Álftnesingar sýna samtakamátt sinn gegn óbilgjörnum bæjaryfirvöldum

  S.l. föstudag, 18. janúar, var sent dreifibréf í hvert einasta hús á Álftanesi þar sem vakin var athygli íbúa á mjög alvarlegum ágalla í auglýstri deiliskipulagstillögu.  Ágalla sem kannski varðar til framtíðar litið börn bæjarins hvað mestu.  Búið var að breyta vinningstillögu í arkitektasamkeppni svo mikið að hún var ekki lengur ásættanleg.  Umferðarskipulaginu hafði verið kollvarpað með lokun Breiðumýrar og lagningu Skólavegar sem gegnumakstursgötu.  Götu sem liggur að hluta til um jaðar skólalóða Grunnskólans og Krakkakots.

Í samræðum manna á milli  kom fram mjög eindregin andstaða við þessa hugmynd og í framhaldi af því leiddu þær Gerður Björk Sveinsdóttir og Brynja Guðmundsdóttir saman hóp fólks sem tilbúið var að leggja málinu lið.

Þessi hópur sem samanstendur af fólki úr fólki af öllum stigum, stéttum, flokkum og ekki flokkum.  Hópurinn gekk hús úr húsi síðustu þrjú kvöld og tók við athugasemdum íbúa.  Mér sem þátttakanda í hópnum kom þægilega á óvart hvað gífurleg andstaða var við þessum gjörningi og svo var áhuginn mikill að Álftnesingar sem staddir voru í fjarlægum heimsálfum höfðu samband og óskuðu eftir að fá að vera með.   Þetta var stórkostleg upplifun fyrir mig sem er búinn að vera að hamra á þessu, í bloggi, blaðagreinum og viðtölum við íbúa.  Kynning bæjarstjórnar á málinu hefur öll verið í skötulíki og ekkert tillit hefur verið tekið til sjónarmiða íbúa sem hafa verið að tjá sig í ræðu og riti sem og á íbúafundum.

Sem sagt veruleikafirringin virðist algjör hjá meirihluta bæjarstjórnar.  Kannski verður þeim veruleiki hins almenna bæjarbúa ljós kl. 14:15 í dag þegar bæjarstjóra verða afhentar formlega mótmæli tæplega 600 kosningabærra Álftnesinga.

Einnig er mér kunnugt um að fjöldi fólks hefur sjálft skilað inn athugasemdum við skipulagið og skipta þær athugasemdir mörgum tugum.  Líklega má reikna með allt að 700 athugasemdum við skipulagstillöguna og flestar þeirra snúa að lokun Breiðumýrar og Skólavegi.

Sjö hundruð athugasemdir:

Skyldi það fá þessa bæjarstjórn til að átta sig á að þeir eru kosnir til að þjóna íbúum en ekki öfugt?


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Heyr Heyr!!

Ánægður með þessa samstöðu!

Hjalti Þór Sveinsson (IP-tala skráð) 23.1.2008 kl. 13:36

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband