Góður samgöngukostur - að auki holl hreyfing

Frábært blogg hjá Kára Harðarsyni og finnst það eigi skilið athygli.  Líka á það mikið erindi á prent.  Hjólreiðamenn ekki jafn öflugur þrýstihópur og hestamenn sem fengu sett í vegalög að leggja skyldi reiðvegi meðfram þjóðvegum.  Mér finnst það svo sem í lagi ef allir nytu jafnræðis.  Hver ætlar að halda því fram að hross flokkist til samgöngutækja og tóla.  Var það kannski fyrir hundrað árum en ekki lengur.  Hestar eru sport.  Svo einfalt er það.  Á meðan íslenska þjóðvegakerfið er jafn óburðugt og raun ber vitni finnst mér gjörsamlega út út hött að eyða peningum í reiðvegagerð.  Ekki nema hestamenn leggi samsvarandi fjármuni til og bíleigendur.

Hjólreiðar eru hins vegar fyllilega raunhæfur kostur til styttri samgagna.  Til þess hníga öll rök.  Það er umhverfisvænt, hjól taka minna pláss á umferðarmannvirkjum en bílar og svo er mjög heilsusamlegt að hjóla.  Hins vegar er stígakerfi til hjólreiða mjög ófullkomið og sundurslitið og ekki líkt því að að hafi verið hannað til samgagna, heldur til útivistar (reyndar gott mál) eða hreinlega að stígarnir líti vel út á korti.

Ég bý á Álftanesi en vinn í miðborginni.  Hjólaleiðin er rúmlega 12 km sem er ekkert voðalega langt að hjóla.  Af Álftanesinu liggur hjóla- og göngustígur þétt meðfram þjóðveginum en á honum er mjög hröð og hættuleg umferð.  Síðan liggur leiðin norðan Ásahverfis í Garðabæ en við Sjáland slitnar stígurinn í sundur þannig að taka þarf á sig langan krók.  Talsverð töf og óþægindi.  Eftir að komið er fram hjá Sjálandsskóla kemst ég að stíginn aftur og leiðin liggur greið stuttan spotta að Arnarnesi.  Þar þarf að hjóla krókaleið eftir íbúðagötum þar komið aftur á stíginn sunnan Kópavogs.  Sama sagan er í gegn um Kópavog.  Þegar komið er niður í Fossvoginn liggur góður stígur sunnan Öskjuhlíðar og austan flugvallarins, þaðan yfir Bústaðaveg og niður í Hlíðar.  Og viti menn þar hefur verið lögð hjólreiðabraut meðfram Lönguhlíð að Miklubraut.  Frábært en því miður hafa ökumenn eitthvað misskilið málið og bílum er lagt þvers og kruss á stíginn þrátt fyrir góðar merkingar.  Tvisvar hef ég vakið athygli lögreglu á þessu en ekki fannst mér áhuginn mikill á þessu og svarið í seinna skiptið var:  "Hva, þú getur bara skellt þér eftir gangstéttinni.  Er það ekki"?  Nú síðan liggur leiðin yfir Klambratúnið, eftir Rauðarárstíg á á Hlemm og þá er ég svo gott sem kominn til vinnu.  Leiðin er það ógreiðfær og sundurslitin að þetta er ekki raunhæfur kostur á ekki svo langri leið.  Því miður.

Ástand eins og þetta er ekki nokkrum bjóðandi hreint út sagt.  Í ljósi þess að minnka þarf kolefnislosun er þetta ein þeirra aðferða sem gæti orðið mjög virk samhliða öðrum.  Það þarf líka að skapa stemmingu fyrir hjólreiðum og gera þær að eftirsóknarverðum kosti í samgöngum. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Birgir Þór Bragason

Ég er á því að yfirbyggðir hjólastígar geti gert gæfu muninn hvað það varðar að gera þetta að raunhæfum valkosti á Íslandi. Gler er orðið það sterkt að yfirbyggingin væri sjálfbær :) (ekki þarf burðarvirki til að halda glerinu). Ég geri mér grein fyrir að þetta er kannski framúrstefnulegt en þannig eru hugmyndir líka oft. Gaman væri að sjá hvað hver slíkur kílómetri kostar. Ég læt það örðum eftir að finna það út :) Á slíkum hjólastíg gætir þú auðveldlega haldið 24 km/kls. hraða hvernig sem viðrar. Það er dálítið erfitt að komast leiða sinna hér í Kaupmannahöfn á hjólinu þessa dagana, það er snjór og slabb.

Birgir Þór Bragason, 23.2.2007 kl. 16:56

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband