Einnota bæjarstjórn?

Í nýjasta hefti Vísbendingar birtist árlegur listi um stöðu sveitarfélaga varðandi búsetugæði.  Teknir eru fimm efnahagslegir þættir sem gilda hver um sig fimmtung í lokaeinkunn.  Það sem fyrst vekur athygli eru sveitarfélögin sem lenda í fyrstu þrem sætunum, Garðabær, Seltjarnarnes og Mosfellsbær.   Þar hafa sjálfstæðismenn að mestu haldið um stjórnartaumana og stjórnun fjármála sem annarra mála í traustum höndum.  Þessi sveitarfélög hafa einnig boðið íbúum sínum upp á meiri þjónustu og gæði en víða annars staðar.

En það sem mesta athygli mína vakti var hrap eins sveitarfélags á þessum lista.  Sveitarfélagið Álftanes féll um 31 sæti eða úr 5. í það 36.  Okkur sem búum þarna kemur þetta ekki svo á óvart.  Eftir síðustu kosningar var þvi framþróunarferli sem D-listinn hafði leitt klúðrað með því að stöðva uppbyggingu miðsvæðisins auk þess að skuldbinda sveitarfélagið til a.m.k. 150 milljóna leigugreiðsla til fasteignafélaga sem taka yfir rekstur fasteigna til næstu 30 ára.  Að auki hefur tugum milljóna verið eytt í arkitekta og hönnunarferli miðsvæðisins sem af bæjarstjóra hefur verið kallaður grænn miðbær.  Staðan er svo alvarleg bæjarstjórn er búin að fá gult spjald frá eftirlitsstofnun með fjármálum sveitarfélaga. 

Enn hefur ekkert gerst í uppbyggingu miðsvæðisins og gífurleg óánægja er með hönnun þess, sbr. það að helmingur atkvæðisbærra íbúa sá ástæðu til skriflegra athugasemda við skipulagið.   Málið er því komið í pattstöðu sem erfitt verður að sjá hvernig bæjarstjórn ætlar að vinna sig út úr. 

Hvað varðar fall Álftaness á lista draumasveitafélaganna svarar Sigurður Magnússon bæjarstjóri því í 24 stundum í dag að D-listinn hafi skilið illa við fjármálin.  Meirihluti D-listans lét af völdum á miðju ári 2006.  Síðan þá hefur Sigurður og hans félagar í Á-listanum haldið um stjórnartaumanna.  Í síðustu könnun Vísbendingar fyrir árið 2006 var Álftanes í 5. sæti.  Hvers vegna?  Hafði D-listinn ekki verið við stjórn árin þar á undan?  Eins og vanalega býður bæjarstjórinn upp á rangfærslur, orðhengilshátt og útúrsnúninga þegar hann er spurður um óþægileg mál.  Útsvar Álftnesinga er í toppi auk þess sem fasteignagjöld eru með því hæsta sem gerist. 

Þessi könnun vísbendingar segir okkur sögu. Sögu um fjármálaóstjórn, rangar vanhugsaðar framkvæmdir og tálsýnir um atvinnuuppbyggingu, hótelturn, grænan miðbæ (hvað sem það annars táknar).  Þessa sögu þarf að stöðva sem fyrst.  Bæjarstjórinn og hans fólk hagar sér eins og fílar í postulínsverslun og virðast ekki hafa neinn hug á endurkjöri.  Það á að demba yfir íbúanna eins miklu af draumsýnum bæjarstjórans á kjörtímabilinu eins og mögulegt er því hann veit sem er.  Þessi meirihluti sem hann styðst við mun ekki ná endurkjöri. 

Því sitjum við uppi með einnota bæjarstjórn.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Gísli Gíslason

Döpur staða og grafalvarleg.  Alvarlegast virðist vera að margir Á listameginn eru enn full af sjálfumgleði og virðast ekki gera sér grein fyrir alvarleika málsins.

Gísli Gíslason, 14.2.2008 kl. 10:59

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband