengum okkar sjálfstæði og fullveldi til allra mála. Ritaði áðan sjálfur um þetta sama mál, þ.e. um þá almennu vanrækslu við minningu dagsins, sem var að angra þig við ritun greinar þinnar, sjá pistil minn á Vísisbloggi: Kunna Íslendingar ekki að meta sjálfstæði sitt?

Það er ennfremur stórfurðulegt, hve óþjóðhollir og skilningsvana margir ungu mennirnir eru orðnir á gildi sjálfstæðis. Færeyingar og Grænlendingar keppa eftir því, en þessi Stefán Þór hér ofar og Rásar-2-maðurinn virðast gersneyddir skilningi. Er þetta kannski afleiðingin af vanrækslu við sögukennslu okkar í skólum? Hvað skortir á hjá þessum mönnum – ímynda þeir sér, að það sé betra að ráða ekki yfir auðlindum sínum og löggjöf?

Sjá einnig talsvert um þessi mál í enn nýrri grein minni: Stjórnvöldum mótmælt á Arnarhóli – og baráttan sístæða fyrir sjálfstæði Íslands og auðlindum þess.

Með góðri kveðju, 

Jón Valur Jensson, 2.12.2008 kl. 06:29

3 Smámynd: Stefán Þór Steindórsson

Takk Sveinn þessi fögru orð.... Sneyddur skilningi segir þú...


En hvað gefur þér rétt til að meta hvaða hátt fólk hefur á "hátíðarhöldum" í tilefni dagsins 1.des, og hver segir það vera rétt að allir eigi að hoppa um í gleði og söng eingöngu vegna þess að Ísland varð fullvalda ríki innan danska konungspakkans þann dag?

Það er nú þannig í þessu landi að við höfum í þau ár sem ég hef lifað (30 talsins) yfirleitt haldið þennan dag hátíðlegann í formi frídags. Hátíðarhöldin hafa gjörnsamlega farið framhjá stærstum hluta þjóðarinnar og því gat verkalýðshreyfingin væntanlega réttlætt þá ákvörðun sína að semja þenna frídag af sér. Ég meina til hvers að hafa frídag í nafni fullveldis ef fólki er gjörsamlega sama um tilefnið..... Frí er frí hugsar fólk oftast.

Ég er ekki sneyddur skilningi þó svo að þú lesir það úr skrifum mínum í athugasemdarkerfi blogfærslunnar sem ég vitna í hér að ofan. Ég er ekki sneyddur skilningi þó svo að ég hafi persónulega fundist meira til þess koma að Rás 2 ætti afmæli heldur en það að 90 ár voru frá því að Ísland varð fullvalda ríki. Ég hef aldrei haldið uppá þann atburð og sé ekki afhverju ég á að vera skildaður til þess að halda hann eingöngu vegna þess að ég fæddist á Íslandi. Ég hef valið að hlusta á Rás 2 alla daga og vel því að halda uppá þeirra afmælisdag frekar. Þetta þarf þó ekki að þýða það að ég virði ekki sjálfstæðisbaráttu íslendinga og sé þakklátur þeim mönnum sem unnu þann frækna sigur að gera Ísland að því sem það er í dag.

En til hamingju með fullveldisdaginn í gær. 

Stefán Þór Steindórsson, 2.12.2008 kl. 08:48

4 Smámynd: Jón Valur Jensson

Það mætti halda, að Stefán meti Rás 2 meira en fullveldi þjóðarinnar. Þrátt fyrir vissulega nokkur jákvæð ummæli hans í þessu seinna innleggi virðist eins og sjálft hugtakið fullveldi hafi ekki mjög skýra og gildisfulla merkingu í huga hans (sbr. orðin: "fullvalda ríki innan danska konungspakkans"). Og fyrra innleggið er enn að mínu mati afleit súpa.

Jón Valur Jensson, 2.12.2008 kl. 09:16

5 Smámynd: Stefán Þór Steindórsson

Já ég met rás 2 meira en fullveldi þjóðarinnar þessa dagana (ljái mér það hver sem vill) Ég er ekkert svo viss um að við eigum neitt að vera að þrjóskast í þessu sjálfstæði enda höfum við sýnt það og sannað að við erum einfaldlega ekki í stakk búin að vera sjálfstæð þjóð, þetta er bara tilraun sem mistókst.

Gott að þú getur lesið hvað hugtakið fullveldi er óskýrt í huga mér og hvað gildislausa merkingu það hefur. Ekki ert þú kallinn sem svaraði ABC bréfakassanum á sínum tíma?... Hann gat nefnilega sagt til um aldur barna miðað við skrift.. sbr "hvað lestu úr skriftinni minni"

Stefán Þór Steindórsson, 2.12.2008 kl. 10:49

6 Smámynd: Sveinn Ingi Lýðsson

Takk fyrir athugasemdina Stefán Þór.  Vissulega get ég stundum verið skilningssljór úr hófi fram og stundum "sneyddur" skilningi einhvers.  Samt held ég að það eigi ekki við hér.

Varstu ekki að beina þessu til Jóns Vals?

Sveinn Ingi Lýðsson, 2.12.2008 kl. 12:55

7 Smámynd: Stefán Þór Steindórsson

Sveinn Ingi. vissulega átti þessi athugasemd við Jón Val og hans athugasemd.

Annars veit ég ekki hvort það er rétt að þú ert sneyddur skilningi en þú verður að eiga það við þig. Ég tek ekki undir það að ókönnuðu máli. Hinsvegar sést það víst á minni fyrstu athugasemd að ég sé gersneyddur skilningi og brá mér svolítið við að lesa þau skrif Jóns Vals um málið. Hef hreinlega talið mig ranglega með skilning.  En svona er lífið.. fullt af óvæntum atburðum. 

Stefán Þór Steindórsson, 2.12.2008 kl. 13:07

8 Smámynd: Sveinn Ingi Lýðsson

Í mínum huga er 1. des. mun merkari dagur í sögu þjóðarinnar en t.d. 17. júní.  Sá dagur finnst mér alltaf einhver mont- og/eða tyllidagur sem þótti heppilegri þar sem hann var að sumri.

Víðast hvar í sjávarbyggðum Íslands hefur fyrsta helgin í júní, sjómannadagurinni, mun hærri"status" en 17. júní miklu mun hátíðlegri  og meira úr honum gert.  Sumsstaðar standa hátíðahöldin í marga daga.

Hefjum Fullveldisdaginn til vegs og virðingar.  Minning þeirra sem börðust fyrir sjálfstæði þjóðarinnar á síðari hluta nítjándu aldar og fyrri hluta þeirra tuttugustu á það skilið.

Sveinn Ingi Lýðsson, 2.12.2008 kl. 13:17

9 Smámynd: Jón Valur Jensson

Tek undir þetta með þér, Sveinn Ingi, þessar tillögur þínar. Raunar hygg ég, að ráðamenn hafi líka átt sinn hlut að því að láta 1. desember falla í skuggann af 17. júní, af því að þeir ruddust hver um annan þveran fram til að eigna sér frumkvæði og heiðurinn af lýðveldisstofnuninni og hversu miklu meiri áfangi hún væri en 1918. Þegar þannig var gengið fram og 1. des. afnuminn sem hátíðisdagur, varð frekar lítið úr hlut aldamóta- og heimastjórnarára-mannanna og heiðri þeirra.

PS. Mjög gott atriði kringum þau mál kom fram í ræðu Styrmis í gær, en ég er að vonast til að sjá hana birta sem fyrst, helzt í Morgunblaðinu. 

Stefán Þór, í þessu næstseinasta innleggi þínu, kl. 10:49, staðfestirðu matið á afstöðu þinni í innleggjum mínum hér ofar. Þú metur "Rás 2 meira en fullveldi þjóðarinnar þessa dagana (ljái mér það hver sem vill)," segirðu og bætir við: "Ég er ekkert svo viss um að við eigum neitt að vera að þrjóskast í þessu sjálfstæði enda höfum við sýnt það og sannað að við erum einfaldlega ekki í stakk búin að vera sjálfstæð þjóð, þetta er bara tilraun sem mistókst."

Þetta er vanmat á fullveldi þjóðarinnar. Það snýst ekki um einhverja dagsetningu fyrir 90 árum, heldur allt það frelsi, öll þau réttindi sem við njótum sem íslenzkir borgarar í frjálsu lýðræðisríki sem ræður sjálft yfir auðlindum sínum og lögum og ákvarðanatöku.  Viljir þú, að landið sé annarra manna hjálenda, þá get ég ekki annað en vorkennt þér. Ef þú værir einfaldlega ópólitískur og vildir bara hlusta á þína Rás 2 eða popprásir, án þess að hafa áhyggjur af sjálfstæði þjóðar þinnar, þá liti ég nú á þig sem hvern annan óharðnaðan ungling og myndi bara yppta öxlum yfir því. En nú á þetta alls ekki við um þig, yfirlýsingar þínar eru þvert á móti pólitískar og það af lökustu sortinni. Sorrí, þetta er það sem mér sýnist.

Jón Valur Jensson, 2.12.2008 kl. 18:29

10 Smámynd: Sveinn Ingi Lýðsson

Jón Valur. Ræða Styrmis er vistuð hér: http://www.amx.is/?/stjornmal/288

Sveinn Ingi Lýðsson, 2.12.2008 kl. 19:02

11 Smámynd: Stefán Þór Steindórsson

Heyrðu Sveinn. Það er nú svosem rétt að 1.des er merkari í sögulegu samhengi en 17.júní , allavega er hægt að færa rök fyrir því að hann sé það þó svo að þeir menn finnist sem eru því ósammála. En það að hann liggur að sumri til vegur eflaust þungt. Fólki almennt þykur nú meira vænt um 17.júní en 1.des en það stafar eflaust af vana.  Ég hef nú brosandi skrifað mínar athugasemdir hér í dag og býst við að þið hafið líka gert það að einhverjum hluta. Að sjálfögðu veit ég hvað þessi dagur (1.des) þýðir fyrir okkur og almennt þá tel ég þann dag mikilvægann okkur sem þjóð. Ég sagði það líka í fyrstu athugasemd minni að ég teldi að við ættum bara að gleyma þessum degi í ár. Við getum vonandi haldið hann með pompi og pragt eftir10 ár og fagnað þess að 100 ár eru liðin og við búin að jafna okkur á stærstu hörmungum sem þjóðin hefur orðið fyrir.  En ég stend líka við það að í dag fannst mér meira fagnaðarefni að Rás 2 á afmæli. Stöðin markaði þáttaskil í þjóðfélaginu og er enn leiðandi útvarpsrás.

Til þín Jón Valur verð ég nú bara að segja ALLTÍLAGI. Það fer eitthvað óttarlega í taugarnar á þér að ég fagni afmæli rásar 2 meira en 90 ára afmæli fullveldis þjóðar sem er að gera þjóðina að einhverju sem ég enn veit ekki hvað verður....Það getur verið að ég sé ópólitískur í þínum huga (það eru að þínu mati þeir sem hlusta á svokallaðar "popprásir"  Þ´vi hvert mannsbarn veit það að að hlusta á popp og að hafa áhuga á pólitík fer ekki saman.  En svona get ég sagt með góðri samvisku enda er ég pólitískur og það af "lakari" sortinni. 

En við þrír skulum hittast eftir 10 ár og fagna 100 árunum saman.

Ps. Jón Valur það er búið að leggja niður Z í íslensku málfari.. en menn geta jú smitast af lestri "málgagnsins" ég get allveg lesið hvað þú ert að skrifa samt

Stefán Þór Steindórsson, 2.12.2008 kl. 21:27

12 Smámynd: Sveinn Ingi Lýðsson

Auðvitað er ég kátur með rás 2. Hún er bara á allt öðru plani og í sjálfu sér ekki samanburðarhæf við þessa stærstu atburði íslanssögunnar.

Það er rétt að rásin opnaði leiðina og ruddi braut þeirra er á eftir runnu. Alla tíð hefur hún borið höfuð og herðar yfir samkeppnisaðilana, fyrst og fremst fyrir þá sök að þar er boðið upp á metnaðarfullt vel unnið efni sem stærstur hluti hlustenda nýtur.

Að bera þetta saman við fullveldishátíð er eins og bera saman epli og appelsínur.

Mér líst vel á hugmyndina um hitting á 100 ára afmæli fullveldisins.

Bestu kveðjur til ykkar og takk fyrir athugasemdirnar.

Sveinn Ingi Lýðsson, 2.12.2008 kl. 22:59

13 Smámynd: Jón Valur Jensson

Já, ég tek undir þetta með þér, Sveinn, um hittinginn eftir 10 ár, og fagna því, Stefán, að það er orðið friðsamlegra milli okkar. Hlustaðu eins lengi á popp og þig lystir, það stendur mér ekki fyrir þrifum. Gott er þegar bræður kunna að búa í friði. Svo vil ég þakka Sveini sérstaklega fyrir þann góða greiða að gefa hér upp vefslóð á hina frábæru, fræðandi og hvetjandi ræðu Styrmis Gunnarssonar 1. desember í Kópavogi. Skora á alla að lesa hana!

Jón Valur Jensson, 3.12.2008 kl. 02:04

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband