Föstudagur, 29. desember 2006
Að hengja feminista?
Af flestum fjölmiðlum má telja að Saddam Hussein kembi ekki hærurnar að morgni og svo sem hefur farið fé betra. Hins vegar mætti telja að miðað við ástandið eins og það virðist vera í Írak að afskaplega misráðið sé að hengja karlinn núna. Það hlýtur að vera nokkuð örugg aðferð að búa til píslarvott. Menn skulu ekki gleyma því að karlinn á sér fjölda stuðningsmanna í hópi Sunníta, þeirra sem öllu réðu í valdatíð hans. Þetta er tæplega það sem íraska þjóðin þarfnast núna.
Innrásin og framhaldið af henni hlýtur að teljast einhverra skelfilegustu mistaka síðustu áratuga. Nógu slæmt var ástandið fyrir þegar fjöldi bókstafstrúarmanna í hópi múslima hataðist úr í BNA og Breta. Sú ótrúlega heimska að halda að hægt sé að útrýma hryðjuverkum með stríði er orðin okkur dýr og á örugglega eftir að vera okkur enn dýrari þegar fram líða stundir.
Fyrir tveim árum hitti ég fullorðinn sænskan kaupsýslumann í Tyrklandi og átti við hann langt spjall. Sá sænski stundaði nokkur viðskipti í Miðausturlöndum og við Persaflóann og sagðist farinn að þekkja nokkuð vel til eftir 30 ár á svæðinu. Stjórnmálaástand sagði hann víða vera ótryggt og í arabaríkjunum ríktu soldánar sem væru hreinir og klárir einræðisherrar í ríkjum sínum. Réttarfar eins og við Vesturlandabúar þekktum væri ekki til í þessum ríkjum nema helst þá í Írak og Jórdaníu. Og þrátt fyrir mörg grimmdarverk Saddams hefði hann leitt landsmenn sína til mikilla framfara, fyrst og fremst með þvi að aðskilja ríki og trú, koma á skólaskyldu og auka heilsugæslu, banna konum að ganga með blæjur og körlum að taka sér margar konur. Eins lögskipaði hann algert jafnrétti karla og kvenna. Þessu framfylgdi karlinn og hirð hans af hörku sbr. fjöldmorð á Kúrdum og Shítum í Suður-Írak bera vitni um.
Þannig sagði sá sænski frá og færðist allur í aukanna þegar hann útnefndi Saddam feminista nr. 1 á svæðinu. Þarna var mér nóg boðið og hætti að trúa. Eftir heimkomuna fór ég að afla mér hlutlausra upplýsinga og komst að því að flest af því sem hann hafði sagt mér reyndist vera rétt. Kvenfrelsi væri mun meira í Írak en nokkru öðru landi á þessum hluta jarðarinnar. Svíinn sagði það grátlegt að horfa upp á eyðilegginguna og á örfáum mánuðum hefði BNA-mönnum og Bretum að skjóta og spengja landið nánast aftur í tíma um 50 - 60 ár. Núna væri gósentíð hjá bóksstafstrúarmönnum og þarna stefndi beint í illvíga borgarstyrjöld milli sunníta og shíta.
Ekki datt mér í hug að segja þessum sænska vini mínum frá því að Íslendingar hefðu verið í hópi hinna staðföstu og sagt Írökum stríð á hendur. Ég hreinlega skammaðist mín fyrir það. Og viti menn, flest það sem hann sagði mér þarna fyrir tveim árum á hótelbar í Antayla í Tyrklandi hefur gengið eftir.
Svo þeir ætla að hengja feminista á morgun......
Athugasemdir
Eftir því sem ég best veit er þetta satt og rétt. Frelsi kvenna var meira í Írak en víða í öðrum múslimaríkjum. Þetta er eitthvað sem fólk verður að horfast í augu við. Líka að þegar Ráðstjórnarríkin liðuðust sundur þá versnuðu kjör margra kvenna verulega. Ógnarstjórn og alræðisvald er slæmt en algjört upplausnarástand er ástand sem verðlaunar ribbaldalýð sem veður um með byssur. Talibanar komust til valda við þannig ástand.
Salvör Kristjana Gissurardóttir, 29.12.2006 kl. 23:41
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.