Færsluflokkur: Viðskipti og fjármál

Skyldulesning! Grein Jóns Steinssonar í Fbl.

Ég vil vekja athygli á stórmerkri greiningu dr. Jóns Steinssonar lektors við Columbia háskólann á spillingu í stjórnkerfi og fyrirtækjum hér á landi.  Skyldulesning öllu áhugafólki um endurreisn hins Nýja-Íslands.  Greinin birtist í Fréttablaðinu í dag.

Það má alls ekki lækka laun æðstu ráðamanna. Til er önnur notadrýgri ráð.

Ekki er viturlegt að lækka laun ráðherra, þingmanna og æðstu embættismanna.  Það væri reyndar mjög óviturlegt.  Lækkun þeirra gæfi "kærkomið tækifæri" að lækka þar á eftir laun okkar hinna. 

Ef það er eindræg og einlæg ósk Ingibjargar, Geirs og allra undirsátanna að lækka launin en fá það ekki fyrir einskæran fautaskap Kjararáðs þá legg ég til:

Þeir er hlut eiga að máli, taki af heildarlaunum sínum þau 15-20% um var rætt að lækka þau um og leggi inn á reikinga viðurkenndra líknar- og hjálparsamtaka.  Þar mætti nefna Rauða krossinn, Mæðrastyrksnefnd, Fjölskylduhjálpina, Hjálparstofnun kirkjunnar, Hjálpræðisherinn og efalaust einhverja fleiri sem ég kann ekki að nefna hér.

Með lækkun launa hverfa þessar lækkanir inn í ríkishítina og hverfa þar.  Greitt til hjálparsamtaka verða þetta "sjáanlegir" fjármunir sem ganga þá til góðverka.


mbl.is Kjararáð getur ekki lækkað launin
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Geir og Ingibjörg. Takið nú saman höndum með íslenskri þjóð og komið í veg fyrir óöld og óeirðir.

Það stefnir í óefni.  Mótmæli almennings munu halda áfram og af enn meiri krafti en áður.  Boðuð mánudagsmótmæli verða sérlega viðkvæm.  Einfaldlega að þau eru haldin á fullveldisdag íslensku þjóðarinnar, þjóðar sem er niðurlægð, hrædd og reið.  Þetta í bland við óbilgjarna, veruleikafirrta stjórnarfrúr og -herra eru fjandi góður kokkteill til vandræðaástands, jafnvel óeirða.  Afleiðingar þess vill enginn hugsa til enda.

Hvað er þá til ráða?  Sú venja hefur skapast að ráðherraparið Geir og Ingibjörg hafa haldið fjölmiðlafundi síðdegis á föstudögum, væntanlega til að róa og sefa fólk niður fyrir laugardagsmótmælin.  Því miður hafa þessir fundir gengisfallið í seinni tíð og innihald þeirra mun minna en umbúnaðurinn gefur til kynna.  Borgarafundurinn á mánudagskvöldið gaf tóninn.  Þar  hljóta þau að hafa gert sér ljóst hversu djúprist óánægjan er. Óásættanlegt var að mæta þeim sjónarmiðum sem þar komu fram með drambi og hroka líkt og sumir ráðherrana gerðu sig seka um í svörum sínum til fundarmanna.

Nú þarf að draga stóru trompin fram úr erminni.  Lýsa þarf yfir eftirfarandi:

  1. Stjórn og yfirmenn FME sé leyst frá störfum.  Annað tveggja sváfu menn þar á verðinum eða notuðu ekki rétt mælitæki, t.d. í álagsprófum bankanna.
  2. Stjórn og bankastjórn Seðlabankans sé leyst frá störfum.  Ekki þarf að fjölyrða um þau hörmulegu mistök sem þar hafa átt sér stað.  Ekki gengur að einn bankastjórana sér jafnframt á fullu í pólitíkusum slag.
  3. Tafarlaust fari fram alvöru uppstokkun í yfirstjórnum bankanna þriggja.  Ekki er ásættanlegt að sama fólkið sé þar við stjórnvölinn á var í gömlu bönkunum.  Byggja þarf upp traust að nýju.  Til þess þarf að skifta um fleira en húsgögn.
  4. Forsætisráðherra þarf að tilkynna að gengið veriði til kosninga á vormánuðum (maí eða júní).
  5. Gera þarf tafarlausa gangskör að fá erlenda sérfræðinga að rannsaka meinta sviksemi og siðferðisbrot stjórnenda bankana og eiganda þeirra.  
  6. Skipuð verði nefnd sem skila ætti tillögum um endurreisn hins Nýja-Íslands ekki síðar en í lok janúar.  Nefndina skipi rektorar Háskóla Íslands, Háskólans í Reykjavík, Háskólans á Akureyri og Viðskiptaháskólans Bifröst.  Nefndin fái algjörlega frjálsar hendur til verksins, rúman fjárhag og geti þess vegna kallað til alla þá sérfræðiaðstoð sem þörf verður á.

 

Liðir 1-4 eru algjört skilyrði fyrir því að geta róað það ástand sem hér hefur skapast.  Ég mun aldrei mæla með ofbeldi eða skemmdarverkum en bendi á að mjög lítið þarf til að breyta friðsömum fundi í hreina skelfingu.  Látum það ekki gerast. 

Ábyrgðin er ykkar Ingibjörg Sólrún Gísladóttir og Geir Hilmar Haarde.  Fyrst og síðast eruð það þig sem getið.  Til þess þarf áræði, vit og kjark.


Hver hinn innri maður forsætisráðherrans?

Fréttamenn RÚV og Stöðvar 2 eru með forsætisráðherra GHH í viðtali. Ljóst er í upphafi að honum er viðtalið ekki á móti skapi.
Þegar hann uppgötvar að fréttamaðurinn spyr hann krefjandi óþægilegrar spurningar breytist viðmótið. Pirringur sést og þegar hann á ekki til svar bregst hann illa við og veit af reynslu að sókn er besta vörnin. Því ræðst hann á fréttamanninn G.Pétur og frávarpar vandræðum sínum yfir á hann. Þetta er vissulega vel þekkt aðferð í sjálfsvörn og rökþroti. Það er því hægt að virða GHH það til vorkunnar að hann er mannlegur og bregst við á mannlegan hátt þegar hann kemst í þrot og kann ekki svar við beittri spurningu G.Péturs.
Að sjálfsögðu átti þetta erindi við þjóðina. Voru þeir ekki báðir í vinnu hjá henni. Er ekki hlutverk forsætis að kunna skil á þeim atriðum sem þarna var spurt um og geta svarað fyrir það. G.Pétur var líka í vinnu hjá þjóðinni. Honum bar að rækja fréttamannsstarf sitt af trúmennsku og kostgæfni og veita stjórnvöldum aðhald með beittri opinni upplýstri umræðu sem varpaði ljósi á raunverulega stöðu mála. Mistök G.Péturs liggja fyrst og fremst í því að birta þetta ekki fyrr. Þó er betra seint en aldrei.
Sérstaklega á þessum umbrotatímum. Þar skiptir miklu persónustyrkur og persónugerð þeirra er með völdin fara. Það sem GHH sýndi þarna var langt frá því að vera viðeigandi af manni í hans stöðu. Í þeirri naflaskoðun sem öll þjóðin þarf nú að ganga í gegn um skal allt upp á borðið. Þetta líka. Því betur sem brotin raðast upp í heildarmyndinni mun þessi skoðun gefa okkur tækifæri á endurmati, endurskoðun gilda, framtíðarsýnar og markmiða. Til þess er sagan að hægt sé að læra af henni.
mbl.is Krafa um að viðtali við Geir verði skilað
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Svo sannarlega sjálftökusamfélag

Frábær ræða hjá Þorvaldi. Hann flutti skarpa sýn á tilurð þess vítahrings við erum nú lent í. Lent í af völdum spilltra stjórnmálamanna sem í skjóli frjálshyggju gerðu það eitt að skara eld að eigin köku. Hann hitti svo sannarlega naglann á höfuðið þegar hann sagði kvótakerfið upphafið að sjálftökusamfélaginu.
Mitt mat er að kvótakerfið sé í eðli sínu ekkert annað en upptaka gamla lénsveldisins. Byggðir landsins hafa sviðnað undan þessu óréttláta kerfi sérhagsmuna. Þorpin við sjávarsíðuna eru í góðri kreppuæfingu. Fólkið þar er nú þegar búið að upplifa kreppu. Kreppu tilorðinni af því að lénsherrann seldi kvótann burtu. Enga björg var að fá, atvinnan farin, eignir verðlausar
og sjálfsmyndin brotin. Víða situr fólk í verðlausum húsum sínum og fær sig hvergi hrært. Litla vinnu að hafa nema rétt til að skrimta. Þetta fólk hefur ekki sett Ísland ehf á hausinn.
Nú þegar ríkið hefur í raun eignast mestallan kvótann gefst kærkomið tæifæri til að stokka kerfið upp. Ekkert annað en opinber útboð koma til greina. Vissulega má binda aflaheimildir að hluta til við landshluta ef mönnum sýnist svo. Grunnurinn verður að vera á að veiðar og nýting sé arðbær.
Það er hún ekki í dag þegar skuldir útgerðarfyrirtækjanna nema margfaldri ársveltu.
mbl.is Kvótakerfið varðaði veginn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Viðbrögð Birnu bankastjóra gera ekkert annað en staðfesta frásögn Agnesar Bragadóttur

"....er augljóst að þagnarskylda var brotin og bankinn mun grípa til viðeigandi aðgerða þar að lútandi". Þarf frekari vitna við.  Ég held ekki.  Öll gögn styðja frásögn Agnesar af sukkinu og svínaríinu sem viðgekkst í þessum banka.  Ef banka skyldi kalla.  Hér er um svo alvarlegt athæfi að ræða gagnvart öðrum viðskiptavinum Glitnis að bankaleyndinni af þessu þarf að létta.  Núna strax.  Er fólk ekki að átta sig á að hér höguðu svokallaðir "bissniessmenn" og "útrásarvíkingar" eins og ótíndir Nígeríusvindlarar. 

Og alltaf flýtur óhroðinn upp.  Nú síðast fréttir af peningaþvættismáli starfsmanns Virðingar.  Í fréttum kemur fram að starfsmaðurinn hafi notað trúnaðarupplýsingar til að hagnast persónulega og notað fyrirtækið eins og peningaþvottavél.  Auðvitað koma svona mál alltaf upp öðru hverju.  Það sem gerir þetta mál verra eru fjölskyldutengsl hans við forstjóra Virðingar (bræðrasynir) og við forstjóra Kauphallarinnar en starfmaðurinn er sonur Þórðar kauphallarforstjóra.  Að auki blandast bróðir hans inn í málið en hann starfar hjá öðru verðbréfafyrirtæki.

Nú er gott og blessað að lögreglan hafi hendur í hári þeirra sem ljúgja og svíkja.  Í þessu tilfelli talað um hundruðir milljóna.  Lögreglan gengur þarna vasklega fram og handtekur og húsleitar eins og þörf er á.

Í ljósi þessa er mér alveg óskiljanlegt hvernig í veröldinni stendur á því að enn skulu þeir glæpasnúðar sem komu okkur, heilli þjóð, á kaldan klaka enn ganga enn lausir.  Þar erum við ekki að tala um neinar hundruðir milljóna, nei, þúsundir milljarða.  MILLJARÐA!!!  Hvers konar aumingjadómur er það að ganga ekki strax í verkin.  Þessir menn eiga að sjálfsögu að vera í gæslu á meðan mál þeirra eru rannsökuð.

Þar á bankaleynd ekki við.  Ég gef skít fyrir hana þegar ég og aðrir saklausir íslendingar þurfa að blæða og borga fyrir þessa svindlara.

 


mbl.is Glitnir semur nýjar lánareglur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

11. gr. laga nr. 36/2001

Minntist DO ekki á ákvæði þessarar greinar?  Skrítið.  Greinin fjallar um heimild Seðlabankans um að gera lánastofnunum að leggja ákveðið hlutfall innlána á sérstakan bundinn reikning í Seðlabankanum.  Stundum kölluð bindiskyldan.  Hún er annað af tveimur stjórntækjum bankans á efnahagsmálum.  Hitt eru vextir.  Eins og allir þekkja var því stjórntækinu óspart beitt.  Hvers vegna beitti DO ekki bindiskylduákvæðinu til að hafa þennan bráðnauðsynlega hemil á útþenslu bankanna? 

Manni er spurn.  Svo vogar þessi maður sér að mæta með smjördósinar, nei -föturnar og sletta á allt og alla.  Allir eiga sök nema hann.  OMG, hversu háu stigi getur veruleikafirringin náð.  Hann hagar sér eins og illa uppalin frekur krakki í barnaafmæli.

Annað tveggja er maðurinn galinn eða þá að hann er að undirbúa brottför sína úr "pólitík" og bankanum með hvelli, miklum hvelli.

 Hvisssss....baaang.

 

Farinn!!!


mbl.is Fjölmiðlar í heljargreipum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Reiðina verður að sefa.....núna ef ekki á illa að fara.

Ég held að flestum sé ljós sú mikla reiði sem ríkir meðal almennings.  Stjórnvöld virðast halda afspyrnuilla á málum og mál okkar komin í illleysanlegan hnút.   Fólk mun safnast saman á Austurvelli á laugardag, hvort sem mönnum líkar betur eða ver.  Mjög lítið þarf nú til að upp úr sjóði og allt geti farið í bál og brand.  Eignaspjöll, meiðingar eða mannskaðar eru okkur fjarlæg og í huga flestra sem fjarlægar fréttir á sjónvarpsskjám.  Hins vegar er málum svo komið að við stöndum frammi fyrir raunverulegri ógn.  Óvinurinn er við sjálf.  Ég skora á fólk að halda ró sinni en mótmæla af þeim krafti að eftir sé tekið.

Stjórnvöld verða að friða fólk.  Fólk sem krefst þess að sökudólgar séu dregnir til ábyrgðar.  Bullið í Geir að ekki megi persónugera vandann er í besta falli hlægilegt.  Hann og félagar í ríkisstjórn þurfa heldur betur að taka til  hendinni og henda út stjórn seðlabankans, stjórn FME auk þess að reynt verði með áþreifanlegum hætti að hafa hendur í hári og eigum þeirra fjárglæframanna sem hér hafa komið heilli þjóð á vonarvöl.  

Ríkisstjórn GHH á síðan að leggja fram afsögn samhliða því að óska eftir því að forseti Íslands skipi utanþingsstjórn færustu sérfræðinga (ekki síst í mannlegum samskiptum) og boðað sé til kosninga ekki síðar en um miðjan mars.

Skoðið kjósa.is og leggið lið kröfunni um kosningar.


mbl.is Máluðu Valhöll rauða í nótt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Á lítilli eyju við heimsskautahjara

Rakst á þetta kvæði á strandir.is Þetta held ég að sé lýsandi fyrir hug margra í dag fyrir þeirri ömurlegu stöðu sem búið er að setja íslenska þjóð í.  Það kannski ekki neinn einn sem ber það alla sök og misjafnt er hvernig "útrásarvíkingarnir" hafa brugðist við.  Sumir flýja land með fjármuni í ferðatöskum á meðan aðrir virðast ætla að takast á við vandann eins og menn. 

 

Á lítilli eyju við heimsskautahjara

býr heimakær, vansvefta, auðtrúa þjóð.

Hún leit upp til ráðsmanna loðinna svara

sem loforðum öfugt í kok hennar tróð.

 

Þeir níddust á trausti og trúgirni okkar

– táldrógu sannlega helvítis til.

Og allt sem þeir gerðu, þeir gordrullusokkar

gerðu þeir flottræflum sínum í vil.

 

En frelsið er háðara boðum og bönnum

en bláeygðir frjálshugar ímynda sér.

Þjóð mín var notuð af nýríkum mönnum

og nauðgað af útrásarvíkingaher.

 

Veit ekki eftir hvern þetta er en ef einhver getur upplýst mig um það verður það þegið þökkum með.

 

Nú er komið í ljós að höfundurinn er Baggalúturinn góðkunni Bragi Valdimar.  


Hvað sagði Árni Matt við Alistair Darling sem reitti breska ráðamenn til svona mikillar reiði?

Það kemur fram í Fréttablaðinu að fjármálaráðherra Bretlands A. Darling hafi átt símtal við kollega sinn Árna Mathiesen í eftir kastljósviðtalið við DO í fyrrakvöld og það sé fyrst og fremst það samtal sem breski fjármálaráðherrann hafi vísað til, furðu lostinn ásamt G.  Brown, forsætisráðherra Breta í gærmorgun. Þeir voru mjög stóryrtir og sögðust sækja rétt sparifjáreigenda ICESAVE með góðu eða illu til íslenskra stjórnvalda. 

Nógu slæmar voru heimskulegar yfirlýsingar DO og það heyrðu og sáu allir.  Ef það reynist rétt að dýralæknirinn hafi reitt breska ráðherra til svona mikillar reiði verður hann að upplýsa þjóðina um hvað þeim fór á milli.  Það getur vart skaðað meir en orðið er.

Ábyrgð þeirra manna sem stunduðu hér hreina og klára fjárglæfra og stukku síðan frá borð og skildu allt eftir í rjúkandi rúst er mikil og ríkisvaldinu ber skylda til að fela viðeigandi yfirvöldum að frysta eignir þeirra hérlendis sem og erlendis og sækja þá til saka.  Þeirra er sökin mest.  Hins vegar virðist ljóst að opinberar eftirlitsstofnanir hafa ekki staðið sig og beinlínis skaðað hagsmuni þjóðarheildarinnar.

Glannalegar (vægt til orða tekið) athafnir og orð þessara manna sérstaklega seðlabankastjóra hafa augljóslega skaðað þjóðina gífurlega.  Því er spurning um hvort orð hans varði ákvæði 91. gr. X. kafla alm. hegningarlaga:

91. gr. Hver, sem kunngerir, skýrir frá eða lætur á annan hátt uppi við óviðkomandi menn leynilega samninga, ráðagerðir eða ályktanir ríkisins um málefni, sem heill þess eða réttindi gagnvart öðrum ríkjum eru undir komin, eða hafa mikilvæga fjárhagsþýðingu eða viðskipta fyrir íslensku þjóðina gagnvart útlöndum, skal sæta fangelsi allt að 16 árum.
Sömu refsingu skal hver sá sæta, sem falsar, ónýtir eða kemur undan skjali eða öðrum munum, sem heill ríkisins eða réttindi gagnvart öðrum ríkjum eru undir komin.
Sömu refsingu skal enn fremur hver sá sæta, sem falið hefur verið á hendur af íslenska ríkinu að semja eða gera út um eitthvað við annað ríki, ef hann ber fyrir borð hag íslenska ríkisins í þeim erindrekstri.
Hafi verknaður sá, sem í 1. og 2. mgr. hér á undan getur, verið framinn af gáleysi, skal refsað með …1) fangelsi allt að 3 árum, eða sektum, ef sérstakar málsbætur eru fyrir hendi.

 Það þýðir ekkert að segja að ekki þýði nú að leita að sökudólgum.  Það er svona svipað og einhverjir dólgar leggi heimili manns í rúst og manni sé efst í huga að að laga til og koma heimilinu aftur í stand í stað þess að ná tjónvaldinum.

Kallar maður ekki á lögguna í svona tilfellum?


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband