Að vaða út í pytt - hvað er til bjargar?

Mér líður hálf undarlega.  Svona svolítið eins og ég hafi verið hafður að fífli sem ég sennilega er.  Látum aðra dæma það.  Ég hef alla tíð haft áhuga á stjórnmálum og reynt að fylgjast með eftir föngum og stundum lagt litlar pillur í umræðu dagsins.  Mér er engin launung á að lengstum hef ég fylgt mínum flokki, Sjálfstæðisflokknum í flestum málum og hugsjónir hans fallið vel að mínum. 

Síðustu daga hefur tröllriðið fjölmiðlum mál vegna ríkisfangs stúlku sem mun vera tengd Jónínu Bjartmars umhverfisráðherra.  Ég ætla ekki að tíunda það mál hér því flestir ættu að þekkja það.  Það er alveg kristaltært í mínum huga að þarna hefur ekki verið farið eftir þeim venjulegu leikreglum sem gilt hafa um veitingu ríkisborgararéttar.   Af þeim framsóknarmönnum sem eftir eru hef ég haft nokkuð dálæti á Jónínu og fundist skoðanir hennar, framkoma og málflutningur allur bera vott um einurð og málafylgju.  Það urðu mér því nokkur vonbrigði að sjá hvernig hún brást við þessari umfjöllun.  Nóg um það.

Enn verra fannst mér til um Bjarna Benediktsson.  Þetta er maðurinn sem átti atkvæði mitt í komandi kosningum.   Þar var ég viss um að færi vandaður, heill og heiðarlegur stjórnmálamaður.  Nei,  því miður óð Bjarni tafarlaust út í foraðið þrátt fyrir aðvarnanir.  Hann og aðrir nefndarmenn hafa komið fram á þann hátt að ekki telst trúverðugt.  Alls ekki.  Og enn er Bjarni á leið út í pyttinn og er nú komin upp að hálsi.  Með honum hafa fleiri vaðið, Guðrún Ögmunds, þið vitið þessi með pappírstætarann, Guðjón Ólafur sem ég ætla ekki að segja neitt meira um og að síðustu lagði dómsmálaráðherrann af stað og rak tærnar í drullupyttinn.

Bjarni, Guðrún og Björn.  Það er enn hægt að snúa við og í guðanna bænum gerið hreint fyrir ykkar dyrum.  Guðjón Ólafi hafa hins vegar verið lagðar línurnar; „Árangur árfram og ekkert stopp".  Sem sagt beint í pyttinn.  Þó svo að ég sé fífl og seinn að fatta þá blasa ósannindin við alþjóð.  Ég man eftir manni sem rataði beint í sama pytt.  Manni sem heitir Árni Johnsen.  Árni hafði ekki vit á að snúa við upp úr sínum pytti og því fór sem fór.

Það er enn tækifæri.  Notið ykkur það.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: halkatla

gott hjá þér að fara vel með atkvæðið þitt. En mér þykir leiðinlegt að uppáhaldið þitt hafi brugðist svona illilega, ég segi það satt. Sko Bjarni.

halkatla, 4.5.2007 kl. 12:50

2 Smámynd: Ólafur Þór Gunnarsson

Það lyktar oft illa í framsóknarfjósinu, það er þannig lykt af þessu máli.

Í Alvöru talað! 

Ólafur Þór Gunnarsson, 4.5.2007 kl. 14:06

3 Smámynd: Þarfagreinir

Já, pyttur er mjög góð samlíking hér.

Og hann verður alltaf dýpri og dýpri. 

Þarfagreinir, 4.5.2007 kl. 20:43

4 Smámynd: Egill Rúnar Sigurðsson

Hjartanlega sammála þér um þetta Sveinn. Hef einnig sagt mína skoðun á þessu.

Egill Rúnar Sigurðsson, 4.5.2007 kl. 21:57

5 Smámynd: Benedikt Halldórsson

Ég get ekki að því gert, en mér finnst Bjarni Ben mjög trúverðugur í alla staði. Kannski er ég of auðtrúa, það hef ég reyndar löngum verið, en ég hef þó aðeins lært að þekkja lygara og frá hinum að einhverju leiti að minnsta kosti. Já. ég trúi Bjarna í þessu máli.

Benedikt Halldórsson, 5.5.2007 kl. 07:30

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband