Föstudagur, 22. febrúar 2008
"Hér ráðum við" Valdi beitt gegn íbúum Álftaness
Margt að gerast þessa dagana og gærkvöldi var mikill átakafundur í bæjarstjórn Álftaness þar sem meirhlutinn beitti valdi sínu til að knýja í gegn breytingu á aðalskipulagi í fullkominni andstöðu við 60% atkvæðisbærra íbúa. Afskaplega gerræðisleg ákvörðun þar sem gengið var gegn beiðni íbúa um að halda Breiðumýri í sem mest óbreyttri mynd þannig að allri umferð um hverfið yrði ekki beint á Skólaveg. Skólaveg sem ætlunin er að leggja við hlið leikskólans Krakkakots og lóð Grunnskóla Álftaness.
Í upphaflegri verðlaunatillögu GASSA arkitekta var einmitt gert ráð fyrir að Breiðamýri myndi halda sér auk þess sem Skólavegur yrði gerður þannig úr garði að hann myndi ekki kalla á mikinn gegnumakstur.
Ég mætti ásamt fjölda annara fulltrúa VERNDUN BÖRNIN á bæjarstjórnarfundinn og óskaði eftir við forseta bæjarstjórnar að lesa upp eftirfarandi áskorun fyrir hönd :
Ágætu bæjarfulltrúar.
Í dag er umdeilt mál á dagskrá. Breyting á aðalskipulagi Álftaness 2005 - 2024. Við sem stöndum að hreyfingunni VERNDUM BÖRNIN komum hér á fundarpalla bæjarstjórnar með þá von í hjarta að tekið verði tillit til þeirra liðlega 700 atkvæðisbæru íbúa sem sendu inn skriflegar alvarlegar athugasemdir við auglýstar skipulagsbreytingar.
Þið ykkar sem í dag skipa meirihluta bæjarstjórnar höfðuð uppi fögur orð um íbúalýðræði og kosningar um mikilsverð mál kæmust þið til valda. Þrátt fyrir íbúafundi, skrif íbúa í fjölmiðla, á umræðuvef og nú síðast alvarleg mótmæli og athugasemdir meirihluta bæjarbúa höfum við ekki orðið vör þeirrar lýðræðisástar sem þið kváðuð svo fagurlega til fyrir kosningar.
Ekki er annað að sjá en knýja eigi fyrrgreindar breytingar á skipulaginu í gegn þrátt fyrir þessa miklu andstöðu. Við leggjum fram þá eindregnu áskorun til ykkur ágætu bæjarfulltrúar að draga umrædda tillögu til baka eða öðrum kosti að fresta ákvarðanatöku þar til komið hefur verið til móts við athugasemdir okkar. Ljóst er að aldrei verður sátt um þessar breytingar.
Við mótmælum því harðlega hvernig gengið er gegn vilja þorra bæjarbúa. Bæjarbúa sem kusu ykkur til þjónustu.
Með veru okkar hér á fundinum viljum við sýna þögul mótmæli við þessum gjörningi. Í þessu máli munum við berjast á móti allt til loka.
Forseti lét ekki svo lítið að svara þessari beiðni minni. Að vísu skal tekið fram að hann var ekki skyldugur að verða við beiðninni en það hlýtur að vera lágmarkskurteisi að svara annað hvort af eða á. Lyktir málsins urðu þær að oddviti D-lista spurði forseta hvort hann yrði við beiðni samtakanna. Forseti svaraði því í löngu máli að hann gæti ekki orðið við þessu þar sem áskorunin væri full af rangfærslum.
Guðmundur Gunnarsson oddviti D-listans óskaði þá eftir því að áskorunin yrði lögð fram sem bókun minnihlutans og varð forseti við því.
Síðan var þessi óheillagjörningur samþykktur 4:3. Það er hreint ótrúlegt að verða vitni að því þegar fólk sem mátti ekki vatni halda vegna lýðræðisástar fyrir kosningar hefur svo gjörsamlega snúið við blaðinu. Hvernig geta þau horft framan í kjósendur sína kinnroðalaust?
Skyldi það búast við endurkjöri?
Meginflokkur: Stjórnmál og samfélag | Aukaflokkur: Bloggar | Facebook
Athugasemdir
Það er þetta með íbúalíðræðið. Þetta er svona líka í mínum heimabæ, Hafnarfirði. Þar er íbúalíðræði stundum en stundum ekki. Ætla svo sem ekki að tíunda það hér en grein um þetta birtist í Fjarðarpóstinum í gær og er inná bloggsíðunni minni fyrir þá sem hafa áhuga. Greinin heitir: allt sjálfstæðisflokknum að kenna.
J. Trausti Magnússon, 22.2.2008 kl. 16:33
Það dapurt að horfa uppá bæjarstóran okkar. Dapurt að sjá hann í ræðustól, þar sem hann kemur með einhverjar söguskýringar og vegna þess að D listinn gerði eitthvað í denn, þá leyfist þeim allt núna, en þeir gagnrýndu það sem D gerði í denn.
Svo var grein hans í Mogganum í dag mjög í hans stíl, full af stærilæti.
Það er mikil ábyrgð sem hvílir á herðum annarra í Á listanum að halda þessu samstarfi áfram.
Baráttan heldur áfram.
Gísli Gíslason, 22.2.2008 kl. 23:26
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.