Sunnudagur, 25. mars 2007
Íbúalýðræði á Álftanesi í orði en ekki á borði
Fyrir rúmu ári, rétt fyrir sveitarstjórnarkosningar, lá fyrir samþykkt skipulag svokallaðs miðsvæðis á Álftanesi. Vegna þessa skipulags urðu miklir flokkadrættir þar sem margir andstæðingar skipulagsins fóru hamförum, fundu þessu skipulagi allt til foráttu, töluðu um pólitíska spilllingu, mannfjandsamlega háhýsabyggð og nánast allt í skipulaginu var þeim andsnúið.
Hér gengu menn fram af fáheyrðri hörku og efnt var til undirskriftarsöfnunar meðal íbúana. Þessi söfnun undirskrifta var vægast sagt með óvenjulegum hætti, þ.e. notuð var maður á mann aðferðin þar sem mjög var lagt að fólki að skrifa undir. M.a. var þrisvar sinnum komið á mitt heimili og miklum þrýstingi beitt til að fá okkur til að skrifa undir. Talað var um íbúalýðræði, ýjað að meintri spillingu bæjarstjóra og fulltrúa sjálfstæðisfélagsins í samningum við verktaka. Ekki gat þetta blessað fólk bent á nein "concret" dæmi því allir áttu þessir samningar að vera leynilegir. Ja hérna svona baktjaldamakk í reykfylltum herbergjum með dökkþiljuðum veggjum og grænum borðum. Kunnuglegar aðferðir í rógburði.
Vissulega skal ég viðurkenna að þetta skipulag hafði galla, galla sem mátti þó auðveldlega breyta án mikillar tilfæringa. Svokölluð "háhýsabyggð" reyndist vera 3ja hæða húsaþyrping í miðju svæðisins. Byggðin fór síðan lækkandi út til jaðranna. Reyndar hef ég aldrei séð gallalaust skipulag og sennilega er það ekki til. Hvergi.
Sem sagt, mikið var lagt undir og linnulaus áróðurinn gekk yfir bæjarbúa. Ótrúlega margir gleyptu við þessu, sérstaklega kenningunni um "massíva háhýsabyggð" og sumir trúa þessu enn. Það virðist því vera að viðkomandi hafi ekki kynnt sér skipulagið. Á vormánuðum var gengið til kosninga og orðið íbúalýðræði var æ oftar notað. Kosningarnar skyldu snúast um skipulagið og fólkið skyldi ráða.
Niðurstaða kosninganna var einhver naumur 3ja atkvæða sigur Á-listans ef hægt er að tala um sigur í því sambandi. Á-lista fólk gekk hratt og skipulega til verks, haldin skyldi arkitektasamkeppni um miðsvæði til tilheyrandi kostnaði, töfum á framgangi málsins, auk þess sem rifta þurfti gerðum samningum. Samningum sem gerðir höfðu verið á grundvelli samþykkts skipulags.
Nú liggur fyrir niðurstaða úr samkeppninni. Margar hugmyndir bárust en dómnefndin var einróma í þeirri afstöðu að velja tillögu GASSA arkitekta. Eftir að hafa skoðað verðlaunatillöguna er mér efst í huga hversu lík hún er núverandi skipulagi, skipulagi sem fyrir ári síðan var algerlega ómögulegt. Verðlaunatillagan gerir reyndar ráð fyrir mun þéttari byggð auk þessi sem "háhýsunum" þ.e. hlutfalli þriggja hæða húsa eykst nokkuð frá gildandi skipulagi.
Mér líst vel á þessa tillögu þó hún sé engan veginn gallalaus frekar en annað skipulag. Þó er fyrst og fremst eitt sem verður að laga: Krossgatnamót við innkomur á svæðið eru ekki heppileg. Þarna væri hringtorg mun heppilegara en það lítur kannski betur út á kortinu að hafa þetta svona.
Nú sem sagt liggur þetta fyrir og þá reynir á íbúalýðræði Á-listans. Á sama hátt og kosið var um gildandi skipulag hlýtur að liggja í augum uppi að íbúarnir fái að kjósa um tillöguna. Það er sjálfsagður réttur þeirra eftir tekið er mið af því sem á undan hefur gengið. Þó virðist sem Á-listinn hafi ekki lengur neinn áhuga á íbúalýðræðinu sem allt snerist um fyrir ári síðan.
Það er miður.
Athugasemdir
Þetta eru orð í tíma töluð og lýsir því miður því hvernig það er ekkert að marka það sem Á-listinn sagði fyrir kosningar.
Gísli Gíslason (IP-tala skráð) 27.3.2007 kl. 08:45
Ýmis atriði í þessari grein eru ekki alveg á rökum reistar og rétt að koma með athugasemdir.
1. Allir arkitektar og aðrir sérfræðingar sem tjáðu sig um núgildandi deiliskipulag töldu skipulagið vera slæmt og gera mætti mun betra skipulag. Fjölmargir leikmenn voru sammála þar á meðal fjölmargir sjálfstæðismenn. Gatnakerfið var óásættanlegt og Eirarbyggingar voru á afleitum stað. Verðlaunatillagan leysir þessi og ýmis önnur umdeild atriði svo að þessu leiti eru tillögurnar eins og svart og hvítt.
2 . Þar sem hér lá undir miðsvæði sveitarfélagsins voru fjölmargir íbúar tilbúnir til að beyta sér að fullum þunga fyrir nýju skipulagi. Mér sem bæjarfulltrúa var því skyllt að beyta mér fyrir þennan hóp sem vildi sjá nýtt skipulag. Meginþorri þeirra sem studdu Betri Byggð sem var um helmingur Álftnesinga vissu fullvel um hvað málið snerist og það er svolítill hroki sem felst í því að segja að fólkið hafi verið blekkt til að styðja baráttu Betri byggðar.
3. Skrif um spillingu eru vandmeðfarin og skiptar skoðanir er um hvað er spilling. Hinsvegar var margt vægast sagt sérkennilegt í tengslum við þessi miðbæjarmál. Kannski var það endapunkturinn þegar einn ákveðinn fulltrúi D-listans dreyfði geisladisk með sjónarmiðum D-listans í hvert hús nokkrum dögum fyrir kosningar sem borgaður var af sveitarsjóði án þess að nokkur heimild lægi fyrir í stjórnkerfinsveitarfélagsins um gerð disksins.
4. Kannski voru það forlögin sem höguðu því þannig að Á-listinn vann kosningarnar með þriggja atkvæða mun. Þar voru Álftnesingar heppnir.
Kannski voru það forlögin sem höguðu því þannig að við fengum flotta vinningstillögu úr arkitektasamkeppninni. Þar voru Álftnesingar heppnir.
Nú er það okkar allra að vinna úr þessari góðu stöðu sem er allt önnur og betri en var fyrir ári síðan.
5. Nú hefur Á-listinn uppfyllt óskir Álftnesinga um samkeppni um deiliskipulag miðsvæðisins. Samkvæmt reglum um samkeppni var skipuð dómnefnd sem hefur valið verðlaunatillögu. Allir íbúar og aðrir sem hafa tjáð sig eru sammála dómnefndinni um að verðlaunatillagan sé sú besta. Nú geta íbúar og aðrir komið með formlegar ábendingar á heimasíðu Álftaness um deiliskipulagstillöguna áður en farið verður í að fullvinna tillöguna. Þannig virkar íbúalýðræðið. Hefði verið hægt að gera þetta öðruvísi?
Lifi íbúalýðræðið.
Kristján Sveinbjörnsson bæjarfulltrúi á Álftanesi.
3.
Kristján Sveinbjörnsson (IP-tala skráð) 28.3.2007 kl. 15:24
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.