Með fulla vasa af seðlum sem ríkið á að ávaxta

Það er athyglisvert að fylgjast umræðum um samgöngumál þessa daganna.  Nýbúið er að samþykkja mjög metnaðarfulla samgönguáætlun á Alþingi þar sem menn og konur hafa gert sitt besta til að forgangsraða framkvæmdum um landið allt því víða er þörfin brýn.  Óskaplega brýn.  Samgöngur eru langt frá því að vera í því horfi sem þær þyrftu að vera nú í upphafi 21. aldarinnar. 

Það skiptir miklu máli nýta þá fjármuni sem ætlaðir eru til vegagerðar á sem skynsamlegastan hátt.  Það getur varla talist skynsamleg ákvörðun að gera 2+2 veg milli höfuðborgarsvæðisins og Keflavíkur fyrir offjár þegar öllum mátti vera ljóst að 2+1 vegur myndi algerlega fullnæga þörfinni.  Mismuninn í milljörðum talið hefði mátt nota til þarfaframkvæmda sem allstaðar bíða. Þar mætti nefna breikkun Suðurlandsvegar austur fyrir fjall, gerð Sundabrautar, Vaðlaheiðargöng, jarðgöng milli fjarða fyrir austan og vestan, breikkun og styrkingu vegasvo eitthvað sé upp talið.

Lítil reynsla er af einkaframkvæmdum í vegagerð ef Hvalfjarðargöngin eru undanskilin.  Viðraðar hafa verið hugmyndir um svokallað skuggagjald þar sem einkaaðili tekur að sér verk en eigandi vegarins, Vegagerðin, myndi þá greiða kostnað samkvæmt því umferðarmagni sem um veginn fer.  

Þessi hugmynd er góðra gjalda verð og synd að ekki skuli vera búið að útfæra hana af hálfu stjórnvalda og stjórnmálamanna.  Í stað þess að þeir hafi tekið frumkvæðið og hreinlega boðið út einkaframkvæmdir á sínum forsendum og þá í takt við þörf hafa einkaaðilar eins og Sjóvá sett skelegga og skýra markaðssetningu á hugmynd um 2+2 veg frá Reykjavík til Selfoss.  Linnulaus áróður er rekinn fyrir þessari hugmynd og markaðssetningu hennar  beint að almenningi og sveitarstjórnamönnum. Ég tel með öllu ótækt að við látum ávöxtunarþörf tryggingafélags stjórna því hvar og hvernig við stöndum að úrlausn brýnna samgönguverkefna.  Í þessu máli hefur hver étið upp eftir öðrum í þeirri fullvissu áróðursins að eina rétta sé 2+2 vegur.  Í þessari umræðu hafa margir látið ljós sitt skína og oftar en ekki hefur þessi umræða verið lítt ígrunduð og tilfinningaþrungin.  

Með stuttu millibili hafa orðið hörmuleg slys á þessum vegi og vil ég votta öllum þeim sem eiga um sárt að binda vegna þeirra mína innilegustu samúð.  Við slys sem þessi gýs umræðan upp af krafti og er þá einatt á tilfinnganótunum.  2+2 veg strax segja menn og allur kórinn syngur með.  Í ljósi þess að sýnt hefur verið fram á með skýrum rökum að 2+1 vegur dugi þarna fyllilega næstu áratugina verður þessi umræða mér nánast óskiljanleg.  Það er hægt að gera 2+1 veg þessa leið á stuttum tíma, mun styttri tíma en tæki að leggja 2+2 veg.  Það er nú þegar búið að breikka veginn á þessari leið á löngum köflum milli Reykjavíkur og Hveragerðis.  Þar fyrir austan þarf meira við.    Gífurlegur kostnaðarmunur er á þessari framkvæmd hvor kostur yrði valinn.  Mismuninn gætum við hæglega notað til þarfari hluta, s.s. 2+1 veg frá Hvalfirði norður í Húnavatnssýslur en menn mér fróðari um kostnaðarútreikninga segja það fyllilega raunhæft.

Hvað verður hér ofan á verður fróðlegt að fylgjst með.  Þarna er komið að máli öflugt einkafyrirtæki með sterkan banka sem bakhjarl.  Þetta fyrirtæki er ekki í neinni góðgerðastarfsemi ef einhver heldur það.  Eigendur þess krefjast ávöxtunar á sínu hlutafé og þarna hafa menn komið auga á góðan kost til að láta ríkið (les:  almenning) borga brúsann.

Ég segi nei takk. 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Hafsteinn Viðar Ásgeirsson

Hér er er drepið á máli sem hefur oft komið upp í hugann og það verð ég að segja, að ég er mikið sammála þinni niðurstöðu Sveinn. Það er margbúið að sýna framá að 2+1 vegur (sem hægt er að gera að 2+2 eftir því sem þörfin eykst) gefur okkur nánast sama öryggi og 2+2 og varðandi t.d. veginn austur sérstaklega þá væri hægt að byrja strax á núverandi vegstæði, í stað þess að þurfa að setja nýtt vegstæði í umhverfismat, sem flýtir þessari framkvæmd um mörg ár.

Það er algert ábyrgðarleysi að ætla að fara að drepa málinu á dreif núna með því að starta umhverfismati á nýjum vegi og fresta þessu um mörg ár með því. Það eru hinsvegar margir sem sjá veginn fyrir sér eins og kaflinn sem gerður var í Svínahrauni, en það er ekki nothæft viðmið því vegurinn sá er allt of mjór til að setja í hann vegrið, enda var því hent niður eins og hverri annari hugdettu seint í ferlinu, en hefði þurft að setja á veginn meiri vegaxlir til að gefa þessu betra pláss.

Hafsteinn Viðar Ásgeirsson, 25.3.2007 kl. 02:15

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband