Bílnúmerahappdrætti er liðin tíð eða hvað?

Hér í eina tíð var einhvert góðgerðafélagið með skemmtilega fjáröflun sem fólst í sölu happdrættismiða.  Það gera reyndar mörg félög en þetta happdrætti var svolítið sérstakt.  Í stað venjulegs númers notuðust menn við skráningarnúmer bíla.  Þetta var í tíð gömlu stóru, svörtu og ljótu númeraplatanna sem huldu stóran hluta af fram- og afturhluta bíla, sérstaklega ef þeir voru í minni kantinum.

Þessi númer fylgdu eigendum sínum, en ekki bílunum eins og nú tíðkast.  Margir tóku ástfóstri við númerin og þau gengu gjarnan til afkomendana þegar eigendurnir héldu á vit forfeðra sinna.  Sem sagt þarna höfðaði happadrættið til hégóma bíleiganda sem að sjálfsögðu keyptu "sitt númer".  Hvað annað.  Áttu einhverjir ótíndir plebbar út í bæ að vinna þann stóra á bílnúmer mitt?  Nei takk.  Betra að kaupa miðann.

Vegna þessa uppátækis skagfirðinganna að slíta númer af löggubílunum rifjaðist upp 20 ára gömul saga úr þorpi á Vesturlandi.  Árla sunnudagsmorguns á fallegum vordegi bankaði  ungur maður upp á í húsum þessa friðsæla þorps.  Þeim sem til dyra gengu varð strax ljós að ungi maðurinn hafði gengið á vit gleði vornætur með Bakkus að fylgdarsveini. 

Glaðhlakkalegur bauð hann góðan og blessaðan daginn.  Þegar undir kveðjuna var tekið bauð hann þeim er í dyrum stóð hvort ekki mætti bjóða svo sem eins og eitt númer í bílnúmerahappdrættinu.  Að svo mæltu rétti hann fram pokaskjatta og viti menn.  Pokinn var fullur af númeraplötum, þessum gömlu svörtu.  Þegar kappinn var inntur eftir tilurð þeirra í pokanum sagðist hann bara hafa tekið þær sem voru frekar lausari en aðrar.

Við nánari eftirgrennslan staðarlögreglunnar kom í ljós að hann hafði tekið númer af yfir tuttugu bílum.  Málið var leyst á staðnum.  Pjakkurinn fékk að sofa úr sér vímuna en það því loknu tók hann til við að festa númerin aftur á bílana að viðstöddum löreglumönnum og eigendum þeirra. 

Sú refsing gleymist honum seint.


mbl.is Stálu númeraplötum af lögreglubílum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband