Færsluflokkur: Viðskipti og fjármál
Laugardagur, 30. ágúst 2008
Meinsemdin blasir við en allir líta undan
Flestum hugsandi fólki má vera ljóst að núverandi fiskveiðistjórnunarkerfi hefur gengið sér til húðar. Reyndar hefur mér virst það augaljóst frá upphafi að kerfi einokunar og sérréttinda er dæmt til þeirrar sjálfseyðingar sem nú er að ganga eftir. Kerfinu var í fyrstu komið á fót, efalaust af góðum huga, til að bjarga veiðistofni þorsksins frá eyðileggingu og ofveiði.
Aðferðin við skiptingu auðlindarinnar var hins vegar ein galin og verða má. Einungis ein stétt manna var tekin út og afhent auðlindin til notkunar, útgerðarmenn sem höfðu haldið skipum til veiða í þrjú svokölluð viðmiðunarár á undan kvótasetningunni 1984. Eftir sátu með sárt ennið, sjómenn, fiskverkafólk, fiskverkendur og aðrir sem áttu beina eða óbeina hagsmuni af veiðum og vinnslu. Gjörsamlega var gengið á skjön við alla heilbrigða hugsun um atvinnufrelsi og opið markaðskerfi.
Áður hef ég hér í bloggfærslum og í greinum gert grein fyrir hugmyndum mínum á útfærslu uppboðskerfis þar sem allir ættu jafna rétt til boðanna og þá einungis til skamms tíma í senn. Það er gjörsamlega glórulaust að svokallaðir "sægreifar" sitji að aflaheimildunum eins og fyrri tíma lénsherrar og skammti örðum skít úr hnefa.
Kerfi sem þetta er eins og mein sem étur lífgjafann innanfrá. Allir vita en líta undan því meinsemdin er miður geðsleg og mun valda mörgum tjóni þegar á henni verður stungið. Það verður samt ekki hjá því komist, því fyrr því betra.
Nýtt fiskveiðiár mörgum erfitt | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Viðskipti og fjármál | Breytt s.d. kl. 22:48 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Mánudagur, 14. júlí 2008
Óréttlæti einokunarkerfis
Í ljósi hins nýlega álits mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna er ekki nema eðlilegt að einhver láti nú reyna á kerfið. Kerfið sem vart verður saman jafnað við meira óréttlæti í íslandssögunni en dönsku einokunarverslunina. Kerfi sem er einokun einnar stéttar á rétti til fiskveiða úr sameign þjóðarinnar. Kerfi sem svipt hefur óteljandi einstaklinga og fjölskyldur afkomumöguleikum sínum, gert eignir þeirra verðlausar og að auki svipt margan manninn sjálfsvirðingunni.
Kerfi sem þetta og er búið til af stjórnmálamönnum sem virðast hafa verið fjarstýrðir frá skrifstofu LÍÚ. Kerfi sem er hreinlega úr takt við allt annað í þjóðfélaginu og er mannfjandsamlegt. Það er hreint ótrúlegt að horfa upp á nátttröll sem kvótakerfið í nútíma samfélagi frjálsrar verslunar og viðskipta. Þarna heldur einstaklingurinn Ásmundur á sjóinn vitandi það að hinn langi armur ólaganna, Fiskistofa, mun krækja hann að landi fyrr en síðar og lögsækja hann fyrir verknaðinn.
Hér er mikið réttlætismál á ferðinni. Hér er maður sem þarf stuðning okkar allra í baráttunni. Ekki minni stuðning en aðrir flóttamenn sem þurfa að berjast fyrir réttindum sínum og okkar hinna. Því hvet ég alla til að láta nú í sér heyra og veita honum stuðning.
Mótmælir kvótakerfinu með veiðum | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Þriðjudagur, 12. febrúar 2008
Einnota bæjarstjórn?
Í nýjasta hefti Vísbendingar birtist árlegur listi um stöðu sveitarfélaga varðandi búsetugæði. Teknir eru fimm efnahagslegir þættir sem gilda hver um sig fimmtung í lokaeinkunn. Það sem fyrst vekur athygli eru sveitarfélögin sem lenda í fyrstu þrem sætunum, Garðabær, Seltjarnarnes og Mosfellsbær. Þar hafa sjálfstæðismenn að mestu haldið um stjórnartaumana og stjórnun fjármála sem annarra mála í traustum höndum. Þessi sveitarfélög hafa einnig boðið íbúum sínum upp á meiri þjónustu og gæði en víða annars staðar.
En það sem mesta athygli mína vakti var hrap eins sveitarfélags á þessum lista. Sveitarfélagið Álftanes féll um 31 sæti eða úr 5. í það 36. Okkur sem búum þarna kemur þetta ekki svo á óvart. Eftir síðustu kosningar var þvi framþróunarferli sem D-listinn hafði leitt klúðrað með því að stöðva uppbyggingu miðsvæðisins auk þess að skuldbinda sveitarfélagið til a.m.k. 150 milljóna leigugreiðsla til fasteignafélaga sem taka yfir rekstur fasteigna til næstu 30 ára. Að auki hefur tugum milljóna verið eytt í arkitekta og hönnunarferli miðsvæðisins sem af bæjarstjóra hefur verið kallaður grænn miðbær. Staðan er svo alvarleg bæjarstjórn er búin að fá gult spjald frá eftirlitsstofnun með fjármálum sveitarfélaga.
Enn hefur ekkert gerst í uppbyggingu miðsvæðisins og gífurleg óánægja er með hönnun þess, sbr. það að helmingur atkvæðisbærra íbúa sá ástæðu til skriflegra athugasemda við skipulagið. Málið er því komið í pattstöðu sem erfitt verður að sjá hvernig bæjarstjórn ætlar að vinna sig út úr.
Hvað varðar fall Álftaness á lista draumasveitafélaganna svarar Sigurður Magnússon bæjarstjóri því í 24 stundum í dag að D-listinn hafi skilið illa við fjármálin. Meirihluti D-listans lét af völdum á miðju ári 2006. Síðan þá hefur Sigurður og hans félagar í Á-listanum haldið um stjórnartaumanna. Í síðustu könnun Vísbendingar fyrir árið 2006 var Álftanes í 5. sæti. Hvers vegna? Hafði D-listinn ekki verið við stjórn árin þar á undan? Eins og vanalega býður bæjarstjórinn upp á rangfærslur, orðhengilshátt og útúrsnúninga þegar hann er spurður um óþægileg mál. Útsvar Álftnesinga er í toppi auk þess sem fasteignagjöld eru með því hæsta sem gerist.
Þessi könnun vísbendingar segir okkur sögu. Sögu um fjármálaóstjórn, rangar vanhugsaðar framkvæmdir og tálsýnir um atvinnuuppbyggingu, hótelturn, grænan miðbæ (hvað sem það annars táknar). Þessa sögu þarf að stöðva sem fyrst. Bæjarstjórinn og hans fólk hagar sér eins og fílar í postulínsverslun og virðast ekki hafa neinn hug á endurkjöri. Það á að demba yfir íbúanna eins miklu af draumsýnum bæjarstjórans á kjörtímabilinu eins og mögulegt er því hann veit sem er. Þessi meirihluti sem hann styðst við mun ekki ná endurkjöri.
Því sitjum við uppi með einnota bæjarstjórn.
Föstudagur, 8. febrúar 2008
Búið að hleypa loftinu af Svandísi
Allt frá á haustdögum hefur verið mikill póltískur skjálfti vegna REI málsins, meirhluti borgarstjórnar féll og borgarfulltrúar sumir viðhaft stór orð um málið enda má segja að fullt tilefni hafi verið til þess. Svandís Svavarsdóttir kom fram í þessu máli sem fulltrúi heilbrigðrar skynsemi og skaut föstum skotum að borgarstjóra, Birni Inga og stjórnum OR og REI. Öllum mátti vera ljóst að málið var mjög slæmt og þarna hafði hrein og klár græðgi blindað mönnum sýn.
Sú úttekt sem nú hefur verið birt er hreint út sagt einhver alfurðulegasta loðmulla sem sést hefur lengi. Hvar er nú kraftur Svandísar og sexmenningana Sjálfstæðisflokksins? Það er engu líkara en stungið hafi verið prjóni í blöðru þegar hlustað er á Svandísi, nú síðast í Kastljósi. Þvílík flatneskja sem borgarbúum og öðrum landsmönnum er boðið upp á með skýrslu stýrihópsins er algjörlega óásættanleg. Kjósendur sem jafnframt eru eigendur þessara fyrirtækja eiga skýlausan rétt á betri vinnubrögum en þessum. Í Kastljósi var VÞV hreint aumkunarverður, gat engu svarað og stóð hvað eftir annað á gati. Það er held ég öllum ljóst að hans tími í pólítík er liðinn.
Gamli góði Villi. Sorglegt að svona fór. Betra hefði verið að enda feril sinn á annan hátt en þennan. Nú skilur maður kannski Björn Inga. Hann mat greinilega stöðuna þannig að betra væri að koma sér í björgunarbátinn áður er skipið sykki.
En Svandís og Dagur. Hvaða dúsu var stungið upp í ykkur?
Efast um umboð borgarstjóra | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Miðvikudagur, 6. febrúar 2008
Er siðrænt að eyða milljörðum af annarra fé?
Undanfarin misseri hafa dunið á landslýð fréttir af ofsagróða banka og alls kyns grúppa þetta og grúppa hitt hvort heldur á heimamarkaði ellegar í útrásinni góðu. Ekki tekur að tala um milljónir, tugi milljóna eða milljarða, heldur er oftast talið í tugum og jafnvel hundruðum milljarða. Tölur sem þessar draga svo mörg núll með sér að venjulegu fólki sundlar við og ber lítt skynbragð á upphæðirnar. Upphæðir sem eru órafjarri raunveruleika hinna venjulegu manna, launaþrælanna sem í reynd halda uppi ofsagróðanum með okurvaxtagreiðslum af handónýtri krónu. Þeirri krónu sem lögð hefur verið undir jöklabréfaþeytivindu erlendra braskara. Allar tölur í þessum stærðum eru nánast óskiljanlegar og erfitt að setja í samhengi við þau raunverulegu verðmæti sem í lífi íslendingsins skipa hvað hæsta sess, þ.e. íbúðin og kannski bíldruslan.
Þessi sýndarhyggja gegnsýrir orðið alla umræðu og fólki finnast milljarðar til eða frá ekki skipta neinu máli. Svo einhver dæmi séu tekin þótti ekki tiltökumál að borga borgarstjórastólinn undir Ólaf F. með kaupum á ónýtu spýtnabraki við Laugaveginn. Þeim sem sömdu við Ólaf F. verður ekki gert að borga dellunna heldur er reikningurinn sendur til skattgreiðenda. Fimmhundruð milljónir þar. Þessum sömu borgarfulltrúm finnst ekkert tiltökumál að setja Sundabraut í jarðgöng þó svo að það kosti skattgreiðendur a.m.k. 9 - 10 milljarða aukalega þrátt fyrir að að færustu sérfræðingar í umferðarmálum telji lausn Vegagerðarinnar bæði mun betri frá umferðarsjónarmiði auk þess að vera milljörðunum ódýrari. Fyrir þessa umframpeninga mætti leysa stóran hluta af öllum umferðarvandamálum höfuðborgarsvæðisins og leggja 2+1 veg frá Selfossi að Borgarnesi.
Mjög er pressað á stjórnvöld að falla frá hugmyndum um slíkan veg (2+1) til Selfoss og Borgarness og velja í stað þess margfalt dýrari lausn sem er 2+2 vegur. Engin umferðarleg rök liggja til lagningu 2+2 vegar auk þess sem kostnaður er margfaldur, verktíminn er mun lengri og á meðan við eyðum tugum milljarða í þetta æpa óunnin verk á okkur um allt landið. Verk sem spara ófá slysin og mikla fjármuni. Benda má á stórgóða grein eins fremsta umferðarsérfræðings landsins, Rögnvaldar Jónssonar verkfræðings, í Morgunblaðinu í dag um þetta mál. Það er eins og margir hafi görsamlega tapað allri vitrænni hugsun varðandi þessar framkvæmdir og vilji fyrst og fremst skara sem mest að eigin köku og þá á kostnað annarra sem skulu á bíða lengur brýnna úrbóta.
Mér finnst kominn tími til að staldra aðeins við og horfa heildrænt af ískaldri rökhyggju á þessi mál og taka ákvarðanir af skynsemi og í samræmi við nauðsyn hverju sinni. Stjórnmálamönnum er þar síst treystandi. Þeirra ákvarðanir miðast því miður oftast við stundarhyggju og atkvæði næstu kosninga.
Því er miður.