Hver á að gæta bróður míns?

Þegar ég var unglingur hafði maður óljósar spurnir af hinum skelfilega stað, Breiðavík.  Samt vissi maður ekki alveg hvað var svona skelfilegt við þennan stað en í huga okkar strákana var þetta sá staður sem fæstir höfðu áhuga að heimsækja.  Sumum var hótað af kennurum, foreldrum og jafnvel lögreglu að réttast væri að senda þá vestur þegar viðkomandi urðu of uppátækjasamir.  Já, þarna fyrir vestan væri sko ekki tekið með neinum silkihönskum á óþekktarormum.  

Mörgum árum seinna eignaðist ég trúnað eins þeirra er þarna dvöldu.  Hann sagði mér frá sumum af þeim hörmungum sem hann varð fyrir sem og aðrir.  Ég átti erfitt með að trúa og reyndar trúði ég ekki nema litlum hluta frásagnarinnar.  Hann sagði mér líka að sumum nágrönnum heimilisins var vel kunnugt um að þarna væri ekki allt sem skyldi.  Þessi frásögn tók á og var honum erfið.  Samt trúði ég ekki.  Trúði ekki og skammast mín fyrir það í dag, nú þegar verið er að moka öllum óhroðanum út.  Það er gott, gott að hreinsa til.  Þeir eiga það svo sannarlega skilið drengirnir sem þarna dvöldust.   

Það sem þarna gerðist er aldeilis ekki óþekkt, muna menn eftir Bjargsmálinu þar sem stúlkubörn voru fórnarlömb, ekki karla, heldur kvennanna sem trúað var fyrir uppeldi þeirra.  Ekki var Bjarg afskekkt eins og Breiðavík.  Bjarg var á þeim tíma í túnjaðri Reykjavíkur.  Samt kom málið í opna skjöldu.  Hvers vegna?

Sambærileg nýleg dæmi eru frá Noregi, Írlandi og USA svo eitthvað sé nefnt.  Það eru fá dýr jafn grimm manninum og grimmd hans snýst oftast gegn einstaklingum sömu tegundar.  Það er kannski að bera í bakkafullan lækinn að ræða þetta mál hér en í huga mínum brenna fyrst og fremst þrjár spurningar:

Í fyrsta lagi:  Fjöldi fólks vann á Breiðavíkurheimilinu.  Hvernig gat það látið ástandið afskiptalaust?

Í öðru lagi:  Stjórn heimilisins var mestmegnis búandi í nágrenninu, á Patreksfirði og sveitinni.  Hvernig sinnti þetta fólk því trúnaðarstarfi sem það var kjörið til?

Og í þriðja og síðasta lagi:  Miðað við það sem sagan hefur kennt okkur, hvar ætli Bjarg og Breiðavík sé núna? 

Verum vakandi fyrir því sem gerist í kring um okkur og tökum ekki öllu sem sjálfgefnu. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband