Af drukknum einkennisklæddum bílstjóra, lögguhúfu sem skipti litum o.fl. smálegu

Sú saga sem hér verður sögð er sönn, lítillega færð í stílinn og öllum nöfnum hefur verið breytt.

 

 

 

Á fyrri hluta 8unda áratugarins var vinnuflokkur úr Reykjavík við vinnu úti á landi.  Hlutverk flokksins var að leggja síðustu rafmagnslínurnar í sveitir landins.  Þetta var gott sumar, sólríkt og það var gleði og kraftur sem einkenndi líf þessara ungu kraftmiklu stráka sem skipuðu flokkinn að undanskildum verkstjóranum og ráðskonunni sem voru mikið eldri.

Vinnuflokkurinn hélt til á eyðibýli sem reynt hafði verið að gera eins vistlegt til sumarvistarinnar og kostur var.  Eins og gerist og gengur var skemmtanalífið stundað af krafti enda sveitaböll um hverja helgi og oft úr mörgum að velja.  Stundum var því ekki bara eitt  ball á helgi, þau voru stundum tvö og jafnvel þrjú.  Já það var gaman að lifa og þessa helgi sem sagan okkar varð til var ball í næsta þorpi.  Vinnuflokkurinn bjó 40 kílómetra þaðan en á næsta bæ bjó héraðslögreglumaðurinn Kalli.  Hann var bóndi en stundaði löggæslu á böllum til að drýgja tekjurnar.

Liðsmenn flokksins skiptust yfirleytt að vera ökumenn á þessi böll og þetta kvöld hafði það dæmst á Binna sem var hið besta mál því yfirleitt þótti hann viðskotaillur með víni.  Það þótti hittast vel á hann yrði edru þetta kvöldið.

Leiðin lá sem sagt á ballið og allir skemmtu sér hið besta.  Þegar átti að halda heim um nóttina kom í ljós að bílstjórinn, hann Binni, hafði dottið í´að og sagði hinum drafandi að hann gæti sko alveg keyrt heim.  Félögunum fannst það ekki við hæfi og eftir að hafa skotið á ráðstefnu datt einhverjum það í hug að fá lögguna Kalla til að keyra bílinn heim.  Hann átti jú heima á næsta bæ.  Einhver talaði við Kalla sem sagðist vera til í þetta.

Biðin eftir að Kalli lyki skylduverkum sínum í löggunni var orðið ansi löng þegar kappinn birtist í svarta búningnum með hvítan kollinn, glaðbeittur, og spurði hvar bíllinn væri.  Jú, hann var þarna.  Dökkgrænn frambyggður Rússjeppi með sætum fyrir átta manns og verkfærageymslu aftast.   "Inn með ykkur" galaði hann og skellti sér undir stýri.   

Í bílnum lumaði einhver á vodkablöndu í flösku og lét hana ganga á milli.  "Hvur andskotinn er þetta" sagði Kalli lögga, "á ekki að bjóða manni líka".  "Þú ferð nú líklegast ekki að drekka, sjálf löggan og keyrandi bíl!" sagði einhver úr hópnum.  Jú viti menn; Kalli tók hvítu lögguhúfuna af sér og sveiflaði hanni í glæsilegum boga aftast í bílinn þar sem hún lenti á hvolfi ofan á smurolíufötu.

"Húfan er farinn" sagði Kalli og hrifsaði flöskuna til sín: "Nú er í lagi að detta í það"  og svolgraði stórum.  Skemmst er frá að segja að á undraskömmum tíma breyttist þessi héraðslögregluþjónn úr virðulegum embættismanni hins íslenska ríkis í blindfullan röflara.  Það fór að fara um suma í bílnum og ekki laust við að víman rynni af hinum þegar borðalagður ökumaðurinn sveiflaði bílnum kanta á milli og tók einbreiðu brýrnar á ferðinni en ekki fyrirhyggjunni.

Það var komið framundir morgun og stutt eftir heim þegar á veginum stóð gömul Cortina þar sem sprungið hafði á tveim dekkjum.  Eldri hjón voru á bílnum og vantaði sárleg aðstoð.  Sá borðalagði vippaði sér undan stýrinu og gleðibros færðist yfir varir hjónanna þegar þau sáu hjálpina birtast í líki lögreglumanns.  Sú brosvipra var ansi skammvinn þegar meintur bjargvættur hellti sér yfir þau með óbótakömmum og spurði hvurn andskotann þau væri að gera þarna á miðjum veginum.  Hann var orðinn áberandi drukkinn, hávær og dónalegur.  Svona maður enginn vill þekkja.

Þarna voru góð ráð dýr.  Menn litu hver á annan og allir hugsuðu það sama:  Burt héðan..einn, tveir og nú!  Siggi flokkstjóri stökk undir stýri, setti í gang á meðan hinir ruddust inn, allir sem einn.  Siggi gaf nú bensínið í botn og í fyrsta og eina sinnið spólaði gamli Rússinn af stað á rykugum malarveginum.  Til að komast framhjá fólksbílnum þurfti hann að sveigja út í tæpustu vegarbrún og eitt augnablik héldu menn að bíllinn færi fram af brúninni og ylti.  Það gerðist ekki sem betur fer en það var ótrúlega fyndið að sjá blindfulla lögguna á harða spretti á eftir bílnum þar til hann gafst upp.

Siggi ók eins og leið lá heim á leið og síðar sagði hann þetta vera í fyrsta og eina sinnið sem hann hefði ekið bíl undir áhrifum.  Það er trúlegt því Siggi er einn þeirra manna sem ekki mega vamm sitt vita.

Skemmst er frá að segja allir komust heilir heim og í heila viku var hvíta lögguhúfan aftur í Rússajeppanum.  Undir það síðasta var ekki laust við að farið væri að sjá nokkuð á hvíta litnum en á næsta föstudegi fréttum við af Kalla.  Hann hafði þá heimsótt ráðskonuna og beðið hana að finna húfuna góðu og taka hana til varðveislu.

Eitt var ljóst:  Ekki yrði hann aftur beðinn að vera bílstjóri.  Þessi maður varð reyndar ekki lengi í embætti eftir þetta þegar yfirmenn hans komust að því einhverra hluta vegna að hann væri ekki eins vandur að virðingu sinni og æskilegt þætti fyrir mann í hans stöðu.

 


mbl.is Ölvaður farþegi henti bílstjóranum út og ók sjálfur í bæinn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Greta Björg Úlfsdóttir

Athyglisverð frásögn...

Greta Björg Úlfsdóttir, 17.11.2007 kl. 15:16

2 Smámynd: Jónína Dúadóttir

Góð saga

Jónína Dúadóttir, 18.11.2007 kl. 07:41

3 identicon

Vil bara minna þig og Dísu skvísu á að við búum enn á sama stað :)

Linda Ósk Sigurðardóttir (IP-tala skráð) 25.11.2007 kl. 21:06

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband