Miðvikudagur, 6. febrúar 2008
Er siðrænt að eyða milljörðum af annarra fé?
Undanfarin misseri hafa dunið á landslýð fréttir af ofsagróða banka og alls kyns grúppa þetta og grúppa hitt hvort heldur á heimamarkaði ellegar í útrásinni góðu. Ekki tekur að tala um milljónir, tugi milljóna eða milljarða, heldur er oftast talið í tugum og jafnvel hundruðum milljarða. Tölur sem þessar draga svo mörg núll með sér að venjulegu fólki sundlar við og ber lítt skynbragð á upphæðirnar. Upphæðir sem eru órafjarri raunveruleika hinna venjulegu manna, launaþrælanna sem í reynd halda uppi ofsagróðanum með okurvaxtagreiðslum af handónýtri krónu. Þeirri krónu sem lögð hefur verið undir jöklabréfaþeytivindu erlendra braskara. Allar tölur í þessum stærðum eru nánast óskiljanlegar og erfitt að setja í samhengi við þau raunverulegu verðmæti sem í lífi íslendingsins skipa hvað hæsta sess, þ.e. íbúðin og kannski bíldruslan.
Þessi sýndarhyggja gegnsýrir orðið alla umræðu og fólki finnast milljarðar til eða frá ekki skipta neinu máli. Svo einhver dæmi séu tekin þótti ekki tiltökumál að borga borgarstjórastólinn undir Ólaf F. með kaupum á ónýtu spýtnabraki við Laugaveginn. Þeim sem sömdu við Ólaf F. verður ekki gert að borga dellunna heldur er reikningurinn sendur til skattgreiðenda. Fimmhundruð milljónir þar. Þessum sömu borgarfulltrúm finnst ekkert tiltökumál að setja Sundabraut í jarðgöng þó svo að það kosti skattgreiðendur a.m.k. 9 - 10 milljarða aukalega þrátt fyrir að að færustu sérfræðingar í umferðarmálum telji lausn Vegagerðarinnar bæði mun betri frá umferðarsjónarmiði auk þess að vera milljörðunum ódýrari. Fyrir þessa umframpeninga mætti leysa stóran hluta af öllum umferðarvandamálum höfuðborgarsvæðisins og leggja 2+1 veg frá Selfossi að Borgarnesi.
Mjög er pressað á stjórnvöld að falla frá hugmyndum um slíkan veg (2+1) til Selfoss og Borgarness og velja í stað þess margfalt dýrari lausn sem er 2+2 vegur. Engin umferðarleg rök liggja til lagningu 2+2 vegar auk þess sem kostnaður er margfaldur, verktíminn er mun lengri og á meðan við eyðum tugum milljarða í þetta æpa óunnin verk á okkur um allt landið. Verk sem spara ófá slysin og mikla fjármuni. Benda má á stórgóða grein eins fremsta umferðarsérfræðings landsins, Rögnvaldar Jónssonar verkfræðings, í Morgunblaðinu í dag um þetta mál. Það er eins og margir hafi görsamlega tapað allri vitrænni hugsun varðandi þessar framkvæmdir og vilji fyrst og fremst skara sem mest að eigin köku og þá á kostnað annarra sem skulu á bíða lengur brýnna úrbóta.
Mér finnst kominn tími til að staldra aðeins við og horfa heildrænt af ískaldri rökhyggju á þessi mál og taka ákvarðanir af skynsemi og í samræmi við nauðsyn hverju sinni. Stjórnmálamönnum er þar síst treystandi. Þeirra ákvarðanir miðast því miður oftast við stundarhyggju og atkvæði næstu kosninga.
Því er miður.
Meginflokkur: Stjórnmál og samfélag | Aukaflokkar: Bloggar, Dægurmál, Viðskipti og fjármál | Facebook
Athugasemdir
Það væri gaman að heyra álit foreldra barna með andlega/geðræna sjúkdóma og komast ekki í meðferð hjá BUGL (Barna- og unglingageðdeildin). Myndu þeir telja að þessum milljarði sem er ausið í spýtnabrakið á Laugaveginum, hefði verið betur varið í sjúkrabyggingu undir BUGL starfsemina?
Sigurbjörn Friðriksson, 7.2.2008 kl. 09:16
Ég gæti ekki verið meira sammála varðandi milljarðana sem fólk er að leika sér með daginn út og inn. Millistéttin í landinu kemur til með að borga brúsann af þessu tapi sem nú er orðið eins og alltaf. Varðandi vegaframkvæmdir er ég þér hinsvegar ósammála þér þar sem hér á landi virðast framkvæmdir einkennast við að hugsa smátt sbr. Tónlistarhúsið. Eins og samgönguráðherra benti á í viðtali varðandi suðurlandsveg að þá er verið að hugsa 20ár fram í tíman en ekki 5ár þar sem 2+1 útfærsla yrði sprungin sökum umferðar rétt eins og vegakerfið er í hnotskurn. En jújú við getum grenjað yfir þessum 5-10 milljörðum sem það kostar aukalega að fara í 2+2 veg en verið þögul sem gröfin meðan verið er að bora út göng til Siglufjarðar og Bolungarvíkur upp á marga milljarða svo fólk geti nú örugglega flutt þaðan á sem auðveldasta máta, því þar er nú einu sinni ekkert fyrir það fólk að gera né hafa sökum kvótakerfisins.
Kristján Grétarsson (IP-tala skráð) 7.2.2008 kl. 12:00
Kristján, það er verið að hugsa 25 - 30 ár fram í tímann með 2+1 vegi. Þá er miðað við þær umferðarspár sem gera ráð fyrir hvað mestri umferðaraukningu um veginn. Athugaðu að umferð eykst ekki bara þarna heldur um allt land þar sem fólk er enn að aka á moldarslóðum. Annars bendi ég þér að að lesa grein Rögnvaldar í Mbl í gær, 6. febr. Þar leggur hann spilin á borðið og þau rök er ekki auðvelt að hrekja.
Reyndar hefur þessi umræða sjaldnast verið rökræn, heldur stjórnast af sérhagsmunum, tilfinningum og hreinni og klárri peningagræðgi, sbr. aðkomu Sjóvár að þessu máli.
Ég er hjartanlega sammála þér með Héðinsfjarðargöngin en málið er að verkið er langt komið og vart stöðvað úr þessu. Hellisheiðarruglið er hægt að stöðva. Í því liggur munurinn.
Sveinn Ingi Lýðsson, 7.2.2008 kl. 13:17
Þú hittir naglann á höfuðið; fólk er orðið veruleikafyrrt og þá ekki síst þeir sem við treystum fyrir sameiginlegum sjóðum okkar. Það er löngu kominn tími til að þetta fólk komi sér niður á jörðina.
Sigurður Jónsson (IP-tala skráð) 7.2.2008 kl. 14:56
Já það má segja að 2+1 dugi til að sinna þeirri umferð sem er bæði á Suðurlandsvegi sem og á Kjalarnesinu og alveg til Borganes. En ég byggi mín rök á því að hafa ekið aðra leiðina upp á hvern einasta dag fram og til baka vegna vinnu í nokkra mánuði. Við breytum ekkert Íslensku umferðareðli og þá sérstaklega hérna á stórhöfuðborgarsvæðinu sem einkennist af stressi og miklu tempói. Mikil þungavéla umferð er á þessum slóðum og framúrakstur því tíður og jafnvel nauðsynlegur. Það er ekkert launungamál að frá því að tvíbreikkun Reykjanesbrautar tók gildi til Keflavíkur hefur banaslysum sem og alvarlegum umferðaróhöppum minnkað til muna. Banaslysin verða í lang flestum tilfella við framúrakstur og þegar bílar mætast á þröngum vegum og það auðvitað vita allir. Ég myndi kjósa að fá 2+2 veg eingöngu vegna þess að ég treysti ekki öðrum ökumönnum á 1+1 né 2+1 sem býður upp á að bílar séu að mætast við framúrakstur á svo þröngum vegum þannig að varla tannstöngull kemst á milli þeirra. Auðvitað kæmi þessi framkvæmd til með að bitna á 300 hræðum í nágrenni Trékyllisvíkur osfr. En maður getur spurt sig hvort ekki sé búið að eyða nægu fé í bili í landshorn Íslands þar sem slysatíðni er lág, einungis búa nokkrar hræður og fólki fer fækkandi. Ætla að slútta þessu þar sem ég þessi athugasemd mín er farin að verða jafn löng og ræður Steingríms J.
Kristján Grétarsson (IP-tala skráð) 7.2.2008 kl. 16:03
Kristján, margbúið er að sýna fram á 2+1 vegur er jafnöruggur og 2+2. Því er því fjarstæðukennt að eyða 20 milljörðum í 2+2 veg þegar hægt er að leggja jafnöruggan veg, 2+1 fyrir 5 milljarða. Veg sem annar umferðinni fullkomlega næstu áratugi.
Annað sem rétt er að leiðrétta: Langflest alvarleg og dauðaslys verða í umferðinni úti á landi.
Sveinn Ingi Lýðsson, 7.2.2008 kl. 16:15
Umferð mun aukast ef lagður verður 2+2 vegur, sem þýðir enn meira slit á vegum og bílum. Þá á ég við að umferð á 2+2 vegi verður meiri en á 2+1. Betri samgöngur leiða af sér meiri umferð.
Ég held að 2+1 sé betri lausn. Það er hægt að sætta sig við sleðann fyrir framan, ef maður veit að maður kemst framúr honum eftir fáeinar mínútur.
Theódór Norðkvist, 7.2.2008 kl. 17:08
Gunnar Þór. Hvernig væri nú að kynna sér málið áður en þú slær fram svona fullyrðingum (bulli). Það er enginn heldur að spyrja hvað þú vilt heyra eða ekki heyra. Hér er bara verið að ræða um ískaldar staðreyndir. Staðreyndir sem margbúið er að fara yfir, nú síðast á morgunverðarfundi Slysavarnaráðs í gær. Svo það sé alveg skýrt þá munu afköst vegarins aukast það mikið að það er talið nægilegt a.m.k. næstu 20 ár þá miðað við þær umferðarspár sem gera ráð fyrir mestri umferðaraukningu.
2+1 vegir hafa rutt sér mjög til rúms í nágrannalöndum okkar svo og vestanhafs síðustu og hafa gefist mjög vel. Þeir eru taldir afkasta allt að 30 þús. bíla umferð á dag. Til viðmiðunar er núverandi umferð á Hellisheiði milli 5 - 6 þús bílar á dag.
Sveinn Ingi Lýðsson, 7.2.2008 kl. 23:30
Mér finnst svolítið skrýtið að sjá Vegagerðarmenn beita sér af hörku í þessu máli.
Ég minnist þess ekki að hafa nokkurn tímann heyrt þá kvarta yfir bruðli þegar boruð hafa verið göng úti á landi fyrir örfáar hræður.
Finnur Hrafn Jónsson, 8.2.2008 kl. 18:24
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.