Þriðjudagur, 3. júní 2008
Afleit þjónusta Sorpu
Öðru hvoru liggur leið mín á móttökustöðvar Sorpu. Gerist helst þegar maður fyllist einhverjum fítonskrafti og ræðst á draslið í bílskúrnum eða framkvæmd er stórtiltekt á lóðinni. Nú skal ég viðurkenna að þetta er ekki það skemmtilegasta sem ég geri en samt reyni ég að sinna tiltektinni eins léttur í lund eins og mér er unnt.....þangað til ég þarf að losna við ruslið. Ruslið sem ég er samviskusamlega búinn að flokka og raða eftir leiðbeiningum Sorpu. Léttur í sinni hélt ég á eina af móttökustöðum Sorpu þar sem ég beið í röð eftir að komast inn á stöðina. Sem sagt það voru fleiri en ég sem höfðu fengið tiltektaræði þennan daginn. Í hliðinu var ungur piltur sem vopnaður málbandi og vasareikni tók á móti viðskiptavinunum. Þessi tól sín notaði pilturinn af mikilli innlifun þegar hann mældi hátt og lágt þann hluta sorpsins sem hann taldi vera gjaldskyldan. Þó svo að tekist hafi að kenna honum notkun málbands og vasareiknis hafði greinilega gleymst að kenna honum mannleg samskipti.
Orðastaður sá er hann átti við viðskiptavinina endaði yfirleitt í ónotum og einn þeirra brást þannig við að hann ók heldur þjösnalega á braut með sitt sorp. Hann var næstur fyrir framan mig með garðúrgang í kerru auk eins vörubrettis. Brettið var gjaldskylt, það fór ekki á milli mála hjá piltinum sem mældi það sem hálfan rúmmetra og BORGA - Takk. Þetta var nóg og þjáningabróðir minn á hvíta Renaultinum með fínu rauðmáluðu kerruna var nóg boðið og ók fast og ákveðið burt á meðan sá ungi baðaði út höndunum fullur vandlætingar.
Grun hef ég um að mörgum fleirum hafi fundist nóg um og sjálfur hef ég lent í svona trakteringum þarna. Í stað þess að láta rukka sig fyrir ruslið hafa menn tekið til þess ráðs að losna við það með öðrum og ógeðfelldari hætti og kasta því á víðavangi. Þetta má sjá víða í kringum um þéttbýlið s.s. eins og þessar myndir sem eru teknar í nágrenni Hafnarfjarðar sýna. Svona má auðveldlega finna víða í
Opnunartími á móttökustöðvum er augljóslega alltof stuttur, opnað í hádeginu og aftur lokað kl. hálf átta á kvöldið. Flestir ljúka vinnu síðdegis og ef menn ætla að nýta sér þjónustu (?) fyrirtækisins þurfa menn og konur á láta hendur standa fram úr ermum. Í gær þurfti ég að fara tvær ferðir, sú seinni með skáp sem ég ætlaði að setja í Góða hirðinn. Sorrý, ég var tveim mínútum of seinn og það var lokað á nefið á mér. Annað hliðið var samt opið og spurði starfsmann hvort ég mætti halda á skápnum inn í gáminn fyrir Góða hirðinn. Fullt af fólki var enn á römpunum að losa sig við úrgang og Góðahirðisgámurinn var galopinn og nóg pláss. Svar starfsmannsins var NEI, ÉG er búin að LOKA!
Ég vil taka fram að við flesta starfsmenn Sorpu hef ég átt góð samskipti við en of algengt er að verða vitni að framkomu sem þessari.
Skoðun mín hefur lengi verið sú að rangt sé að innheimta losunargjald á móttökustöðvum. Heppilegra væri að leggja gjald á í samræmi við losunarvægi þeirra og fólk fengi hluta þess gjalds endurgreitt við skil á móttökustöð. Með því að gera sorp að verðmætum mætti líka koma á samkeppni í sorphirðu og sorpmóttöku. Sennilega væri það vænlegast til að breyta viðmóti einstakra starfsmanna gagnvart viðskiptavinum sínum.
Meginflokkur: Bloggar | Aukaflokkar: Dægurmál, Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Sælir Sveinn, Ég var að lesa skrif þín varðandi ferð þína með rusl á eina af móttökustöð Sorpu. Fjallar þar þú um ungan pilt vopnbúinn málbandi og reiknivél takandi á móti viðskiptavinunum. Segir þú hann hafa mundað tól sín af mikilli innlifun þegar hann mældi hátt og lágt þann hluta sorpsins sem hann taldi vera gjaldskyldan. Þú heldur áfram og segir frá orðastað á milli piltisins og viðskiptavinana sem yfirleitt enduðu með ónotum. Sá á undan þér var með gjaldskylt bretti ásamt garðúrgangi í kerru. Í fyrsta lagi er frásögn þín lituð. Hún er lituð með þeim hætti að þú gerir athafnir starfsmannsins kjánalegar. Í annan stað gerist þú sögumaður þar sem hann er bæði al-sjáandi sem og al-heyrandi. En það gengur ekki upp þar sem þér segist hafa verið akandi og verið ásamt öðrum bifreiðum í röð. Hvernig getið þér fullyrt hvað umræddum starfsmanni og viðskiptavina fór á milli? Ég geri ráð fyrir að umrætt bretti hafi verið euro-bretti, en þau er jafnan undan vörum frá fyrirtækjum, sem gefur vissulega umræddum starfsmanni vísbendingu umatvinnuresktur, en atvinnuresktur er jafnan gjaldskyldur. Einnig minnist þú á garðaúrgang án þess þó að minnast á hvers-konar úrgang var að ræða. Var það gras, afskurður eða arfa svo dæmi sé tekið. Sé um mold eða sand að ræða skilst mér að maður lendi í gjaldtöku. Enda gefst fólki kostur á að losa lífrænan úrgang á jarðvegstippi, sér að kostnaðarlausu. Ég sjálfur, nota þá mikið, sérstaklega þann á Hólmsheiðinni, enda óþarfi að setja slíkt í e-h gám. Loks fjallar þú um ferð þína þegar þú komst eftir lokunartíma. Hér finnst mér, persónulega, þú sýna ókurteisi. Hvernig getur þú ætlast til þess að fá forgang inn á stöðina á meðan það er lokað á aðra. Hvernig er það mögulegt að veita þér inngöngu en ekki næsta manni á eftir? Hvað eiga starfsmenn að segja næsta manni. "Nei bara Sveinn fær að koma inn". Það segir sig sjálft að það væri aldrei hægt að loka ef ekki væri miðað við neinn einstakan opnunartíma. Sama gildir um opnunartíma Sorpu og aðra opnunartíma annara. Eitt sinn las ég grein er fjallaði um tilitsemi Íslendinga í umferðinni og stefnuljósanotkun. Benti greinahöfundur á að sá sem gefur stefnuljós gerir það eingöngu fyrir aðra í umferðinni. Hann sem ekur veit mætavel hvert hann er að beygja, en gefur merki,(stefnuljós) af tillitsemi við aðra í umferðinni. Í grein þessari komst greinahöfundur að þeirri niðurstöðu að Íslendingar væru svona tilitlausir eins og raun bæri vitni vegna þess að það væri svo stutt síðan að borgarsamfélagið varð til. Lengst af, voru svo fáiir á ferðinni að þeir þurftu ekki að taka tillit til eins né neins. Með sömu hugsun má segja að ef þú hefðir verið á móttökustöð Sorpu í 300 manna bæ, þá hefði starfsmaðurinn hleypt þér inn. Hann hefði svo gert vegna þess að engir aðrir kæmu á eftir þér sem hann gæti þurft að neita innkomu. Oft þarf maður að pæla í hlutunum út frá víðari skilning. En hvað varðar hliðið sem þú sást opið hefur væntanlega verið hliðið fyrir útakstur, það er eðlilegt að það hafi verið opið þar sem bifreiðar voru enn inni. Hvað varðar breyttan opnunartíma er ég sammála þér. Mætti opna kl 8 á morgnana. Einnig mætti fjölga stöðvum þar sem greinilegt er að stöðvarnar eru löngu sprúgnar. En hvað ólöglega losun á úrgangi varðar, þá verða þeir sem slíkt gera að eiga það við sjálfa sig. Slíkt dæmir sig sjálft. Svona í lokin vil ég útskýra fyrir þér hvað mæliaðferð þú varst vitni af þessa umrædda ferð. Væntanlega hefur kjáninn, starfsmaðurinn verið að mæla rúmmál. Rúmmál er lengd*breidd*hæð. Svo er það nú þannig að það getur vel verið að þessi starfsmaður sem þú fjallar um í mörgum línum hafi verið arfa-slakur og dónalegur. En þú eyðir eingöngu einni línu í þær góðu viðtökur sem þú hefur hlotið í Sorpu á meðan mikið púður fer í eitt atvik. Ekki gleyma því að starfsmennirnir eru að sinna sínu starfi að boði sveitarfélaganna. Þeir eru í reynd væntanlega að innheimta í krafti reglna sem koma frá löggjafa, því er það mikil einföldun að fjalla um þetta líkt og þú gerir hér á ofan. Ég sá þátt um daginn á discovery sem þú hefðir haft gaman að. Þarna var þýskt fyrirtæki sem endurvann rafeindabúnað. Fyrst voru öll tækin kurluð niður og kurlinu komið á færiband. Svo för það í gegnum hina ýmsu segla sem hver og einn tók til sín einstaka málmtegund. Þarna var gull og fleiri ´góðmálamar ásamt spilliefnum er var eytt. Ekki veit ég hvernig það er gert hér hjá Hringrás, en væntanlega gera þeir eitthvað líkt þessu. Enda hvetja þeir fólk með að koma þangað með brotamálma. Mér skilst að Málmar og rafeindadót frá Sorpu fari einnig þangað og þeir borgi fyrir þá gáma. En jæja, ætlaði nú ekki að babla svona mikið en vildi bara koma mínu sjónarhorni á framfæri. Mitt sjónarhorn þarf svo auðvitað ekkert að vera rétt. Kær keðja.
Sinalco, 12.6.2008 kl. 02:06
Takk fyrir athugasemdina Sinalco. Gott að þú þekkir vel til hjá Sorpu.
Í fyrsta lagi var gott veður þennan dag, bílglugginn minn opinn þannig að orðaskipti fóru ekki framhjá mér varðandi vörubrettið og garðúrganginn. Garðúrgangurinn voru fáeinar greinar (afklippur) og vörubretti þarf ekki að koma frá fyrirtækjum. Sjálfur hef ég fengið afhenta frystikistu á svona bretti og það var nákvæmlega ekkert sem bent gat til þess glæpsamlega athæfis og um "fyrirtækjarusl" væri að ræða.
Í öðru lagi varðandi lokun á nefið á mér kom ekki nógu vel fram að þetta var ferð númer 2 með úrgang og átti eftir að koma með skáp í Góða hirðinn. Þetta sagði ég starfsmanni sem sagði mér að allt væri í lagi þó ég setti skápinn innfyrir ef einhver væri enn á stöðinni. Það kom aldrei til þess að ég æki inn á stöðina. Auðvitað þarf að loka á ákveðnum tíma en þetta olli mér heilmiklum vandræðum, kerruna þurfi ég að leigja einum degi lengur en upphaflega var áætlað og þarna var ég að koma fyrir orð starfsmanns sem greinilega var starfi sínu vaxinn meðvitaður um þjónustuhlutverk sitt.
Það sem á fyrst og fremst við er að Sorpa er á villigötum. Sorpa var hugsuð sem þjónustufyrirtæki við borgarana auk þess að koma eyðingu úrgang í vitrænt form. Hvorugt hefur tekist. "Þjónusta" Sorpu er illræmd og þó svo að þar starfi margt gott starfsfólk eru þar ekki allir meðvitaðir um að þeir eru í þjónustu almennings.
Afleiðingar þess má sjá víðs vegar eins og myndirnar sýna (ég á heilmikið safn af þessu). Það sem þarf að gera er að koma á heilbrigðri samkeppni í sorphirðu og viðskiptavinir hafi val. Síðan á að hætta þeim skelfilega rassgarnarhugsunarhætti að viðskiptavinirnir eigi að greiða fyrir sorplosun. Að sjálfsögðu á að greiða slíkt við kaup vöru (sorpgjald) sem síðan sé notað í rekstur sorpeyðingar. Sorphirða og sorpeyðing á ekki var vera baggi á sveitarfélögum eða ríki.
Þeir sem sóða mest úr eiga að borga í samræmi við það. Tökum þessa einokun af Sorpu og bjóðum pakkann út á frjálsum markaði.
Sveinn Ingi Lýðsson, 16.6.2008 kl. 14:05
Eitt sem ég gleymdi: Frásögnina segir þú litaða. Að sjálfsögðu eru hún færð í stílinn af þeirri upplifun eða upplifunum sem ég hef orðið fyrir auk þess sem svona einokunarfyrirtæki samrýmast illa lífsskoðunum mínum yfirleitt.
Því er frásögnin lituð því hún á að vera það. Ég er ekki að segja frétt, ég er að koma skoðun og lífsreynslu á framfæri. Hef til þess fullan rétt.
Sveinn Ingi Lýðsson, 16.6.2008 kl. 14:08
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.