Píslarvætti?

Til eru þau samfélög í heiminum þar sem eignarréttur er óljóst eða jafnvel fjarlægt hugtak. Eitt eiga þessi samfélög þó sameiginlegt: Þau eru talin mjög frumstæð í menningarlegu tilliti. Þessi samfélög er m.a. að finna á afskekktum svæðum S-Ameríku, í Mið-Afríku og Súmötru og Borneó.

Nú er því þannig farið í okkar samfélagi að eignarréttur er tiltölulega skýrt greindur og afmarkaður. Afnotaréttur er annað og þá yfirleitt háður samþykki þess er með eignarréttinn fer.Nú getur mönnum greint á hvers sé eignar- og eða afnotaréttur. Til að fá úr slíku skorið höfðum ákveðið að koma slíkum ágreiningi fyrir hjá dómstólum sem skera þar úr.

Það sem er að gerast á Vatnsstíg er að hópur fólks hefur tekið yfir ónotað hús; reyndar í annarra eigu og hefur hafið það sem hópurinn kallar nytjarétt.  Svo er að sjá að þarna fari fyrir harður kjarni ungmenna auk ýmissa nytsamra sakleysingja, sem beiti þessari aðferð til að efna til ágreinings og í framhaldi til slagsmála við lögreglu.  Þau vita sem er að lögreglu verður gert lögum samkvæmt að rýma húsið geri eigandi kröfu þar um.  Þar skiptir engu máli hvaða skoðun lögreglan eða lögreglumennirnir hafi á hústökuhópnum eða efnislegum gerðum þeirra.  Lögreglunnar er að halda uppi lögum og rétti.  

Að leika og geta leikið píslarvott virðist vera markmið hópsins og þar helgar tilgangurinn meðalið.

 


mbl.is Götuvirki hústökufólksins
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Einar Karl

Mér hefur fundist íslenskt samfélag a'la 2006-2007 mjög frumstætt í menningarlegu tilliti (og siðferðislegu og viðskiptalegu!)

Einar Karl, 14.4.2009 kl. 23:36

2 Smámynd: Vésteinn Valgarðsson

Sveinn, þú virðist vita lítið um hópinn sem er þarna á ferð.

Vésteinn Valgarðsson, 15.4.2009 kl. 01:09

3 Smámynd: Viðar Freyr Guðmundsson

Það er augljóst að þarna er verið að leika píslarvætti. Það er óþægileg staðreynd fyrr aktivistana að horfast í augu við. En ef þeir stara í spegil á sjálfan sig og spyrja sig heiðarlega hver sé tilgangurinn með þessu... þá mun orðið píslarvætti bergmála aftast í höfði þeirra.

 Þeir vita jú að ef þeir halda þetta úti nógu lengi, þá endar þetta aðeins á einn veg. Þeim verður stungið í fangelsi, grenjandi og sparkandi eins og smákrakkar. En líklega ekki þó án þess að slasa einhverja saklausa lögreglumenn í leiðinni.

 Svo koma þeir vælandi í viðtal hjá fjölmiðlum og saka lögregluna um harðræði. Sem er ofsalega kúl að eiga á ferilskránni næst þegar farið er í partý með sætum stelpum.

Viðar Freyr Guðmundsson, 15.4.2009 kl. 02:22

4 Smámynd: Svanur Gísli Þorkelsson

Ég hélt þegar ég byrjaði að lesa greinina að hún væri um fiskveiðikvótann. Hún byrjaði þannig.

Svanur Gísli Þorkelsson, 15.4.2009 kl. 02:59

5 identicon

Sæll Sveinn minn.

Er það skrýtið að fólk sé að mótmæla þarna á Vatnsstíg? Ég held ekki. Þessi hús standa þarna auð vegna hvers spyrja margir? Það er auðvitað vegna þess að menn eins og Björgólfur og fleiri hafa keypt þessi hús og svo standa þau bara í niður níðslu það sem eftir er. Þetta er mín skoðun. En hafðu það annars sem best.

Valgeir Matthías Pálsson (IP-tala skráð) 15.4.2009 kl. 09:12

6 identicon

Það er rétt hjá þér að eignarréttur er nokkuð skýr. Þessir aðilar sem eiga þessi hús hafa samt að margra mati gerst sekir um valdníð og fyrrt sig þannig allri meðaumkun, þeir hafa í krafti peninga tekið sér vald skipulagsráðs og ætla upp á sitt einsdæmi að ákveða hvaða húsum megi farga og gera þannig atlögu að menningararfleifð okkar allra. Á sama tíma þurrka þeir skipulega út lífið í miðbænum og gera ásýnd hans hörmulega.

Í rauninni ættu verslunarrekendur við Laugarveginn  ásamt Reykjavíkurborg að vera löngu búnir að saksækja þessi eignarhaldsfélög, en því miður virðast lög um valdníð ekki vera nógu skýr.

Þess vegna er róttækra aðgerða þörf til að stofna til umræðu um málið.

Bjarni Þórisson (IP-tala skráð) 15.4.2009 kl. 10:17

7 Smámynd: Sveinn Ingi Lýðsson

Tek undir orð þín Bjarni en fellst þó ekki á að allt sé þetta húseigendum að kenna. M.a. þekki ég húseiganda í miðbænum sem ekkert hefur gengið að leigja út sínar eignir og verslanir sem hafa reynt að leigja af honum stoppa stutt við enda er allur miðbærinn í niðurníðslu og búinn að vera mjög lengi.

Sú niðurníðsla hófst löngu áður en peningafurstar fóru með ofríki um svæðið. Vandræðin hafa fyrst og síðast skapast af því að aldrei hefur náðst nein samstaða um hver framtíðarásýnd svæðisins er.

Forljótum byggingum hefur verið plantað inn hér og það og skipulagið er í algjöru uppnámi. Öðru megin eru peningafurstarnir sem vilja byggja mikið og ódýrt en hinu megin eru umhverfisfasistar sem engu vilja breyta. M.a. vegna þrýstings frá þeim var 700 millj. króna eytt í gömul ljót hús á Laugavegi 4 - 6. Annað: Engin samstaða er um uppbyggingu á horni Lækjargötu og Austurstrætis. Sumir vilja meira að segja byggja eftirlíkingar húsanna sem stóðu þarna.

Borgin, líka miðborgin, verður að fá að endurnýja sig. Þar eru örfá hús sem byggð hafa verið úr varanlegum efnum sem eru þess virði að varðveita. Hús sem vandað er til verða sjálfkrafa að menningarverðmætum eftir áratugi eða árhundruð. Samt verðum við að hafa vit og þroska til að velja það úr sem vernda á og hvað koma skuli í stað þeirra.

Sveinn Ingi Lýðsson, 15.4.2009 kl. 13:03

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband