Óboðnir gestir ruddust inn í húsið mitt. Lögreglan vill ekki fjarlægja þá.

Óboðnir gestir ruddust inn á heimili mitt og stunda nú eitthvað sem þeir kalla friðsamleg mótmæli. Ég var að vísu búinn að setja mottu við útidyrnar þar sem stóð stórum stöfum „Velkomin“ en reiknaði ekki með að þessar boðflennur eða mótmælendur tækju þessa áletrun jafn alvarlega og raun ber vitni.

Mótmæli þeirra snúa að þeirri venju minni að drekka rauðvín með áramótasteikinni en ekki jólaöl eins og nú þykir boðlegt með þjóðinni. Ýmislegt annað í fari mínu og fjölskyldu minnar fer í taugarnar á þessum mótmælendum s.s. sú ósvinna að ég hyggist nota heimilissímann til að hringja í fjölskyldu og vini í tilefni áramótanna. Vegna þessa hafa þessir mótmælendur kveikt á neyðarblysum til að brenna símasnúrurnar auk þess að berja potta og pönnur og skapa með því sem allra mestan hávaða.Vegna þess hafa nágrannarnir kallað á lögreglu. Auk þessa hávaða hafa mótmælendurnir byrjað að syngja ættjarðarsöngva hástöfum. Löggurnar eru mættar á svæðið og búnar að koma sér þægilega fyrir með rauða spraybrúsa. Þær standa nú í samningaviðræðum við þessa mótmælendur um að þeir yfirgefi húsið mitt. Í það allra minnsta að hafa lægra til að trufla ekki nágrannanna. Ég er ítrekað búinn að krefjast þess að lögreglan komi fólkinu út með öllum tiltækum ráðum. Yfirmaður lögreglunnar hér segist alls ekki vilja beita ofbeldi og einhver tíma muni fólkið fara, alla vega þegar þeir eru búnir með kalkúninn og anansfrómasins. Mér líst ekkert á þetta, klósettið er alveg upptekið, laukþefurinn í húsinu er óbærilegur en svo virðist sem allir vasar fólksins séu fullir af lauk og G-mjólk.

Ég er alls ekki tilbúinn til að hætta við að drekka rauðvínið mitt eins og mótmælendurnir krefjast, búinn að umhella dýrindis Bordaux víni, árgangur 2004 yfir á karöflu. Ég er meira að segja búinn að bjóða þeim með mér en þá syngja þeir bara einhvern fingrasöng. Ég reyndi líka og stoppa einn sem ætlaði að pissa á stofuteppið en var þá hrint á sjónvarpsskápinn. Skápurinn og sjónvarpið reyndar brotnuðu en það var að sjálfsögðu mér að kenna. Það var jú ég sem datt á það. Hrindingin var að sjálfsögðu friðsamleg eins og forsprakki mótmælandana segir í sífellu milli þess sem hann skyrpir kalkúnabeinum undan svarta klútnum sem hann hefur sett fyrir andlitið. Flestir eru líka þannig og engin leið að þekkja fólkið. Og ég sem hélt að þetta væri bannað!

Lögregluforinginn bað mig um að halda rónni, það mætti alltaf skipta um teppi og kaupa nýtt sjónvarp. Svona er nú staðan, fjölskyldan sem ég var búinn að bjóða í mat fær ekki að koma inn. Ég er orðinn ráðalaus og lögreglan gerir ekkert nema það sé friðsamlegt. Ég spurði hvort þeir gætu ekki notað gas en fékk þau svör að notkun á því félli í slæman jarðveg svo ákveðið hefði verið að nota það ekki nema í samráði við mótmælendurnar.

Nú bið ég ykkur um ráð. Hvað í ósköpunum á ég að gera? Sérstaklega bið ég sérfræðinga í mótmæla- og lögregluaðgerðum að leggja mér lið. Þar mætti t.d. nefna Jennýu Önnu, Helga Jóhann Hauksson, Þór Jóhannsson, Evu Hauksdóttur og Birgittu Jónsdóttur.

Auðvitað er þetta allt saman tilbúningur, svona lítil dæmisaga. Ég hef mætt á fjölda mótmælafunda og tekið þar fullan þátt þar sem ég er ósáttur við stjórnvöld, bæði það sem gert var og ekki síður það sem látið var ógert. Hins vegar er það skoðun mín að með þáttöku í mótmælaaðgerðum tekur maður því sem verða vill. Lögreglan hefur mjög skýru hlutverki að gegna. Fyrirmælum hennar ber að hlýða. Geri maður það ekki er engan veginn hægt að kvarta undan þeim valdbeitingaraðferðum sem henni er heimilar.

Þeir sem ekki eru tilbúnir til þess skulu þess vegna sitja heima.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Sæll og gleðilegt ár ! Þetta var ágætur pistill hjá þér og allveg rétt að okkur ber að fylgja fyrirmælum frá lögreglunni sem að ég vill ekki kalla valdstjórn heldur það sem að þeir eru það er að segja þjónar fólksins og með okkur flestum í lið það gleymist mjög oft. Mig langar til að bæta við þar sem að vinur minn hér á Reyðarfirði lenti í því að menn brutu niður hjá honum hurð og ruddust inn til að fá að vera með í gleðskap sem að hann var með en þeim var ekki boðið og vísaði hann þeim á dyr með þeim afleiðingum að þeir brutu útidyrahurðinna hjá honum og þegar að lögregla var kölluð til í annað eða þriðja skipti þá fékk hann það svar frá lögreglumanni um hurðina sína hvort að hann liti út fyrir að vera smiður ? Ef að mig misminnir ekki þá er fátt alvarlegra en að ryðjast inn á heimili fólks en sumir kannski ekki með það á hreinu og þegar að fólk tekur til við að skemma og eyðileggja hjá fólki þá hverfur mín samkennd lifið heil

Jens Hjelm (IP-tala skráð) 1.1.2009 kl. 20:52

2 Smámynd: Sveinn Ingi Lýðsson

Takk fyrir commentin Arnar og Jens. Gleðilegt ár báðir saman.

Fyrst Arnar: Rio Tinto Alcan veit ég ekki hvað kemur málinu við.

Hver var ekki rændur í hruninu. Ég hef örugglega ekki minni áhuga á að ná sökudólgum en þú. Fjármála- bankakerfið er hrunið og það eru margir sem bera ábyrgð þar. Stjórnmálamenn, fjárglæframenn (fjárglæpamenn), bankamenn, seðlabankastjórar, fjármálaeftirlit og örugglega margir fleiri. Rannsókn svona mála verður óhjákvæmilega að koma frá stjórnvöldum. Svo einfalt er það. Ef þú kannt einhverjar Barbabrellur komdu þá með þær.

Umfjöllunarefni mitt var einfaldlega það að hlutverk lögreglu er að halda uppi lögum og reglu. Þarna óðu menn og konur inn í Hótel Borg með hreinu og kláru ofbeldi, neituðu að fara með góðu og fengu margar viðvarandir um að svæðið yrði rutt með gasi. Það er nánast absúrd að heyra og sjá fólk hneyksast á viðbrögðum lögreglu.

Jens: Það er hárrétt að lögreglan eru í þjónustu okkar borgarana, vernda hagsmuni, eigur og tryggja öryggi. M.a. er klárlega hlutverk lögreglu að fjarlægja og koma lögum yfir þá sem brjótast eða ryðjast óboðinn inn í hús. Hvað þá að fremja skemmdarverk og líkamsskaða.

Því miður er ég hræddur um að ástandi eigi eftir að versna með meiri skemmdarverkum og meiðingum, jafnvel dauða. Það virðast allaf einhverjir óheilbrigðir einstaklingar eiga greiðan frama í svona ástandi. Þeir eru hættulegir, þér, mér og okkur öllum hinum.

PS. Takk Arnar fyrir að koma fram undir nafni. Allra síst þurfum við á andlitslausum nafnleysingum að halda núna.

Sveinn Ingi Lýðsson, 1.1.2009 kl. 21:44

3 identicon

"Umfjöllunarefni mitt var einfaldlega það að Umfjöllunarefni mitt var einfaldlega það að hlutverk lögreglu er að halda uppi lögum og reglu.."

Ég gæti þá spurt.... er löglegt að setja heila fyrirtæki á hausinn erlendis og síðan borgar íslenskur almúginn brúsann ? Ef ekki.... afhverju er þá enginn handtekinn ? Þar sem lögreglan (samkvæmt þér) ætti að hafa það hlutverk lögreglu er að halda uppi lögum og reglu.

Er lögreglan ekki orðin vanhæf til að halda uppi fána laga og reglugerða ef reglugerðirnar og lögin eru tilgangslaus ?

Lýðræði Ekkert Kjaftæði !!!!

Árni Þór Guðmundsson (IP-tala skráð) 2.1.2009 kl. 01:37

4 Smámynd: Sveinn Ingi Lýðsson

Arnar, þeir eru margir sem spúa eitrinu þessa dagana og það ekki bara stjórnmálamenn.  Ekki var mér kunnugt um kostun Rio Tinto á Kryddsíldinni og læt mér það í léttu rúmi liggja.

Ég mun aldrei gera lítið úr tilfinningum þeirra sem mótmæla.  Það er akkúrat sem ég hef gert sjálfur með virkri þáttöku, skrifum í blöð og blogg.  Þetta geri ég undir nafni og án þess að fela mig á bak við svarta andlitsgrímu.  Aumt er hlutskipti þeirra sem slíkt gera.  Aldrei hef ég orðið fyrir aðkasti þrátt fyrir að halda fram skoðunum mínum af fullri einurð.

Að er ekki ósk mín að lögreglan beiti meiri hörku gegn mótmælendum.  Það sem ég sætti mig ekki við að lögreglan sé sett í þá aðstöðu að hún geti ekki verndað mína hagsmuni, þína hagsmuni og hagsmuni okkar sem þjóðar.  Til þess höfum við afhent henni verkfæri eins og valdbeitinguheimild.

Hins vegar óttast ég mest sinnuleysi ráðamanna sem virðist fyrirmunað að skilja reiði almennings.  Slíkt sinnuleysi er eins og olía á elda þá sem svartklútaliðið kveikir.

Sveinn Ingi Lýðsson, 2.1.2009 kl. 08:51

5 Smámynd: Björn Finnbogason

Rio tinto alcan hvað?  Liggur þarna kannski hundurinn grafinn?  Góður pistill hjá þér og Lögreglan má alveg setja skýrar línur um hvar mörkin liggja og verður að gera það.  Hvað eða hvort aðrir sæti sömu meðferð fyrir lögbrot er hreint allt annað mál.  Ég held að ég hafi tapað öllu, veit það þó ekki frekar en margir aðrir.  Það breytir hinsvegar ekki því að ég vil hreinsa út, þar sem hægt er, og beinast liggur við, til að einhver trú skapist á það sem verið er að gera.  Út með alla framkvæmdastjóra gömlu bankanna, út með alla næstráðendur, út með stjórn Fjármálaeftirlitsins, út með stjórn Seðlabankans, og kosningar í vor. 

Björn Finnbogason, 2.1.2009 kl. 11:41

6 Smámynd: Guðbjörn Guðbjörnsson

Frábær pistill hjá þér!

Guðbjörn Guðbjörnsson, 2.1.2009 kl. 12:26

7 Smámynd: Sigurður M Grétarsson

Arnar kreppukarl. Þessi lagagrein, sem þú vísar til fjalla um það þegar einstaklingur er borin út af heimili sínu að kröfu eiganda húsnæðis. Oftast stafar það af vangreiddri leigu. Það er allt annar hlutur en þegar óskað er eftir að fólk, sem hefur ruðst inn á annarra manna heimili sé fjarægt. Sýslumaður þarf hvergi að koma þar nærri og það þarf heldur ekki að fara með slíkt mál fyrir dómstóla. Þar dugir einföld ósk frá heimilisfólki um að viðkomandi einstaklingur eða einstaklingar séu fjarlægðir fari hann eða þeir ekki út með góðu.

Sigurður M Grétarsson, 2.1.2009 kl. 14:57

8 Smámynd: Salvör  Kristjana Gissurardóttir

Strax og lögreglan gaf út skilaboð um að þetta væru ólögleg mótmæli og að hún ætlaði að beita táragasi þá fór ég burt eins fljótt og ég komst. það á alltaf að hlýða fyrirmælum lögreglu. En mér finnst ómögulegt að lögreglan hafi svo slappa hátalara að það heyrist lítið í þeim nema eitthvað dósahljóð, það var mjög erfitt að heyra það sem kom úr hátölurum.  Ég vissi nú reyndar ekki að mótmælin (þ.e. að standa fyrir framan húsið) væri ólöglegt og ég vissi heldur ekki að það væri ólöglegt að beita táragasi (einn mótmælandinn hrópaði það).

Eftir því sem ég best veit var táragasi ekki beitt heldur piparúða. Hins vegar hótaði lögreglan táragasi. Skrýtið.  

Salvör Kristjana Gissurardóttir, 2.1.2009 kl. 15:21

9 Smámynd: Sigurður M Grétarsson

Nei Salvör. Það var ekki ólöglegt að standa fyrir utan húsið utan læstu girðingarinnar, sem fólkið fór yfir. Það er hins vegar ólðöglegt að fara inn á læst svæði í einkaeign svo ekki sé talað um að ryðjast óboðinn inn í hús, sem hýsir atvinnustarfsemi, veitast að starfsmönnum í því húsi með ofbeldi og skemma þar innanstokksmuni. Það var einnig ólöglegt að skemma eignir Stöðvar 2.

Kreppukarl. Ef þú veist um hvað þessi lagagrein snýst af hverju ert þú þá að koma fram með hana þegar verið er að ræða mál, sem snýst um eitthvað allt annað?

Sigurður M Grétarsson, 3.1.2009 kl. 01:00

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband