Ný gildi - Ný viðmið - Nýja Ísland

Undanfarnar vikur hafa verið þær viðburðaríkustu í lífi íslensku þjóðarinnar síðan lýðveldið var stofnað 1944.  Þrátt fyrir duglega og kraftmikla þjóð kom í ljós að  mörg af gildum okkar voru á sandi byggð og margar meinsemdir hrjáð þjóðarlíkamann. Mein sem við höfum oftar en ekki afgreitt með fullkominni afneitun. Hverju er um að kenna verður manni spurnarefni. Var það minnimáttarkennd - þjóðernisremba, þið vitið -How do you like Iceland- syndromið eða var það eitthvað annað.  Ekki get ég dæmt um það. Hitt er ljóst að hægt og bítandi hafa þessi mein vaxið og dafnað og étið okkur innanfrá. Tvö dæmi:

Verðtrygging var sett á í kjölfar óðaverðbólgu áttunda áratugarins, ekki sem lausn á vanda heldur sem plástur á mein. Ekki var gerð minnsta tilraun til að lækna það heldur var lagður sérstakur skattur á þjóðina. Skatturinn er verðtryggingin. Með þessum skatti greiddum við niður kostnað við að halda úti sérstökum gjaldmiðli. Gjaldmiðli sem var eins og eitthvað þjóðartákn, líkt og  heilög belja sem ekki mátti snerta og hafði sama status og þjóðfáninn og þjóðsöngurinn. Þetta höfum við burðast með öll þessi ár. Þegar einhver hefur verið svo djarfur að kvarta, þá hefur viðkomandi verið úthrópaður sem landráðamaður. Æðsti prestur þessa trúarhóps hinnar heilögu krónu hefur setið í Seðlabankanum er nú orðinn tákngerfingur um spillingu valdhafanna.

Hitt dæmið er kvótakerfið í sjávarútvegi. Fram til þessara daga má telja þetta einokunarkerfi spillingar og sérhagsmuna eitthvert mesta fjárhagslega umhverfisslys síðan danska einokunarverslunin var aflögð. Fyrir fólkið úti í sjávarþorpunum er "kreppan" eitthvað sem það þekkir af eigin raun. Fólk sem hefur mátt þola fjárhagslegt skipbrot og niðurlægingu þegar sægreifinn seldi lífsafkomu þeirra til hæstbjóðanda. Eftir sat hnípið samfélag í átthagafjötrum, atvinna lítil eða stopul, húsin urðu verðlaus og annað eftir því. Nú er tími til að taka til hendinni í þessari meinsemd. Á þessu sviði sem öðrum þurfum við að moka út úr flórnum. Viðurkenna eign þjóðarinnar á auðlindinni og haga meðferð okkar á henni samkvæmt því.

Nú verðum við að endurmeta gildi okkar, framtíðarsýn og markmið.  Viðmiðin hafa breyst og því eigum við kannski ekki bara að tala um Nýja Glitni, Nýja Landsbanka og nýja þetta og nýja hitt. Tækifærið er núna, tökum saman höndum og sköpum hið NÝJA - ÍSLAND.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Helga Kristjánsdóttir

Kvótakerfið afhverju liðum við þetta? Erum við að vakna?

Helga Kristjánsdóttir, 17.11.2008 kl. 04:15

2 Smámynd: Johnny Bravo

Tenging þín á verðtryggingu óðaverðbólgu og krónu er áhugaverð en ég held að hún geti vel verið fín ef ríkisfjármálinn eru í lagi. 

Verðtryggingin og fastir vextir eru fyrir efnahagsstjórn ef eitthvað er. Í öðrum löndum er það nefnilega svo að ef að seðlabanki hækkar stýrivexti þá verður erfiðara að borga af skuldarbréfum, 4167kr. á mánuði fyrir hverjar 20mil. fyrir hverja 0,25% hækkun, þess vegna er lánakerfi okkar meingallað en það sannar ekki að krónan sé ónothæf.

Þú kallar þetta skatt á landsmenn og það eru lífeyrissjóðirnir sem græða mest á verðtryggingu, þeir eru nú hvort eð er með skatt á öllum launaseðlum í þessu landi og maður getur ekki fært það sem þeir hafa af manni tekið, nema það séu lágar upphæðir og það er þá gert við starfslok.

Reyndar er aðeins 33% að fasteignaverði veðsett á Íslandi. Ég held bara að bílaflotin sé betur veðsettur þó að þar fáist ekki jafn hagstæð lán, reyndar er bílalán með 15% besta lánið í dag.

Það hefði átt að leigja út kvótann, núverandi auðlindagjald mætti líka bara hækka, eða bæjarfélög eða ríkið myndi kaupa kvótann miðlægt og leigja út í gegnum bæjarfélög.

Ég sé að þú ert ökukennari, ekki hlusta á Bylgjuna maður verður ruglaður af því hehe

Johnny Bravo, 17.11.2008 kl. 07:54

3 Smámynd: Karl Ólafsson

Johnny, ef verðtryggingin væri fín þá efast ég ekki um að erlendar þjóðir hefðu farið að fordæmi Íslendinga og sett hana á hjá sér. Það hefur engin önnur þjóð nálægt okkur séð þessa kosti, enda er þetta ekkert fín lausn á öðru en því að prenta sjálfvirkt peninga jafnóðum og verðbólgan étur þá upp. Þannig höfum við fjármagnað lífeyrissjóði okkar og ILS með bólu, sem eins og aðrar bólur springa ef of mikið er blásið í. Nú er bólan við það að springa, nema hún sé sprungin þegar en við höfum bara ekki heyrt hvellinn ennþá.

Áróður gegn verðtryggingu er að finna hér: http://karlol.blog.is

Karl Ólafsson, 18.11.2008 kl. 15:07

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband