Fimmtudagur, 9. október 2008
Hvað sagði Árni Matt við Alistair Darling sem reitti breska ráðamenn til svona mikillar reiði?
Það kemur fram í Fréttablaðinu að fjármálaráðherra Bretlands A. Darling hafi átt símtal við kollega sinn Árna Mathiesen í eftir kastljósviðtalið við DO í fyrrakvöld og það sé fyrst og fremst það samtal sem breski fjármálaráðherrann hafi vísað til, furðu lostinn ásamt G. Brown, forsætisráðherra Breta í gærmorgun. Þeir voru mjög stóryrtir og sögðust sækja rétt sparifjáreigenda ICESAVE með góðu eða illu til íslenskra stjórnvalda.
Nógu slæmar voru heimskulegar yfirlýsingar DO og það heyrðu og sáu allir. Ef það reynist rétt að dýralæknirinn hafi reitt breska ráðherra til svona mikillar reiði verður hann að upplýsa þjóðina um hvað þeim fór á milli. Það getur vart skaðað meir en orðið er.
Ábyrgð þeirra manna sem stunduðu hér hreina og klára fjárglæfra og stukku síðan frá borð og skildu allt eftir í rjúkandi rúst er mikil og ríkisvaldinu ber skylda til að fela viðeigandi yfirvöldum að frysta eignir þeirra hérlendis sem og erlendis og sækja þá til saka. Þeirra er sökin mest. Hins vegar virðist ljóst að opinberar eftirlitsstofnanir hafa ekki staðið sig og beinlínis skaðað hagsmuni þjóðarheildarinnar.
Glannalegar (vægt til orða tekið) athafnir og orð þessara manna sérstaklega seðlabankastjóra hafa augljóslega skaðað þjóðina gífurlega. Því er spurning um hvort orð hans varði ákvæði 91. gr. X. kafla alm. hegningarlaga:
91. gr. Hver, sem kunngerir, skýrir frá eða lætur á annan hátt uppi við óviðkomandi menn leynilega samninga, ráðagerðir eða ályktanir ríkisins um málefni, sem heill þess eða réttindi gagnvart öðrum ríkjum eru undir komin, eða hafa mikilvæga fjárhagsþýðingu eða viðskipta fyrir íslensku þjóðina gagnvart útlöndum, skal sæta fangelsi allt að 16 árum.
Sömu refsingu skal hver sá sæta, sem falsar, ónýtir eða kemur undan skjali eða öðrum munum, sem heill ríkisins eða réttindi gagnvart öðrum ríkjum eru undir komin.
Sömu refsingu skal enn fremur hver sá sæta, sem falið hefur verið á hendur af íslenska ríkinu að semja eða gera út um eitthvað við annað ríki, ef hann ber fyrir borð hag íslenska ríkisins í þeim erindrekstri.
Hafi verknaður sá, sem í 1. og 2. mgr. hér á undan getur, verið framinn af gáleysi, skal refsað með …1) fangelsi allt að 3 árum, eða sektum, ef sérstakar málsbætur eru fyrir hendi.
Það þýðir ekkert að segja að ekki þýði nú að leita að sökudólgum. Það er svona svipað og einhverjir dólgar leggi heimili manns í rúst og manni sé efst í huga að að laga til og koma heimilinu aftur í stand í stað þess að ná tjónvaldinum.
Kallar maður ekki á lögguna í svona tilfellum?
Meginflokkur: Stjórnmál og samfélag | Aukaflokkar: Bloggar, Viðskipti og fjármál | Breytt s.d. kl. 13:46 | Facebook
Athugasemdir
Sæll, ég ætlaði bara að benda vinsamlega á að þú ert að misskilja 91.gr. hgl. Það þýðir ekki að taka úr svona nokkur orð og telja þar með að þau eigi við tilfellið. Menn ættu nú að fara mjög varlega í svona tilvitnanir nema þeir væru alveg með á hreinu hvað þetta þýðir.
Þarna er verið að gera landráð refsivert. Til þess að hægt sé að beita greininni, eða réttara sagt, til þess að um brot á þessari grein sé að ræða verður að vera um nokkur atriði að ræða. Ef um eitt af þessum atriðum er ekki að ræða ,þá er ekki um brot á greininni að ræða.
A-það sem til skoðunar er verður að hafa verið ,,leynilegt" og vera málefni ríkisins.
B-um eitt eða allt af þrennu verður að hafa verið að ræða: samning, ráðagerð eða ályktun.
C-um óviðkomandi menn verður að vera að ræða.
D-Þessi leynilegi samningur, ráðagerð eða ályktun verður að vera um heill eða réttindi ríkisins gagnvart öðrum þjóðum, eða hafa fjárhags- eða viðskiptaþýðingu gagnvart öðrum þjóðum.
Á mannmáli þýðir að þetta gildir um leynilegar upplýsingar ríkisins sem eru trúnaðarmál þess og útburður þessara upplýsinga myndi skaða ríkið.
Í þínu tilfelli hefði D.O. s.s. þurft að hafa lekið leynilegum trúnaðarupplýsingum ríkisins sem aftur olli ríkinu skaða. Það að lýsa sinni persónulegu skoðun að ísl. bankamenn séu glæframenn ofl. fellur því ekki undir neinn leynilegan samning ríkisins, ráðagerð eða ályktun. Því getur þetta aldrei talist brot á viðkomandi 91.gr.
Að sama skapi geta fjármálamenn ekki gerst brotlegir skv. þessari grein í því sem þú vísar til.
Þú ert að rugla saman landráði og því að valda ríki skaða með tilteknum aðgerðum. Það er engan veginn það sama. Landráð er skilgreint í viðkomandi grein og sé ekki um það að ræða sem talið er upp þar og ég hef skýrt aðeins, þá er ekki um landráð að ræða.
Reyndar er það svo að hafi þessir menn engin lög brotið er ekkert hægt að gera þó hægt sé að sýna fram á að þeir hafi ,,sett hér allt í rúst". Nema breyta lögunum og koma í veg fyrir að þetta endurtaki sig. Ég er samt fylgjandi því að eignir þeirra verði frystar meðan rannsakað er hvort þeir hafi brotið lög með því að koma fjármagni út úr alm. hlutafélögum og inn í sín eigin félög og í sinn eigin vasa, en allt bendir til þess.
laganemi (IP-tala skráð) 9.10.2008 kl. 13:09
Takk fyrir málefnalega athugasemd.
Mig langar aðeins til að svara henni og biðja þig um að lesa aðeins betur það sem ég skrifaði. Ég tek ekki nein orð út úr heldur birti greinina í heild sinni. Feitletrun á einungis við um andlagið, þ.e. hvort DO hafi skaðað fjárhagslega hagsmuni þjóðarinnar með því að upplýsa um það sem leynt ætti að fara.
A. Leiða má að því gild rök að uppljóstranir DO í kastljósi hafi verið þess eðlis að leynt skyldu fara enda hér um gífurlega hagsmuni þjóðarinnar að ræða.
B. Væntanlega fjallaði DO um ráðagerð. Ég trúi því ekki að þetta hafi verið augnabliks hugdetta í miðju viðtali. Þó svo að menn hafi efasemdir um hæfileika DO til stjórnunar efnahagsmála heillar þjóðar þá frýr honum engin vits. Í besta (versta) falli hrapaði hann að ályktun sem betur mátti kyrr liggja.
C. Viðtal í sjónvarpi er opinbert. Á það hlýða líka "óviðkomandi menn".
D. "Samningur", "ráðagerð" eða "ályktun" leynileg eða ekki leynileg varðaði hagsmuni okkar gagnvart öðrum þjóðum. Klárlega.
Ég er ekki að segja að bankamenn hafi stundað fjárglæfra. Ég er að tala um menn sem stunduðu "vafasöm" viðskipti m.a. með hlutabréf og lögðu almenningshlutafélög í rúst, sbr. FL-Group, með afleiðingum sem þér ættu að vera kunnar. Að halda því fram að ég saki þessa menn um brot á 91. gr. segir mér það eitt að þú hafi ekki lesið skrif mín til hlítar.
Sammála því að fjármálamenn geta vart gerst brotlegir gagnvart þessari grein enda held ég því ekki fram eingöngu um framgang DO. Vissulega er þetta álitamál og í gær og í dag hef ég heyrt í lögfræðingum sem eru alls ekki eru á einu máli varðandi þetta.
En annars ágæti laganemi: Takk fyrir tilleggið.
Sveinn Ingi Lýðsson, 9.10.2008 kl. 13:44
Ég veit ekki hvort um landráð er að ræða, en það er deginum ljósara að það var varið mjög illa með fjármuni allra sem höfðu viðskipti við bankana. Það að lýsa því yfir að við munum láta breska sparifjáreigendur eiga sig var auðvitað fáránlegt. Þetta var annað hvort vanhugsað, eða DO er að hefur eitthvað annað í huga en að bjarga Íslandi út úr þessari niðursveiflu. Hver sem ástæðan er, verður hann að víkja.
Það væri athyglisvert að heyra hvað fjármálaráðherrunum fór á milli. Við eigum heimtingu á að vita það.
Villi Asgeirsson, 9.10.2008 kl. 14:00
Sæll aftur og takk sjálfur fyrir svar þitt. Þú nefnir reyndar aldrei nákvæmlega hvað það er sem Davíð á að hafa sagt. Eftir seinna svar þitt get ég mér þess til að þú sért að vísa í að hann sagði að við, ísl. ríkið, ætlaði ekki að standa við skulbindingar úti í heimi. Að það hafi verið hin meinta ráðagerð ríkisvaldsins sem Davíð lak út.
Stóri, risastóri, misskilningurinn hér er að hann var að tala um lánadrottna, ath., lánadrottna. Hann var að segja að við myndum ekki taka ábyrgð á kröfum lánadrottna bankanna. Þar eru engar nýjar upplýsingar á ferð. Það hefur legið alveg skýrt á borðinu frá upphafi að eignir bankanna yrðu seldar upp í innistæður eigenda og þar með allar innistæður tryggðar. Ef eignir duga ekki fyrir innlánum mun ríkið greiða það sem upp á vantar úr Ríkissjóði, ef til þess kæmi. Það vill gleymast í umræðunni að nánast jafn mikið af eignum eru hjá bönkunum og skuldir. Það þýðir að ef banki er tekinn, seldur niður, þá stendur eftir nægt fjármagn til að greiða innistæðueigendum út, með vöxtum.
Það eru hluthafar og lánadrottnar bankanna sem tapa sínu. Það er það eina sem sagt hefur verið en mjög hefur verið misskilið af fjölmiðlum og almenningi.
Mér þykir það mjög miður á hversu miklum villigötum þessi umræða hefur verið, alveg sama þó forystumenn hafi talað mjög skýrt og yfirvegað. Menn verða að sjá að það er verið að gera þjóðinni það besta sem hægt var í stöðunni með þessum aðgerðum. Og það er alveg algert úrslitaatriði varðandi þetta að ríkið ætlar ekki að taka ábyrgð á kröfum lánadrottna. Þetta mun skerða lánstraust okkar til skemmri tíma, þó þannig að ríkið sjálft er ekki að svíkja sína samninga heldur einkaaðilar.
Menn mega bara ekki falla í þá gryfju að rugla saman lánadrottnum og innistæðueigendum.
Þetta er í raun alveg sama aðgerð og farið er í þegar fyrirtæki verður gjaldþrota. Munurinn á þessu og því er þó sá að ríkið ætlar ekki að lýsa eftir kröfum í búið heldur hafa kröfuhafar nú þegar tapað öllu sínu. Það sem fæst fyrir eignir búsins, sem er mjög svo töluvert í tilfelli bankanna, verður notað til að standa við inneignir fólks í þeim, líka þeim bresku.
laganemi (IP-tala skráð) 9.10.2008 kl. 14:55
Það er mikilvægt að koma því til skila við breska fjölmiðla að þetta var örlítið brot landa okkar sem kom okkur á kné. Vilhjálmur Bjarnason segir 20-30 manns. 30 manns af 300.000 landsmönnum er um 0,01%, er það ekki? Hvað gerðum við hin 99,99%, venjulegt launafólk af okkur?
Ágúst H Bjarnason, 10.10.2008 kl. 08:22
Þið gerið eina GRUNDVALLAR skyssu.
Þið gerið ráð fyrir að Bretar hagi sér af heiðurmennsku í viðskiptum við sér veikari þjóðir.
Grundvallar misskilningur.
Rifjið upp í hljóði, hvernig Bretar töluðu um varðskipsmenn okkar og hvernig þeri sögðufrá ,,hetjulegri baráttu sjómanna sinna" við brjálaða víkinga á Herskipum, skjótandi allt sem sæist við sjóndeildarhringinn.
Gordon er að panikkera og eins og bulla á skolalóð, leitar hann að þeim sem veikastur er fyrir og ræðst að honum.
Af hverju þorir hann ekki að heimta breska peninga úr greipum þeirra banka sem seldu þeim ,,svikna vöru" ? Gæti það verið vegna þess, að þar á bakvið er USA?????
Nei mínir kæru Bretar eru og munu líklega ætíð verða eins.
Miðbæjaríhaldið
Bjarni Kjartansson, 10.10.2008 kl. 09:50
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.