Mánudagur, 25. febrúar 2008
Er ekki kominn tími á borgarafund á Álftanesi?
Í ljósi síðustu atburða hef ég velt því fyrir mér hvort ekki sé grundvöllur fyrir almennum borgarafundi um það ástand sem ríkir á Álftanesi.
Nú síðast sú glórulausa misgjörð bæjarstjórnar að virða að vettugi vilja meirihluta íbúa varðandi Breiðumýri og Skólastíg og samþykkja breytingu á aðalskipulagi Álftaness 2005 - 2024. Breytingu sem í raun þýðir að umferðarskipulag skóla- og miðsvæðis er sett í uppnám, að því er virðist til að verktakar geti fengið fleiri lóðir undir íbúðir.
Á flestum stöðum leita skipulagsyfirvöld allra leiða til að komast hjá miklum umferðargötum við skóla og leikskóla sé þess nokkur kostur. Það ætti því að vera auðvelt í nýju skipulagi sem þessu. Nei, aldeilis ekki, allri umferð að og frá miðsvæði, skólasvæði, Birkiholti og Asparholti er beint á skólasvæðið með tilheyrandi slysahættu, ónæði og mengun í formi útblásturs og umferðahávaða. Er bæjarstjórn ekki sjálfrátt? Hvaða kverkatak hefur bæjarstjórinn á liðsmönnum sínum sem með ólundarsvip réttu upp hendur á bæjarstjórnarfundinum og samþykktu gjörninginn. Ég hef ekki ástæðu til annars en þetta sé gott fólk og skynsamt og ekki er langt síðan þau lýstu vilja sínum varðandi íbúalýðræði, valkosti í skipulagsmálum og tekið yrði tillit til óska íbúa í þessum efnum. Stefna þeirra var skýr og ljós, var það ekki? Því er sú kúvending sem bæjarfulltrúar eins og Kristín Fjóla og Margrét Jónsdóttir hafa tekið óskiljanleg. Hvað veldur?
Því er það mín skoðun að skynsamlegt gæti verið að halda almennan borgarafund um málið og velta í framhaldi hvað sé til ráða. Málið er komið í algert óefni. VERNDUM BÖRNIN - áhugahópur um barnvænt umhverfi á Álftanesi- hefur lýst yfir að þau muni halda baráttu fyrir markmiðum sínum ótrauð áfram. Slíkt þýðir einfaldlega frestun á frestun ofan og þannig munu framkvæmdir tefjast um ófyrirséðan tíma.
Slík töf er óásættanleg þar sem miklir fjárhagslegir hagsmunir eru í húfi. Samtökin hafa í sjálfu sér ekki neinn hag af slíkri töf, þvert á móti. Það eina sem þau hafa farið fram á er að Breiðumýri verði haldið opinni áfram og áætlanir um Skólaveg verði endurskoðaðar með tilliti til þess viðkvæma svæðis sem hann liggur um.
Hvað veldur að ekki var hægt að verða við þessari einföldu, skýrt afmörkuðu kröfu íbúanna? Engin rök hafa verið lögð fram þessum gjörningi til stuðnings. Hvers vegna?
Þeim vilja styðja hugmynd um borgarafund er bent á að senda höfundi póst á netfangið sveinn.ingi@simnet.is
Breytingar á tillögu duga ekki til | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Meginflokkur: Stjórnmál og samfélag | Aukaflokkur: Bloggar | Facebook
Athugasemdir
Það er sannarlega kominn tími til. Nú vona þeir "Gög og Gokke" að þessi mál sofni. Við megum ekki láta það gerast.
Gísli Gíslason, 26.2.2008 kl. 23:41
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.