Sviptingar í bæjarstjórn Álftaness. Afsögn forseta bæjarstjórnar.

Í yfirlýsingu sem Kristján Sveinbjörnsson forseti bæjarstjórnar Álftaness setti inn á vef sveitarfélagsins í gærkvöldi tilkynnir hann afsögn sína sem forseti og dregur sig jafnframt í hlé sem bæjarfulltrúi. 

Kristján hefur setið sem forseti frá því að Á-listinn tók við stjórnartaumunum á Álftanesi miðsumars 2006.  Mikið hefur gengið á í sveitarfélaginu og hafa Kristján og félagar hans í Á-listanum staðið fyrir miklum framkvæmdum, sumum umdeildum og öðrum sem ekki voru bara umdeildar, heldur í mikilli andstöðu meirihluta íbúa.   Er hér átt við  skipulag miðsvæðisins sem Kristjáni og félögum tókst að klúðra með afdrifaríkum hætti.  Þar var á ferðinni ekkert annað en hrein pólitísk valdníðsla að ganga svo freklega gegn vilja bæjarbúa sem raun bar vitni.

Annað mál hefur verið Kristjáni erfitt, svokallað M8-mál.  Það snýst um byggingarrétt á lóðinni Miðskógar 8 sem er næsta lóð við íbúðarhús Kristjáns.  Á-listanum var þar beitt fyrir vagninn í beinum hagsmunadrætti Kristjáns gegn eigendum lóðarinnar.  Svo óheppilega vildi til að bygging húss á þessari umdeildu lóð hefði skyggt á útsýni hans til sjávar.  Svo sem vel skiljanleg óánægja að vera sviptur útsýni en fátt við því a gera ef lóðin er lóð og maður er bara venjulegur jón.  En hér var ekki neinn venjulegur jón, heldur sjálfur séra jón, forseti bæjarstjórnar, og öll framkvæmd bæjaryfirvalda á þessu málið hafa borið argasta spillingarstimpil.  Að öllum líkindum munu aðgerðir bæjaryfirvalda kosta bæjarstjóð tugi milljóna.

Svo virðist einnig vera að Kristjáni sem er yfirlýstur Samfylkingarmaður hafi einnig vantað allt bakland þar sem hann virtist ekki njóta stuðnings flokksfélagsins á Álftanesi.  Alla vega hefur hinum almenna kjósanda fundist sá stuðningur lítt sjáanlegur.

Fjármál sveitarfélagsins eru einnig í erfiðum hnút eftir óhóflega skuldasöfnun og óráðsíu í fjármálastjórnun.  Þetta, ásamt þeirri bankakreppu sem nú ríður yfir, leitt til þess að staða sveitarfélagsins er mjög erfið, jafnvel hægt að tala um "tæknilegt" gjaldþrot.   Meirihluti Á-listans hefur klúðrað  málum svo á Álftanesi að réttast væri að allir bæjarfulltrúar þeirra myndu segja af sér og nýr starfhæfur meirihluti yrði myndaður.

Sterkir andstæðir pólar hafa verið áberandi í allri pólitískri umræðu á Álftanesi.  Kristján er einn þeirra.  Brotthvarf hans úr pólítík er því kærkomið skref inn í framtíðina og mun vonandi minnka þær skörpu persónulegu aðstæður sem bæjarstjórn hefur mátt búa við að undanförnu.

Kristjáni og fjölskyldu hans óska ég velfarnaðar og óska þeim gleðilegra jóla.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband