Þriðjudagur, 17. apríl 2007
Að bukka sig og beygja
Í eina tíð var almenningi gert að líta með undirgefni og virðingu til höfðingjastéttarinnar og menn bukkuðu sig og beygðu fyrir prestinum, sýslumanninum og jafnvel fyrir hreppstjóranum. Þarna voru á ferð yfirstétt landsins sem öðrum var gert að þjóna og þéna.
Mér var hugsað til undirleitra ölmusumanna þegar ég horfði á sjónvarpsútsendingu af kosningafundi á Ísafirði nú í kvöld. Sérkennilegt hátterni stjórnenda er viðhaft þegar spurningar koma utan úr sal. Þetta hátterni felst í því að stjórnandi heldur hljóðnema það lágt að fyrirspyrjandinn þarf að vera í einum keng þegar spurningin er upp borin. Sumir eru líka óvanir sviðsljósinu er eru bullstressaðir og þetta er ekki til að bæta á.
Jafnframt er fólk lítillækkað þegar stjórnandinn nánast æpir: "Hver er spurningin? Ætlarðu að koma með spurningu?" og annað í þeim dúr. Sumar fyrirspurnir eru einfaldlega þess eðlis að hafa þarf nokkurn formála að. Mér þótti þetta sérlega miður að fólk sé lítillækkað með þessum óskammfeilna hætti. Getur verið að þessir stjórnendur séu farnir að líta á sig sem einhver aðal eða er þetta kannski merki um óöryggi og minnimáttarkennd.
Fróðlegt væri að heyra skoðanir fólks á þessu.
P.S. Einna verst þótti mér að Sigmar Guðmundsson ofurbloggari og minn uppáhaldssjónvarpsmaður er einna verstur í þessu. Alla vega í kvöld. Kannski var hann minnugur þess þegar hann missti alla stjórn á töfradís Samfylkingarinnar, Kristrúnu Heimisdóttur, í kappræðu Kastljóss í síðustu viku.
Hver veit?
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.