Bílastæðasjóður. Þjónusta eða hvað...?

Brá mér ásamt konu og dóttur í bæinn á Þorláksmessukvöld, aðallega til að hitta frændfólk konunnar minnar og lykta aðeins af stemmingunni í bænum.  Þar sem Bílastæðasjóður Reykjavíkur er alltaf að auglýsa sig og sína góðu þjónustu ákvað ég að láta til leiðast og lagði bílnum í Ráðhúskjallaranum við Tjarnagötu.  Auk þess hafði sjóðurinn auglýst að frítt væri í öll bílastæðahús þennan mesta verslunardag ársins.

Þar stóð skýrt og skilmerkilega að húsið yrði opið til miðnættis.   Þegar við ætluðum að sækja bílinn og komum að dyrunum var komið fram yfir miðnætti, meira að segja heilar tvær mínútur.  Og viti menn auðvitað var hurðin að lokast þannig að við komust ekki inn.  Svo var reyndar um fleiri sem þarna voru að sækja bíla sína. 

Þegar átti að ræsa húsvörðinn í Ráðhúsinu svaraði hann ekki hringingu á dyrabjöllu.  Kannski hefur hann talið okkur vera einhverja fyllirafta því hann lét ógert að svara okkur þrátt fyrir að við sæjum hann innan dyra.  Þá var næst að hringja í neyðarnúmer Reykjavíkurborgar, 411 1111, en það var sama hversu mikið var reynt, aldrei fékkst samband nema við símsvarann, hvaðan elskuleg kvemannsrödd sagði: Ýttu á einn ef þú vilt... ýttu á 2 ef þú vilt... o.sv.fr.  Málið var bara að ekkert af þessum fínheitum virkaði.

Nú þar sem ætluðum ekki að gista undir vegg í Ráðhúsinu tókum við leigubíl heim á Álftanesið (sem auðvitað kostaði skildinginn).  Morgunin eftir fletti ég bílastæðasjóði upp á netinu þar sem kom fram að opið væri frá kl. 08:30 - 13:00.  OK, þá væri bara að láta skutla sér og ná í kvikindið.   Ónei, ekki var sopið kálið þótt í ausuna væri komið.  Ráðhúskjallarinn var harðlokaður og alveg eins og um kvöldið; það var ekki hægt að ná í neinn til svara.

Sem sagt urðu lyktir þær að bíllinn var í gíslingu Bílastæðasjóðs öll jólin og þegar ég kom til að ná í hann í morgun (og búið var að opna, vááá) beið mín 3790 króna skuld.  Ég var að sjálfsögðu ekki sáttur en fékk nú öllu þægilegri móttökur því núna gat ég talað við stæðavörðinn í eigin persónu, ekki símsvara.  Eftir að  hafa hlustað á þessar hrakfarir mínar féllst hann með semingi að hleypa mér út með því að búa til 80 króna kort þannig að ég kæmist nú út úr húsinu.  En loforð tók hann af mér að ég yrði að ræða þetta mál við varðstjóra í höfuðstöðvum sjóðsins sem og ég að sjálfsögðu gerði.

Eftir svona trakteringar veltir maður fyrir sér hugtakinu þjónusta, hvað er þjónusta og fyrir hverja er hún?


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband