Föstudagur, 22. desember 2006
Rokrass
Veðrið er í aðalhlutverki þessa síðustu daga fyrir jól. Núna er verið að spá enn einni skruggulægðinni upp að vesturströndinni. Allur er varinn góður og við feðgarnir fórum og fjarlægðum grillið +/- 100 kg af sólpallinum. Það er ekkert grín ef það fer af stað.
Þetta er barasta ekkert jólaveður, hlýindi, rigningar og auð jörð í svartasta skammdeginu. Mér finnst þetta langleiðinlegasti árstíminn, þetta eilífa myrkur. Ég er maður ljóss og birtu og nýt mín í botn bjarta langa sumardaga. Þetta gæti þó verið betra, bara ef það væri nú snjór. Snjórinn lýsir upp og léttir skammdegið til muna en það ágæta hvíta stöff hefur varla sést hér síðustu 10 árin eða svo nema í sýnishornaformi.
Það er af sem áður var (að mig minnir) þegar oftast var snjór og frost á jólum. Minn vetur á að vera frost og snjór, já mikill snjór, frá miðjum október fram í miðjan mars. Þá má vorið koma með dírrindí og alles. Þá kætist minn maður.
Tveir ljósir punktar: Fyrst að dagurinn í dag var 1 sekúndu lengri en gærdagurinn og morgundagurinn verður 4 sekúndum lengri en dagurinn í dag. Seinni punkturinn er að það eru að koma jól. Jól með ljósum, smá andagt, samveru með fjölskyldu, borða á sig gat, taka við gjöfum og gefa gjafir. Skríða upp í rúm með nýju bókina sem ég reif pappírinn utan af rétt áður og lesa mig í svefn....ZZZZZ
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.