Nokkar staðreyndir um aksturs- og hvíldartíma atvinnubílstjóra

Eitt af því sem hluti vörubílstjóra hefur verið að kvarta undan og vilja fá breytt í mótmælum síðustu daga eru svokölluð vökulög, þ.e. reglur um aksturs- hvíldartíma ökumanna.  Ennfremur hefur samgönguráðherra ítrekað gefið í skyn að hann telji þessar reglur hinn mesta óþarfa og rétt sé að fá undanþágu frá þeim.

Því tel ég mér skylt að koma á framfæri nokkrum staðreyndum um þær reglur sem gilda um aksturs- og hvíldartíma ökumanna:

1.  Bílstjóri má aka í allt að 9 klst á hverjum degi (þar er bara átt við þann tíma þegar bifreiðin er á ferð, annar tími dregst frá)  Þetta getur þýtt í raun 12 - 14 tíma vinnudag.  Þar að auki má hann tvisvar í viku lengja virkan aksturstíma upp í 10 tíma.

2. Eftir akstur í 4,5 klst þarf bílstjórinn að taka sér a.m.k 45 mínúta hvíld.  Hann má skipta þessari hvíld upp að vild sinni á tímabilinu, eina skilyrði er að hver hvíld sé a.m.k. 15 mínútur hver.  Þarna snýst málið fyrst og fremst um skipulagshugsun bílstjórans.  Að halda því fram að aka EIGI í 4,5 tíma og VERÐI bílstjórinn að taka sér hvíld óháð stað eða stund er bara einfaldlega rangt.

3.  Bílstjórinn þarf að ná 11 klst. hvíld á hverjum sólarhring.  Hann má stytta hvíldina niður í 9 klst. tvisvar í viku og einnig má hann breyta hvíldartímanum þannig að lengsti samfelli tími sé 8 klst og í allt 12 klst þann daginn. 

4.  Bílstjórinn þarf að fá einn hvíldardag í viku hið minnsta, þ.e. eftir hverja sex daga aksturslotu.

Af þessu má sjá að þetta er enginn smá vinnutími sem þeim er ætlaður hvern dag.  Nákvæmlega ekkert öðruvísi er hjá öðrum launþegum.  Eini munurinn er sá að það er refsivert og hættulegt athæfi bílstjóra að virða ekki lögboðinn hvíldartíma.

Vörubílstjórar krefjast hvíldarstaða og vísa til ESB regla um það.  Það hefur hins vegar enginn þeirra getað vísað til þessara regla.  Fyrir því er ofur einföld ástæða.  Þessar reglur eru ekki til. 

Og talandi um hvíldarstaði.  Vissulega mættu vera fleiri sjoppur og bensínstöðvar vera við íslenska þjóðvegi.  Það er akkúrat það sem okkur vantar.  Þær eru hins vegar ekki opnar á nóttunni þegar flutningabílstjórum hentar að flytja vörur.  Sjoppueigendunum hentar ekki að vera með opið nema á daginn - ekki á nóttunni.  

Á þá að þjóðnýta sjoppurnar og láta ríkið reka þær allan sólarhringinn fyrir flutningabílstjóra?

Þessar reglur sem hér hafa verið taldar upp gilda á öllu EES svæðinu og svipaðar reglur gilda víðast hvar í löndum sem vilja kalla sig þróuð.  Markmið þeirra er í fyrsta lagi aukið umferðaröryggi, í öðru lagi vinnuvernd þ.e. að atvinnurekendur geti ekki þrælað starfsmönnum sínum út og í þriðja lagi er þetta hluti af þvi samkeppnisumhverfi sem við lifum við í dag, líka atvinnubílstjórar.

Að halda því fram að þessar reglur henti ekki hér að landi flokkast ekki undir annað en rökleysu.  Í því sambandi má spyrja: Er kílómetrinn styttri hér en annars staðar?  Er hver klukkustund lengri hér en annars staðar?  Hafa íslenskir bílstjórar meira þrek og þol til vinnu en erlendir kollegar þeirra.  Og til að bæta gráu ofan á svart hefur Kristján Möller samgönguráðherra gefið atvinnurekendum undir fótinn að það sé nú hægt að fá bara undanþágu frá Brussel frá þessum vondu reglum.  Í því sambandi er rétt að minna á að þessi sami ráðherra er líka ráðherra umferðaröryggismála.

Er hann tilbúinn að veita flutningafyrirtækjum afslátt af umferðaröryggi okkar hinna?


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Runólfur Jónatan Hauksson

umhugsunarvert....

Svo má ég rúlla hringveg no 1 á 14 tímum án athugasemda.

En ég er bara ekki að átta mig á því hví við erum að binda okkur við þessar ESB reglur á meðan við erum ekki í ESB...... 

Runólfur Jónatan Hauksson, 3.4.2008 kl. 22:25

2 Smámynd: Sveinn Ingi Lýðsson

Vegna þeirra ástæðna sem ég nefndi hér að ofan:  Umferðaröryggi, vinnuvernd og samkeppnisástæður.  Það eru ekki bara bílstjórar sem þurfa að hlýta öryggisreglum um vinnutíma.  Má þar nefna flugmenn, skipstjórnarmenn og einnig að þessar reglur ganga ekki framar almennum reglum um vinnuvernd launafólks.

Það er fyrst og fremst þrýstingur frá atvinnurekendum, allt frá einyrkjum til stóru flutningafyrirtækjanna um að afnema hvíldartímareglurnar.

Það myndi seint teljast til fyrirmyndar að aka hringveginn í lotu á 14 tímum.  Þar sem reglurnar enda hlýtur heilbrigð skynsemi að taka við. 

Sveinn Ingi Lýðsson, 3.4.2008 kl. 22:41

3 identicon

Orð i tima töluð.

Jon H. Eiriksson (IP-tala skráð) 3.4.2008 kl. 22:53

4 Smámynd: Morten Lange

Vonandi lýfta Moggin þessa færslu upp og vitna líka í henni  í prentaðri útgáfu.

Morten Lange, 3.4.2008 kl. 23:09

5 Smámynd: Indriði Ingi Stefánsson

Þetta er mjög umhugsunarvert, sem og sú staðreynd að virðisaukaskatturinn sem vörubílstjórar eru að mótmæla fæst enfurgreiddur gangvart innheimtum virðisaukaskatti.

Indriði Ingi Stefánsson, 3.4.2008 kl. 23:28

6 Smámynd: Sigurður Viktor Úlfarsson

Kærar þakkir fyrir þessa færslu - rödd skynseminnar.  Orð í tíma töluð.

Ég hef þekkt töluvert af trukkabílstjórum í gegnum tíðina og blöskraði á sínum tíma hvað þessir menn voru að keyra.  Einyrkjar sem keyrðu með frosinn fisk kannski tvær eða þrjár ferðir milli Keflavíkurflugvallar og uppskipunarhafnar norður í landi á sólarhring.  Það er í raun kraftaverk hvað hafa orðið fá slys hjá þessum mönnum.  Það er ekkert óeðlilegt við þessar reglur.

Það að bílstjóri sem hefur störf kl átta um morguninn taki sér kortershlé um tíuleytið og síðan hálftíma hádegismat milli hálf eitt og eitt.  Þá korters kaffi um þrjúleytið og loks kvöldmat milli hálfsex og sex.  Það er auðvitað bara verið að taka vinnuumhverfi þessara manna inn í 21. öldina sem og tryggja eðlilegt umferðaröryggi.  Í öllum kjarasamningum eru tilvísanir í Evrópureglur um hvíldartíma sem kveða á um 11 tíma hvíld á sólarhring.

Við erum í EES og tökum því upp reglur ESB sem flestar eru ágætar, þótt við höfum þurft að láta af mörgum slæmum vananum vegna þeirra.  Það eru fyrst og fremst þær sem hafa breytt okkur úr því haftaþjóðfélagi sém hér var í opið þjóðfélag dagsins í dag.

Ef samtök trukkabílstjóra vilja opna kaffistofur fyrir sína félagsmenn þá gera þeir það bara.  Það kemur ríkinu ekkert við auk þess sem öll plön um allt land eru tóm að nóttu til og því nóg pláss fyrir trukkana að leggja.

Sigurður Viktor Úlfarsson, 3.4.2008 kl. 23:33

7 Smámynd: Sigurður Viktor Úlfarsson

Indriði...og bensínskatturinn þeirra er greiddur af viðskiptavinum þeirra en ekki þeim sjálfum.

Sigurður Viktor Úlfarsson, 3.4.2008 kl. 23:35

8 Smámynd: Landfari

Það þýðir að þeir geta hvorki keyrt til Akureyrar né Ísafjarða án þess að stoppa í 45 mín. á leiðinni. Persónulega fyndist mér það óþarfi, sérstaklega fyrir vana menn. Kanski er þetta kjarabarátta að fá matartíman borgaðann í staðin fyrir að stoppa.

En það er gífurleg ábyrgð að stjórna svona bílum og eins gott að menn séu vel vakandi við aksturinn.

Ég sé samt alveg hætturnar í þessu líka. Menn reyna að ná til Akureyrar innan tímamarka og keyra þess vegna á upp undir 100 í staði fyrir 80. Stoppa ekki til að teygaja úr sér eða blunda í korter því þá eru þeir fallnir á tíma og verða að bíða í hálftíma í viðbót.

Sé nú alveg fyrir mér hvað ég yrði fúll að þurfa að bíða í 45 mín upp á Kjalarnesi á heimleið, horfandi á klukkuna tikka í rólegheitum, verandi rétt búinn með hálfan vinnudag. Og hvers vegna. Jú annars er hætta á að ég verði of þreyttur. Það verður að viðurkennast að þetta er ekki vinnulag sem einkennir Íslendinga.

Það er vandrataður meðalvegurinn í þessu sem öðru.

Landfari, 4.4.2008 kl. 01:49

9 identicon

Landfari: „Að halda því fram að aka EIGI í 4,5 tíma og VERÐI bílstjórinn að taka sér hvíld óháð stað eða stund er bara einfaldlega rangt.“ segir í færslunni. Þú hefðir getað stoppað í 15 mínútur hvar sem er áður en þú komst á Kjalarnesið. Ef þú telur þig þurfa að stoppa í 45 mínútur á Kjalarnesinu á leið til Reykjavíkur þýðir það að þú hefur þá keyrt í 4,5 tíma sleitulaust og getur engum um kennt nema sjálfum þér vega lélegs ferðaskipulags. Og ef þú ert að pína þig til að ná næsta túr í beinu framhaldi þá er þetta greinilega almennur losaraskapur í vinnuskipulagi.

Er flaut og tafaofbeldi bílstjóranna kannski í raun ákall um að fá ríkisstyrkt tímastjórnunarnámskeið?

Pétur (IP-tala skráð) 4.4.2008 kl. 08:59

10 Smámynd: Sveinn Ingi Lýðsson

Takk fyrir áhugaverðar athugasemdir.  Það er samt eitt sem ég myndi vilja bæta við athugasemd Landfara.  Þar eimir í landlægan misskilning að bílstjórinn ÞURFI að aka í 4,5 tíma og stoppa svo í 45 mínútur.  Þannig er það ekki eins og ég bendi á í lið 2 hér að ofan.   Bílstjóranum er í sjálfsvald sett hvenær hann tekur þessa hvíld og hvar og þar að auki má hann skipta henni niður á þessu 4,5 klst. tímabili, eina skilyrðið er að hvert hlé frá akstrinum sé a.m.k. 15 mín. 

Annað Landfari: Það myndar ekki tímapressu á bílstjóra að komast á milli staða því það er einungis virkur aksturstími sem telur, þ.e. bara sá tími sem bíllinn er á ferð.

Mín upplifun er sú að þeir sem gagnrýna þessar reglur hvað hæst eru þeir sem minnst þekkja þær.  Því er það verulegt áhyggjuefni að heyra ráðherra umferðaröryggismála ekki þekkja betur til þessa umhverfis en raun ber vitni.  Ekki nema þá að orðræða hans sé innihaldslaust snakk öðru nafni populismi. 

Sveinn Ingi Lýðsson, 4.4.2008 kl. 09:01

11 identicon

Hárétt og þarf athugasemd hjá þér, Sveini.

Douglas (IP-tala skráð) 4.4.2008 kl. 09:03

12 Smámynd: Sigurður Viktor Úlfarsson

Þetta er auðvitað popúlismi hjá ráðherra.

Það að stoppa í 15 mínútur á eins og hálfs tíma fresti er ekki óeðlileg krafa til þeirra sem keyra stóra bíla eftir íslenskum vegum.

Sigurður Viktor Úlfarsson, 4.4.2008 kl. 12:21

13 Smámynd: Högni Jóhann Sigurjónsson

Ég hef keyrt eftir þessum reglum, hélt fyrst að það væri ekki hægt, en það er ekkert mál, það sem þarf er "gráa svæðið" eða "gula ljósið" þe ef ég er td. á Holtavörðuheiðinni nú eða Hrútafjarðarhálsi og að falla á tíma, jú ég gat stoppað í Hreðavatnsskála og eða Víðihlíð enn það gat líka eitthvað komið uppá, séstaklega að vetri, þannig finnst mér vanta "gráa svæðið" á klukkunni.

Varðandi þungaskattinn þá þarf sem allra fyrst að fara að nota tölvukubbana sem þegar eru í einhverjum bílum, en allavega þá var gjaldið of hátt sem látið var í olíuna á sínum tíma og það þarf að endurskoða þó svo að það sé föst krónu tala og þannig lækkað að verðgildi.

Lausnir eru að mínu mati auðvitað, gráa svæðið og svo þarf með einhverjum hætti að opna bílstjórum aðgang að klósetti, kaffikönnu og sturtu á nóttinni og er ekki mikið mál að leysa, nú með olíuna það þarf að endurskoða þungaskatts/olíugjaldið.

Svo þurfa vörubílstjórar og verktakar auðvitað að fara að bjóða í verk með það í huganum að ætla að lifa af en ekki með það í huga að aðrir fái verkið ekki.

Högni Jóhann Sigurjónsson, 4.4.2008 kl. 12:59

14 identicon

Mér er spurn? AF hverju þurfa þessir bílstjórar að fara í sturtu á nóttunni?! Til þess að þeir sofni ekki eftir stanslausan akstur?! .. Ég hef vanið mig á að fara í sturtu í lok vinnudags eða áður en ég mæti til vinnu!

kv. Skvísan

Skvísan (IP-tala skráð) 4.4.2008 kl. 13:08

15 Smámynd: Högni Jóhann Sigurjónsson

Þeir eru kannski allann daginn að lesta bílinn með mismunandi efnum og hlutum ofl ofl. þeir geta lennt í kjeðjuslag eða dekkjaskiptum og þeir eru í sumum tilfellum að klifra annaðslagið upp á farminn og tryggja festingar betur og svona það er ýmislegt, sturta er ekki forsenda þess að geta farið á milli staða en skemmir ekki og ekki stórt mál að leysa.

Högni Jóhann Sigurjónsson, 4.4.2008 kl. 14:38

16 identicon

Ég var bílstjóri í fjölda ára bæði hér heima og í Danaveldi.  Vökulögin eru tvímællalaust mesta framför fyrir bílstjóra sem komið hefur.  Vinnuveitendur í danmörku voru allri á móti en bílstjórafélagið barði þetta í gegn.  Íslenskir bílstjórar eru svo vitlaustir að þeir hafa aldreið notað þetta í sinni baráttu fyrri betri launum.

Gunnar Sigurðsson (IP-tala skráð) 4.4.2008 kl. 16:02

17 identicon

Takk fyrir greinargóðar upplýsingar.  Það er eftirtektarvert að nánast engir reyna að andmæla, hvorki bílstjórarnir né hinar bullurnar sem hafa ausið yfir bloggheima úr viskubrunni sínu.

Svona á að taka þetta, draga staðreyndirnar fram.  Í ljósi nýjustu frétta af samgöngurráðherranum og þeirri dæmalausu hugdettu að hætta að sekta vegna þessara brota.  Þýðir væntanlega að eftirleiðis fer ekki  nokkur maður eftir þessu.

Það litla álit á manninum sem ég hafði fauk í dag út í veður og vind.

Sleggjan (IP-tala skráð) 4.4.2008 kl. 18:16

18 identicon

Ágætis grein hjá þér Sveinn.

Ég hef starfað sem flutningabílstjóri í mörg ár og þekki þennan bransa ágætlega.

Vegagerðin má ekki vera of stíf á sínu og þarf að vera mannleg. Þeir eiga ekki að eltast við 5 mínútur til og frá ef menn eru að reyna fylgja reglunum eftir bestu getu en ferðaplön vilja oft spillast í slæmu árferði. Jafnframt eiga þeir að hafa stærri hvíldarplön við þjóðvegina, en hvíldarplönin sem þeir kalla eru oft bara rétt fyrir einn flutningabíl og eru merkt sem keðjuplön, en ekki sem hvíldarplön.

Þegar hvíldartímareglurnar voru innleiddar 1995 var sami söngur uppi og er núna í dag, menn vildu komast undan þeim vegna smæðar landsins. Menn komust upp með það að aka í fleiri sólarhringa hvíldarlausir, stórhættulegir í umferðinni.

Þegar bílstjórar segjast ekki geta tekið á sig hækkað olíuverð, það er fyrst og fremst þar sem þessir sömu aðilar eru að vinna á alltof lágum gjöldum og hafa undirboðið hvorn annan í mörg ár. Svo eru margir af þessum mönnum sem standa fremstir í víglínunni í mótmælum nýir í greininni en þeir kaupa sér dýrastu dráttarbílana með stærstu húsunum og stærstu vélarnar og til að kóróna það panta þeir sér nýja malarvagna aftaní bílana. Þá er ekki nema von núna þegar krónan fellur að þeir kvarti þegar 100 % lánin þeirra fyrir bílunum hækka og í kjölfarið olíuverð, þeir eru farnir að borga með sér.

Ákvörðun samgönguráðherra, Kristjáns Möller frá því í dag er ein alvitlausasta ákvörðun sem sést hefur í fjölmiðlum í mörg ár. Að hann geti sagt mönnum að þeir fái engar sektir næstu vikur á meðan það er verið að endurskoða reglur frá ESB, að íslendingar fái undanþágu frá þessum reglum svo íslenskir bílstjórar þurfi ekki að fylgja reglum um akstur og hvíldartíma.

Hvað segja dómstólar, dómsmálaráðherra, lögreglan og vegaeftirlitið um þessi orð ráðherra umferðaröryggismála???

Hann er að gefa afslátt af umferðaröryggi.

Trukkari (IP-tala skráð) 4.4.2008 kl. 18:30

19 identicon

IP-Sleggja fer með sleggjudóma. Ég get ekki ímyndað mér að ráðherra hafi svo mikið sem ýjað að því að hann geti frestað eða stoppað sektargreiðslur. Hvernig dettur svona bull á lyklaborð? Annað skrifað af skynsemi hér og aðallega af húsráðanda. kv gb

Gísli Baldvinsson (IP-tala skráð) 4.4.2008 kl. 20:27

20 Smámynd: Sigurður Rósant

Aðeins er ég kunnugur þessum reglum, en hef þó ekki fylgst nægilega með síðustu 3 árin eða svo.

Sveinn, þú nefnir að hámarksaksturstími á dag megi fara upp í 9 klst en vinnutími bílstjóra geti farið upp í 12 - 14 tíma á dag.

Getur verið að vinnuveitandi skipuleggi ferð bílstjórans á þann veg að hann sé að vinna við fermingu og affermingu á sama tíma og hann ætlar sér að hvílast? Þá á ég við að vinnuveitandi ætli bílstjóranum ákveðinn tíma í að aka leið dagsins, en verði tafir vegna umferðar, veðurs eða bilunar ökutækis, þá missir bílstjórinn af sínum hvíldartíma?

Er það rétt sem ég hef heyrt, að undanþágureglan um 50km radíus til handa bílstjórum áætlunarferða í og við þéttbýli sé fallin úr gildi og regla um 50km leið fram og til baka sé komin í staðinn, frá og með 1. jan 2008?

Sigurður Rósant, 4.4.2008 kl. 21:03

21 Smámynd: Sveinn Ingi Lýðsson

Það er rétt til getið að í of mörgum tilfellum er bílstjóranum ætluð önnur vinna, s.s. við fermingu og affermingu.  Jafnvel við viðhald.  Slíkur tími telst ekki hér á landi til aksturstíma og í meðferð eftirlitsaðilans, Umferðareftirlits Vegagerðar, lögreglu og dómstóla eru þessar reglur túlkaðar mjög rúmt, mun rúmar en í flestum nágrannalöndum okkar.  Alls staðar sem ég þekki til er vinna bílstjórans við fermingu og affermingu talin til vinnutíma sem ekki er gert hér.

Í sumum tilfellum eru ökumenn undanþegnir reglunum, s.s. við akstur sláturdýra, strætisvagna, öryggistækja (slökkvileðs, lögreglu o.þ.h) og mjólkursöfnun frá bændum svo eitthvað sé nefnt.

Sveinn Ingi Lýðsson, 4.4.2008 kl. 21:26

22 Smámynd: B Ewing

Ég furða mig mest á að strætisvagnabílstjórar séu undanþegnir reglum um hvíldartíma.  Hefur einhver hérna séð vaktirnar sem þessir menn og konur þurfa að ganga.  Að ég tali nú ekki um allar óraunhæfu tímatöflurnar.

B Ewing, 4.4.2008 kl. 21:54

23 Smámynd: Landfari

Það vantar alveg í kommentið hjá Pétri í hvern hann er að vitna innan gæsalappa. Við lestur athugasemdar hans gæti maður haldið að hann væri að vitna í mig en ef mitt komment er lesið sést að það er langt frá því.

Ég er búinn að lesa mikið af því sem skrifað hefur verið um þetta en man ekki eftir að hafa séð þessa fullyrðingu en það getur vel verið að hún liggi hjá einhverjum sem hefur tjáð sig hér.

Þegar ég segi að maður verði að stoppa á Kjalarnesinu var það bara tekið sem dæmi. Það er jafn svekkjandi að þurfa að bíða í Borgarneis en maður á ekkert erindi þar. Það sem ég var bara að meina er að ef maður er vel upp lagður og vel sofinn er ekkert mál að keyra í einum áfanga milli Akureyrar og Reykjavíkur á góðum sumardegi. Hef sjálfur gert það æði oft en að vísu aldrei á flutningabíl. En eins og stóru bílarnir eru í dag get ég ekki ímyndað mér að það hættulegt ef  vel sofinn bílstjóri á í hlut. Það skelfilegasta við að fara svona oft á milli var reyndar að mæta þessum flutningabílum.

Þess vegna fyndist mér æskilegast að meðan ekki er búið að gera 2+2 veg hringinn að þessir flutningar færu aftur út á sjó en það er annar handleggur.

Það að aðeins virkur aksturstími telur hlýtur að vera til bóta en er svosem alveg hægt að gagnrýna líka. Því ekki getur það talist hvíld hjá bílstjóra að fara að laga keðjur eða annað sem uppá kann að koma.

Það er gersamlega útilokað að ætla að setja reglur sem taka á öllum aðstæðum sem uppá kunna að koma. Á endanum hljótum við alltaf að verða að treysta á bílstjórana og þeirra skynsemi. Mín skoðun er að reglur sem samdar eru í Brussel og þjóna vel aðstæðum á megilandinu og flutnigum milli landa þar þurfi ekki endilega að vera þær bestu fyrir okkar aðstæður. Algerlega sammála að það þurfa að vera einhverjar reglur því álagið getur gengið út í tóma vittleysu eins og dæmi eru um. Það er samt mín skoðun að þessar reglur þurfi að vera aðlagaðar að íslenskum aðstæðum og tel það skynsalegast að það sé gert í samráði við bílstjórana okkar eða samtök þeirra.

Landfari, 4.4.2008 kl. 22:17

24 Smámynd: Sigurður Rósant

Jú, B Ewing, ég ætla að nokkrir hérna í þessari færslu hafi reynslu af akstri strætisvagna í lengri eða skemmri tíma og þekki vel til þessara vakta og tímataflna.

Reynt hefur á þessa reglu fyrir dómstólum, en ekki varðandi áætlunarbílstjóra í þéttbýli að því er mér skilst.

Skýringin á þessu er sú að við Íslendingar erum ekki bundnir af tilskipunum Evrópusambandsins nema Alþingi hafi sett lög um viðkomandi tilskipanir. Í sumum tilvikum getur slík löggjöf haft í för með sér átakanlegan skort á vinnuafli eins og t.d. hjá læknum.

Sama gildir að nokkru leyti um áætlunarbílstjóra í þéttbýli. Reynt er að fylgja reglunni um 11 tíma lágmarkshvíld á sólarhring, en reglan um 1 frídag í viku, breytist í 2ja daga frí í viku í kjarasamningum sumra þeirra. Þá er einungis átt við skipulagðan vinnutíma. Ef stofnun eða fyrirtæki þarf á meira vinnuafli að halda, geta þau óskað eftir að starfsmenn taki að sér aukavinnu. Í sumum tilvikum hafa menn unnið sleitulaust í 3 mánuði eða meira, ef mikið liggur við.

Tímatöflurnar hvetja sumar hverjar til hraðaksturs, en auðvitað er það í hendi hvers bílstjóra fyrir sig, hvort hann telur mikilvægara, ökuskírteinið eða að halda áætlun.

Sigurður Rósant, 4.4.2008 kl. 22:32

25 identicon

Það versta er að starfsmenn vegagerðarinnar sem réttlæta vökulöginn hafa ekki alltaf rétt við. Þar hafa menn fullyrt að við meigum stoppa og taka 11 klst hvíldina okkar á plönunum fyrir utan sjoppurnar. Þetta er ekki rétt vegna þess að sjoppurnar eiga plönin og hafa vöruflutningabílar verið reknir í burtu,fyrir að fæla viðskiftavini burtu. Vegagerðin kom líka með þá snilldarhugmynd að kalla keðjuplönin hvíldarplön. Það er gáfulegt að leggja bílunum þar og leggjast svo undir bílinn og keðja hann út á þjóðvegi. Ég held að ef menn hjá vegagerðini hafa svona mikinn áhuga að fækka slysum ættu þeir að líta sér aðeins nær. Hálkuvarnir eru eitt. Það vill svo til að ég er atvinnubílstjóri og sé hvernig vegagerðin hugsar um vegina. Eitt dæmi skal ég taka sem sýnir best af öllu hversu mikinn áhuga vegagerðin hefur á umferðaröryggi. Það var mjög hált á þjóðvegi eitt hér fyrir norðan, og voru 2 fólksbílar búnir að fara útaf en lítil slys á fólki. Mokstursmaðurinn biður um leyfi um að hálkuverja veginn en fær neitunn. Tveir bílar í viðbót fara út af og aftur hringir mokstursaðilinn þá byrjar vegagerðarmaðurinn að tala um að ekki þurfi að hálkuverja. Þá spyr mokstursmaðurinn hvenær hann eigi að athuga þetta næst og spyr hvað þyrfi margir að fara útaf og jafnvel slasast alvarlega. Þá fýkur í vegagerðarmaninn og hann segir að þeir  geti svosem sandað þetta. Þetta er lýsandi dæmi um vegagerðina og svo segjast þessir herramenn vera að hugsa um öryggi þegar kemur að vökulögum. Það er gott og gilt en væri ekki allt í lagi að hugsa líka um öryggi þegar það snýr að vegagerðini?

Ómar Már Þóroddsson (IP-tala skráð) 4.4.2008 kl. 23:50

26 Smámynd: Sveinn Ingi Lýðsson

Það tönnglast á því aftur og aftur að laga þurfi reglurnar að íslenskum aðstæðum.  Hverjar eru þessar íslensku aðstæður og hvað gerir ísland frábrugðið öðrum löndum í þessum málum?  Vegirnir, það er mikið kvartað undan erfiðum vegum hér.  Gerir það bílstjórum lífið léttara og þurfa þess vegna minni hvíld en kollegarnir niðri í Evrópu?  Bílstjórarnir, eru þeir eitthvað frábrugðnir kollegunum þar?  Kannski vantar í þá þreytu- eða svefngenið?  Rétt að láta Kára rannsaka það.

Er íslenska klukkustundin lengri hér?  Er hver kílómetri styttri?  Gaman væri að fá rökstudd svör við þessum spurningum hér að ofan, ekki bara innihaldslausa frasa eins og verið hefur í umræðunni.  Það sem bílstjórum hefur vantað núna, og það sárlega, er leiðtogi.  Leiðtogi sem ekki bara bullar eitthvað út í loftið, heldur mann sem leggur skýr og klár rök á borðið og síðast en ekki síst, hefur þekkingu á því sem hann er að fást við.  Ég styð bílstjóra heils hugar fyrir öryggi og bættum kjörum en að hverfa til fyrri tíma þar sem þeir voru píndir í vinnu út í eitt er algjörlega út í hött.

Mér verður stundum hugsað til flutningafyrirtækis á landsbyggðinni.  Það átti 4 bíla sem 5 bílstjórar skiptust á að aka.  Leiðin sem þeir óku var u.þ.b 700 km.  Þrír af þessum bílstjórum gátu stundað þessa vinnu án nokkurra vandræða, þeir náðu því að aka leiðina, taka sín aksturhlé og ná sínum lögboðna hvíldartíma.  Hinir tveir virtust ekki geta farið eftir reglunum og mikið var um brot á þeim.  Aksturhlé ekki tekin, aksturtíminn var of langur og dagshvíld óregluleg og rofin.  Munurinn á þessum bílstjórum var sláandi.  Við nánari skoðun kom í ljós að bílstjórarnir þrír voru skipulagðir klárir fagmenn fram í fingurgóma sem kunnu að skipuleggja aksturinn.  Þess má líka geta að þeir voru yfirleitt heldur fljótari milli staða en hinir tveir.  

Sem sagt þeir notuðu hausinn og skildu að hann var til einhvers annars en halda eyrunum á sínum stað.

Færsla Ómars hér að ofan sýnir glögglega að þegar rætt er við rökþrota menn flýja þeir umræðuna með því að ræða og tengja alls óskyld mál sbr. vandamál við snjómokstur.

Að lokum skora ég á þá sem halda því fram að ríkið eigi að leggja til hvíldaraðstöðu um rúmum, salernum, sturtum o.sv.fr.  að leggja fram þessar reglur hér og nú.  Ég auglýsi eftir þeim???? 

Sveinn Ingi Lýðsson, 5.4.2008 kl. 09:18

27 Smámynd: Sveinn Ingi Lýðsson

Í nýju reglunum sem samgönguráðherrann vill slá af er tekið til jafns á málum rútubílstjóra, þ.e. þeim er sköpuð sömu skilyrði og öðrum. 

Strætisvagnabílstjórar eru undirseldir lögum um vinnuvernd en þeim er ekki gert að nota ökurita.  Almennar reglur um vinnuvernd eru að mestu hliðstæðar þeim reglum sem bílstjórar verða að hlíta.

Glæpamennsku eins og setjast svefnlaus úr leigubíl í strætó eða aðra stóra bíla og taka þar næstu vakt þarf ekki að fjölyrða um. 

Mér finnst stundum að atvinnubílstjórastéttina vanti fagvitund.  Þ.e. hvað það er sem greinir atvinnumann frá fúskaranum. 

Sveinn Ingi Lýðsson, 5.4.2008 kl. 12:47

28 identicon

Gódan daginn

ég er flutningabílstjóri í Danmörku og reglurnar eru tannig ad vinnudagurinn má aldrei fara yfir 15 tíma semsagt frá tví tad er lagt af stad eftir hvíld tar til ad tad er stoppad aftur til ad taka hvíld. Hvíldin skal vera 11 tímar en má stytta í 9 tíma en tá skal haldin 3 tíma hvíld seina um daginn. 

Aksturs tíminn er 9 tímar má lengja í 10 tíma 5 sinnum á 2.vikna tímabili.

Pásan skal vera 45 mín eftir 4,5 tíma og má skiptast í 15+30 mín ekki öfugt og ekki 3 sinnum 15 mín og madur verdur ad halda minnst 30 min pásu eftir 4,5 tíma keyrslu. Losun og lestun telst ekki sem hvíld heldur sem vinnutími.

En talandi um hvíldar plönin tá er tad til  háborinar skamar ad Vegagerdinn sé ad nefna kedjuplön,vetravegi,og tessi smá útskot sem eru vid vegina tarna heima tad er ómögulegt ad koma 17 metara treiler inná tessi út skot hvad tá um midjan vetur og ad sofa á kedjuplani er ekki allt í lagi í hvert skipti sem kemur bíl tá fer húsid ad vagga getid ímyndad ykkur ad sofa í jardskjálfta.En ég veit ekki med ykkur en mér finnst ekki gaman ad gera tarfir mínar í nordan 7 og skafreningi. En mér finst ekki naudsinlegt ad tad sé sturta á öllum hvíldarplönum en ad tad sé wc og rennandi vatn hér í DK eru bara sturtur á bensínstödvunum og kostar yfirleit 10 dkr ad nota hana en heita vatnid er nú heldur dýra hér en heima en ég myndi gladur borga 100 ískr fyrir sturtu. Hvíldarplönin hérna eru mismunandi eftir tví hvort tau séu vid Hradbrautina (mæti bera vid tjódveg 1 á íslandi) eda vid landvegina vid hradbraudina er plás fyrir ad minsta kosti 25-30 stóra bíla og teim er skipt nidur fyrir stóra, litla og húsbíla og hjólhýsi og tad er ólöglegt fyrir hina ad legja í stædin fyrir stórubílana madur getur fengid tá fjarlægda af lögreglu ef ad teir hafa lagt í trukastædin hef ordid vitni af tví og eru öll plönin vid hradbraudina med wc og vatni heitu og köldu en tad er frekar langt á milli klósetana vid landveginna og taug eru frekar minni taka kanski 3-5 stórabíla en er töluvert tétt á milli teira en tad er töluvert mikill munur á milli landana í umferdartúnga stóra bíla en tad verdur ad kera einkverja adstödu fyrir flutningabílstjóra og tad strax.

Ég stid barátu bílstjóra á íslandi heils hugar. kv frá Danaveldi

Ps. bid ad afsaka stafsetninguna og ad ég er med danst lyklabord.

Jóhann Gudmundsson (IP-tala skráð) 5.4.2008 kl. 14:15

29 Smámynd: Högni Jóhann Sigurjónsson

Ég vil samt taka undir orð Ómars hvað það varðar að vegagerðin er eftirlitsaðilinn og því væri gott að hún stæði sig eins og við hálkueyðingu, en hálka er eitt af því sem setur tímann úr skorðum. Í Evrópu eru plön þéttari en hér og víða hægt að hafa opið allann sólarhringinn vegna fjölda fólks en hér er þetta vandamál það er bara þannig, það þarf ekki að vera rúm, en þetta er mjög auðleysanlegt mál, vegagerðin getur alveg samið við sjoppurnar við þjóðvegi og borgað þeim ásættanlegt gjald fyrir aðstöðu og stækkað fyrir þá planið örlítið. Ég er líka sammála því að þeir þurfa rökfastann mann sem leiðtoga.

Ég tek undir þetta með kjörorðið.

Fagmennska atvinnubílstjóra greinir atvinnumann frá fúskara

Högni Jóhann Sigurjónsson, 5.4.2008 kl. 14:19

30 Smámynd: Helgi Jónsson

Tökum dæmi. Vörubílstjóri er á leiðinni Reykjavík- Akureyri sem er u.þ.b 7 tíma keyrsla með pásum. Færðin er slæm svo hann verður fyrir töfum á leiðinni. Þegar hann er að renna í Öxnadalsheiðina kemur rautt ljós í mælaborð bílsins sem segir að aksturstíminn sé búinn. Hann er búinn að aka sína 9 tíma yfir daginn og þá viku er hann tvisvar búinn að fara upp í 10 tíma eins og honum er heimilt skv lögum. Hann á eftir ca hálftíma akstur til Akureyrar, þar sem hans bíður hvíld í þægilegu rúmi. En hann verður að stoppa og bíða í 11 klst þar til hann má halda áfram því ef hann fer meira en 14 míútur fram úr aksturstímanum á hann á hættu að fá sekt sem nemur meira en mánaðarlaunum hans, og ef hann hefur brotið oft af sér, td með þessum hætti eða með því að vera á of þungum bíl gæti hann átt yfir höfði sér prófmissi og þ.a.l atvinnumissi. Þetta getur oft komið fyrir og þó hann sé ekki stoppaður í þetta skiptið getur hann átt á hættu að fá sekt fyrir þetta næstu 6 mánuði því upplýsingarnar skrást á ökuritakortið hans og lögreglan getur stoppað hann og skoðað kortið hvenær sem er

Helgi Jónsson, 6.4.2008 kl. 01:50

31 Smámynd: Sveinn Ingi Lýðsson

Helgi.  Á forsíðunni þinni stendur "Bílstjóri og bullari af lífi og sál".  Sennilega ertu bílstjóri en það er ljóst af færslunni þinni að þú er klárlega það síðarnefnda.  Í dæminu sem þú nefnir stendur ekki steinn yfir steini.  Þegar svona aðstæður skapast stoppa menn ekki á veginum um Öxnadalsheiði.  Honum er heimilt að ljúka ferð til að bjarga bíl og verðmætum.  Það eina sem hann þarf að gera er að skrifa athugasemd aftan á skífuna eða prenta strimilinn út úr ökuritanum og nóta á hann ástæðuna.  Þar að auki eru reglurnar hérna túlkaðar mjög rúmt og ég skora á þá sem segjast hafa fengið refsingar fyrir að fara "einhverjar mínútur" framyfir leyfðan aksturs- og/eða hvíldartímann að sýna það svart á hvítu og hætta þessari tvíræðni.

Væri ekki betra að kynna sér málin.  Það verður að gera þær kröfur til atvinnumanna í bílstjórastéttinni að þeir þekki á að regluumhverfi sem þeim er gert að vinna í.

Sveinn Ingi Lýðsson, 6.4.2008 kl. 09:25

32 Smámynd: Ólafur Björn Ólafsson

Ég er farinn að hallast að því að stór hluti vörubílstjóra kunni ekki á klukku og þaðan af síður að skipuleggja tímann.

Á flestum ef ekki öllu, ökuritum eru rofar sem þarf að nota setja á stýrismyndina þegar ekið er, h myndina þegar hvíldartíminn er og svo er líka mynd af hamri sem notast þegar unnið er við bílinn (lestun, Losun).

Það kemur þó ekki í veg fyrir að ég vilji sjá vegagerðina koma upp hvíldarplönum fyrir bílstjórana þar sem væri a.m.k Salerni ásamt heitu og köldu vatni.

Svona plön er ég búinn að sjá víða um Evrópu allt frá nyrsta hluta Noregs suður til Spánar, og frá Bretlandi til Ítalíu, og reyndar fleiri löndum.

Meira að segja þá hef ég komið inná nokkur svona plön í Póllandi líka.

Svo til að bæta við þá hefur í þau skipti sem ég hef verið stöðvaður til af "pundurum" þá hafa skífur þær sem ég hef haft og heildarþingd ökutækis verið í lagi.

kveðja

Kaldi

Ólafur Björn Ólafsson, 10.4.2008 kl. 23:14

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband