Laugardagur, 15. september 2007
Vestfjörðum blæðir. Viljum við stoppa blæðinguna?
Var í síðustu viku á ferð um suðurfirði Vestfjarða. Þetta er landsvæði þar sem ég þekki fólk og land og gert um árabil. Þangað kem ég reglulega, a.m.k. tvisvar á ári og stundum oftar og það sem við mér blasir er sú sársaukafulla staðreynd að þessi landshluti á mjög undir högg að sækja og mun fara að mestu í eyði innan fárra ára eða í mesta lagi áratuga nema eitthvað róttækt komi til. Margt veldur en mér að ljóst að til að innviðirnir hafa verið að fúna smátt og smátt, langmest af mannanna verkum, fyrst og fremst stjórnmálamanna.
Atvinnulífið er staðnað og nýsköpun engin. Bankar lána ekki tileins né neins nema til kvótakaupa því engin eru veðin. Bara hús sem eru einskis virði. Engin ný atvinnutækifæri verða til. Bara fiskvinnslan sem mönnuð er af austur evrópubúum. Smátt og smátt hefur svo farið að unga fólkið kemur ekki til baka að afloknu námi og meðalaldur íbúanna hækkar og hækkar. Það eru ekki atvinnutækifæri fyrir velmenntað fólk, fólk sem jafnvel hefur lagt fjölda ára í háskólanám og vill ekki fara svo fjarri hinu akademíska samfélagi í Reykjavík, kaffihúsunum, afþreyingunni og tækifærunum sem það getur boðið börnum sínum. Aðgengilegri og auðsóttari en tækifæri þeirra voru.
Fyrst og síðast: Kvótinn. Með honum hófst hrunið fyrir alvöru. Það er alltaf erfitt að spila á spil ef allir spilarnir hlíta ekki sömu reglum. Í spilastokk kvótakerfisins eru mannspilin merkt einum spilaranum við borðið, útgerðarmanninum. Og hann vinnur alltaf. Skrítið finnst ykkur ekki. Það eru engin tækifæri fyrir unga fólkið í þessu kerfi sem er eins og snýtt úr nös á gömlu Kremlarherrunum sem voru frægir fyrir svona sérhagsmunakerfi og allskonar fimm og tíu ára áætlunarbúskap. Þetta er risavaxið nátttröll í ríki annars frjálrar verslunar og atvinnulífs. Leifar forsögulegs tíma verslunar- og gjaldeyrishafta Framsóknarflokksins. Skelfilegt.
Einn af höfuðskilyrðum fyrir búsetu í nútímasamfélagi, hvar sem er í heiminum, eru samgöngur. Það er eins og við í allnægtum okkar höfum gjörsamlega gleymt þessum grunnþætti og engir búa við eins slæmar samgöngur og Vestfirðingar. Stjórnmálamenn hafa áralangt komist upp með að útdeila smábótum í vegakerfið eins og sleikipinnum til hungraðra barna Afríkulanda. Engin heildræn hugsun virðist komast þar að. Jarðgöng og brúaðir firðir eru feitustu bitarnir sem kastað er í kjósendur svona rétt fyrir kosningarnar, sama þótt ófærar forargötur sér til sitt hvorrar handarinnar.
Helstu úrræðin sem stjórnmálamenn benda á er ferðaþjónusta (á ónýtu vegunum) sem stendur í mesta lagi tvo, þrjá mánuði á ári. Á hverju á fólk að lifa hina mánuðina? Reynt hefur verið að flytja störf út á land af veikum mætti. Oftast hafa þetta verið lálaunastörf eins og símsvörun og allskyns tölvuinnsláttur. Þau eru tæpast arðvænleg og alls ekki til þess fallin að laða fólk til búsetu. En það örlar á ljósi í myrkinu. Athafnamenn sem ekki virðast ríbundnir af kvótahugsun og veðsetningu bankamanna hafa kynnt hugmyndir um olíuhreinsistöð á Vestfjörðum. Viti menn. Upp rísa upp alls kyns fræðingar og verndarar sem hrópa: Svei, svei! Stóriðja er vond og óhrein. Hana viljum við ekki á hina hreinu Vestfirði. Kallaðir eru til hinir og þessir sem finna þessu allt til foráttu, af þessu sé mengun, þetta sé ekki boðlegt stoltum kynhreinum Vestfirðingum o.þ.h. Bíðum nú við. Notum við ekki olíu? Það skyldi þó aldrei vera. Eigum við ekki bara að láta hreinsa hana í Nigeríu eða öðru álíka þriðjaheimsríki? Það er allt svo sóðalegt þar hvort eð er. Jú, það er miklu betra. Erum við ekki með stór áform um um olíuleit undan Norðausturlandi? Eitthvað hefur heyrst um það og svo er að skilja að menn séu bara nokkuð vongóðir að finna hana í vinnanlegu formi. Æi, nei. Hvar ætlum við að hreinsa hana? Eigum við ekki að flytja hana bara til Nígeríu eða einhvers annars þriðja heims ríks og látum þá um skítinn? Þeir hafa hvort eð engar reglur um umhverfismál. Væri það ekki æðislegt.
Hvers konar tvískinnungur er þetta. Við högum okkur eins og ódæll krakki í afmælisveislu þjóðanna, krakki sem hrifsar bara það besta af borðinu, hitt er nógu gott í aðra. Skoðum málið án fordóma frá öllum hliðum. Eitthvað þarf til bjargar. Lífinu í þorpunum blæðir út. Okkar vegna. Plásturinn fyrir þetta gat þarf að vera eitthvað annað en travelwest.com, fjarvinnsla.is, tínaber.is.
Svo mikið er víst.
Meginflokkur: Stjórnmál og samfélag | Aukaflokkur: Bloggar | Facebook
Athugasemdir
Heill og sæll, Sveinn Ingi !
Þakka þér afbragðs góða grein, þarna. Hefi litlu við að bæta, nema.......... ekki launar kálfurinn Einar Kr. Guðfinnsson, borinn og barnfæddur Bolvíkingurinn ofeldi sinnar gömlu heimabyggðar, svo einn sé nefndur, amlóðanna; hverjir smána uppruna sinn, og frændgarð allann, á hinum tignarlegu Vestfjörðum.
Með beztu kveðjum, úr Árnesþingi / Óskar Helgi Helgason
Óskar Helgi Helgason (IP-tala skráð) 15.9.2007 kl. 18:45
Þakka mjög góða grein og get tekið undir allt sem þar er skrifað.
Jakob Falur Kristinsson, 15.9.2007 kl. 18:49
Góð grein. Ég er hins vegar einn þeirra sem væla í hvert skipti sem einhver vill bola niður mengandi stóriðju. Þú nefnir fólkið sem fer suður í nám og vill frekar sitja á kaffihúsum en að koma aftur vestur í volið. Ég er ekki svo viss um að einstaklingur sem hefur eytt einhverjum árum í háskóla hafi áhuga á að fara að vinna í verksmiðju þegar störf við hæfi eru í boði í bænum. Svo er það spurning í hvaða firði þessi olíuhreinsistöð yrði byggð. Hvað með fólkið annars staðar á vestfjörðum?
Vestfirðir, og landsbyggðin öll, þarf ekki á patentlausnum frá Ameríku að halda, heldur fjölbreyttu atvinnulífi sem byggir á hugviti einstaklingsins. Ferðamannaiðnaðurinn er einn hluti þessa fjölbreytta atvinnulífs, en að halda að það sé stóriðja eða ferðamenn og ekkert annað er mikil einföldun og virkar hvorugt. Fjölbreytni er eina leiðin til að koma í veg fyrir mannflótta, og fjölbreytni kemur (a.m.k. að hluta) frá fólkinu sjálfu.
Villi Asgeirsson, 16.9.2007 kl. 11:04
Þetta er fín grein hjá þér Sveinn og þarna kemur þú að kjarna málsins.
Villi Asgeirsson, í olíuhreynsunarstöð og sennilega flestum öðrum stóriðjum eru töluvert mörg framtíðarstörf fyrir velmentað fólk t.d. verkfræðinga, líffræðinga sem eru þeir sem reka svona batterí og hafa eftirlit með umhverfinu.
Magnús Orri Einarsson (IP-tala skráð) 16.9.2007 kl. 11:44
Magnús, það er rétt að það myndu mörg störf skapast fyrir vel menntað fólk. Einhver þeirra væru hæf fólki menntuðu á Íslandi, en mörg ekki. Af hverju ætli svona fyrirtæki sé helst að finna í löndum eins of Nígeríu? Af hverju eru önnur evrópulönd ekki að berjast um að fá svona verksmiðjur til sín?
Ímyndum okkur að milljarðarnir sem fóru í Kárahnjúka hefðu farið í að byggja upp fjölbreytilegt atvinnulíf á Austurlandi. Fólk á Seyðisfirði, Egilsstöðum, Eskifirði og öðrum stöðum hefðu líka notið góðs af því, ekki bara einhver hluti Reyfirðinga.
Hvað myndi gerast ef ríkisstjórnin myndi segja; Vestfirðir fá ekki stóriðju, en hér eru þrír milljarðar sem má nota í uppbyggingu atvinnulífsins.
Villi Asgeirsson, 16.9.2007 kl. 12:04
Það virðist vera alveg sama hvar er borið niður, það skal flytja allt óunnið úr landi og kaupa það síðan á margföldu verði til baka. Hvað kostar það til dæmis að flytja olíu til Nígeríu og láta hreinsa hana fyrir okkur ef það finnst vinnanleg olía við Ísland. Er ekki ódýrara fyrir okkur að gera það sjálf. Það skapar mikla atvinnu sem síðan hefur gríðarleg margfeldisáhrif út í samfélagið. Þakka þér frábæra grein Sveinn Ingi ég tek undir allt sem í henni stendur.
Hallgrímur Guðmundsson, 16.9.2007 kl. 16:13
Olíuhreinsistöðvar er að finna í flestum þeim löndum Evrópu sem liggja að sjó. Margar þessara stöðva eru í eða við þéttbýli og laða til sín vel menntað fólk, efnafræðinga, verkfræðinga, líffræðinga, lyfjafræðinga auk tæknifræðinga, fólks með alls kyns sérhæfða menntun. 35 - 40% þeirra sem starfa í þessum geira eru háskólamenntaðir. Aðrir starfsmenn eru tækni- eða iðnmenntaðir að stærstum hluta. Starfsmannafjöldi væri frá 200 - 1500 manns, eftir stærð stöðvarinnar.
Ég hef rætt við mann sem starfaði um árabil í olíuhreinsistöð í Noregi. Hann sagði hugmyndir okkar einkennast af mikilli fáfræði varðandi þessa vinnslu. Mjög lítið sem ekkert af úrgangsefnum færu frá stöðinni. Nánast allt væri nýtt til einhverrar vinnslu. Hins vegar færu kolefnissambönd út í andrúmsloftið en í nýjustu og fullkomnustu stöðvunum miklu mun minna en í eldri gerðum. Sem dæmi eru fiskimjöls- og sementsverksmiðjur taldar menga hlutfallslega mun meira en hreinsistöðvar.
Ég tel fásinnu að kasta þessari hugmynd frá sér. Við höfum hreinlega ekki efni á því. Skoðum málið fordómalaust.
Sveinn Ingi Lýðsson, 16.9.2007 kl. 17:47
Hallgrímur, ef olía finnst er sjálfsagt mál að skoða þetta. Ég er ekkert að útiloka hugmyndina sem slíka, en hvaða vit er í að bora upp olíu í Persaflóa eða Rússlandi, flytja hana hingað og svo aftur út? Veit ekki, hef ekki mikið vit á olíuhreinsun. Það sem fer í mig er að sumir virðast setja út á liðið í bænum, en biðja svo um stórtækar lausnir, eins og einhver ein verksmiðja eigi að redda málunum. Það er alltaf verið að leita að patent lausnum. Einhversstaðar heyrði ég að Kárahnjúkavirkjun hafi kostað 1000 milljarða. Hvað hefði mátt gera við þá upphæð? Var þetta virkilega besta fjárfestingin sem völ var á? Ef það er virkilega vit í þessu, þá skal ég ekki segja orð um það, en þá vil ég ekki loðin svör, útúrsnúninga og lygar eins og í kring um áldæmið.
Villi Asgeirsson, 16.9.2007 kl. 19:31
Villi. Það þykir mjög hagkvæmt að láta hreinsa olíuna hér, þ.e. miðja vegu frá mörkuðum Evrópu og Ameríku. Olíulindirnar eru í Rússlandi og skipin sigla með farma sína framhjá Vestfjörðum. Hér er ekki verið að koma inn í atvinnulífið með bein og klár ríkisafskipti eins og samningur ríkisins og Alcoa er. Heldur er um að ræða hreinar og klárar athafnir án ríkistilhlutunar. Lauslegar kostnaðaráætlanir hljóða upp á 200 - 300 milljarða króna.
Kárahnjúkavirkun kostar 115 milljarða, ekki 1000 milljarða. Ruðningsáhrifin til lengri tíma litið eru gífurleg.
Og stóra spurningin er: Af hverju á bara byggja upp atvinnulíf á Suðvesturlandi? Er land og náttúra ekki jafn dýrmæt þar? Og mannlífið verðmætara?
Viljum við hafa landsbyggðina sem einhvern þjóðgarð eða safn? Reynið að setja ykkur inn í líf og aðstæður þess fólks sem býr austan og norðan Elliðaánna.
Sveinn Ingi Lýðsson, 16.9.2007 kl. 22:34
100 milljarðar. Núlli of mikið.
Eins og ég sagði er ég ekki á móti hugmyndinni, þannig lagað. Ég er hins vegar á móti því að ríkið sé að setja tugi og hundruð milljarða í verkefni sem eru sennilega ekki arfbær. Það má vera að einhverjir fyrir austan hafi fengið störf, en ef ríkið tapar á verkefninu töpum við öll. Þetta eru skattpeningar allra landsmanna. Ef við erum svo að fórna náttúrunni fyrir taprekstur er það óásættanlegt. 115 milljarðar fyrir hvað mörg störf? 100? 500? Samkvæmt vísindavefnum bjuggu 11755 manns á austurlandi árið 2002. Virkjunin kostar því 9,8 milljónir á mann. Hvað hefði mátt gera fyrir þá upphæð?
Ef ríkið kemur lítið sem ekkert nálægt fjáröflun olíuhreinsistöðvarinnar en hirðir skattpeninga er það kannski ekki svo slæmt mál. En hvers vegna eru þessar hugmyndir á lofti? Er íslenskt vinnuafl svona ódýrt? Á að virkja eina ferðina enn og gefa orkuna? Olíurisarnir gera ekkert sem ekki gefur hagnað. Það þarf að skoða dæmið frá öllum sjónarhornum áður en farið er út í framkvæmdir. Ég er sannfærður um að ef ríkið þarf a setja einhverja milljarða í verkið, væri þeim sennilega betur varið annars staðar. 100 milljarðar fyrir nokkur hundruð störf er ansi dýrt, finnst mér.
Villi Asgeirsson, 17.9.2007 kl. 08:47
Forsendur stöðvarinnar er fyrst og fremst heppileg staðsetning varðandi flutninga og dreifingu á olíu frá norðursvæðunum. Góðar aðstæður fyrir stór skip og stuttar flutningaleiðir til beggja átta, austurs og vesturs.
Ríkið mun ekki koma að fjármögnun svona fyrirtækis. Það mun heldur ekki þurfa nýjar virkjanir þar sem hreinsistöðvar eyða tiltölulega lítilli orku og framleiða stærstan hluta hennar í stöðinni.
Grundvöllur allrar atvinnustarfsemi er hagnaður. Skiptir þá engu máli hvort það er ríkið, fyrirtækið eða fólk. Svo einfalt er það.
Sveinn Ingi Lýðsson, 17.9.2007 kl. 09:29
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.