Er leiðtogi í sjónmáli?

Það ríkir undarlegt ástand á Íslandi.  Eins og hendi væri veifað bliknaði glansmyndin sem við höfðum búið okkur til og  vorum svo óspör að sýna umheiminum.  Við erum svo klár, við erum betri, við erum best.  Svo gerðist það.  Hrunið.  Við blasti nístingskaldur raunveruleikinn.  Raunveruleiki sem margir hafa ekki enn áttað sig á.

 

Fjárglæpamenn sem komist höfðu í áhrifastöður höfðu hreinlega stolið stórum hluta þjóðarauðsins, veðsett annara eigur upp fyrir haus, flutt þýfið í skattaparadísir Karabíska hafsins, Ermasundsins, Kýpur og efalaust á fleiri felustaði.

Við, almenningur í þessu guðs volaða landi eigum svo að borga skuldir þessara þjóðníðinga.  Af hverju?  Hvað hef ég gert til að verðskulda að vera nú skuldum vafinn, þurfa síðan að velta þeim yfir á börnin mín og barnabörnin.  Ekki eyddi, ég sóðaði eða sukkaði þjóðarauðæfunum á braut.

 

Á fjögurra ára fresti kjósum við okkur fulltrúa á löggjafarsamkomuna sem á að mynda löggjafarvaldið.  Löggjafarvaldið myndar síðan framkvæmdavaldið sem smátt og smátt í áranna ráðs hefur orðið einskonar YFIRVALD í landinu.  Löggjafarvaldið líkist mest eins konar afgreiðslustofnun YFIRVALDSINS sem einnig hefur dómsvaldið undir hælnum.  Framkvæmdavaldið deilir og drottnar og velur menn í alls kyns stofnanir, þ.á.m. stofnanir sem eiga að gæta fjármála og efnahags.  Tvær veigamestu stofnanir þessa málaflokks eru Seðlabankinn og Fjármálaeftirlitið.

Það blasir við hverjum viti bornum manni að þeir sem stjórnuðu (eða áttu að stjórna) þessum stofnunum brugðust algjörlega hlutverki sínu og stóðu eftir eins og hreinir afglapar.  Í hefðbundnu lýðveldisformi vestrænna ríkja hefðu stjórnendur þessara stofnana sagt störfum sínum lausum án tafar. Sömuleiðis þær stjórnir sem yfir þær eru settar.

Jafnframt hefðu þeir ráðherrar sem ábyrgð bera á þessum málaflokkum tafarlaust átt að segja af sér, viðskiptaráðherra og fjármálaráðherra hvers afglapasaga er að verða efni í heila bók.

Nei, öll berum við ábyrgð, var okkur sagt, við megum bara alls ekki persónugera vandann.  Kannski vilja þeir sem þetta sögðu skýra út fyrir mér hvað þeir sem ábyrgð bera eiga að gera þegar þeir hafa brugðist því trausti sem við sýndum þeim?  Axla ábyrgð? Hvað er nú það?  Ef við komum að vörðunum sofandi á meðan innbrotsþjófarnir fóru ránshendi um eigur okkar, eigum við að treysta þeim til áframhaldandi varðstöðu?

 

Nei, alls ekki.

 

Í þessu tilfelli hefði leiðtogi framkvæmdavaldsins átt að sýna hæfileika og myndugleik.  Hans var verkið.  Setja afglapana af.  Strax.  Því miður var það ekki gert og það afhjúpaði alvarlegan veikleika ríkisstjórnarflokkanna.   Þessi alvarlegi veikleiki var skortur á leiðtoga.  Leiðtoga sem tæki af skarið og gerði það sem gera þurfti strax.  Formaður annars flokksins lá veikur á sjúkrahús en það var engin tiltækur að halda merkinu á lofti og taka forustuna. 

 

Nú eftir meira en 100 daga aðgerðaleysi bættist enn á slæmu fréttirnar, nú af alvarlegum veikindum forsætisráðherra.  Lengi getur vont versnað.  Báðir leiðtogar stjórnarflokkanna frá vegna veikinda.  Nú þurfum við á samstöðu að halda.  Sjálfstæðismenn vantar leiðtoga, sterkan leiðtoga, sem hefur skýra stefnu og framtíðarsýn.  Leiðtoga sem nær til fólksins og getur dregið til sín fylgismenn.  Leiðtoga sem þjóðin getur treyst.

 

Nú hefur verið ákveðið að fresta landsfundi.  Það er skiljanlegt.  Annars vegar er mikil þörf á að forustan geti skynjað á slíkum fundi hver veruleiki almennings er og ættu því skapað sér skýra heildarmynd og gert áætlanir og stefnu í samræmi við hana.  Hins vegar er nauðsyn á endurnýjun forustunnar. 
Sú nauðsyn er æpandi.  Hver getur tekið við? 

 

Þorgerður Katrín?  Þorgerði urðu á afdrifarík mistök þegar ljóst var eftir fall Kaupþings sjóðabrall þeirra hjóna.  Sterkasti leikur hennar í þeirri stöðu hefði verið að segja af sér.  Sýna í verki að hér væri foringi sem tilbúinn væri að axla ábyrgð sína og gera það.  Með slíkt að baki hefði leið hennar verið greið í formannsstólinn.

 

Bjarni Benediktsson?  Hann hefur verið lítt áberandi frá þvi hann steig inn í pólitíkina, kurteis, sjarmerandi og efalaust hæfileikaríkur maður en því miður hefur hann ekki sýnt neina þá takta sem vísað gætu í leiðtoga.  Jafnframt er hann í hugum margra fyrst og síðast fulltrúi þeirra afla sem kennd eru við Engeyjarættina.

 

Illugi Gunnarsson?  Sá ágæti maður hefur verið nefndur til sögunnar.  Hans lönd eru nokkuð ókönnuð en varla það leiðtogaefni sem leitað er eftir.

 

Þá er ég kominn að þeim kostinum sem mér líst hvað best á.  Ljóst er að flokknum er mikil þörf á endurnýjun og bætingu ímyndar sinnar í augum almennings.  Eins og að ofan greinir er sagan undanfarnar vikurnar vörðuð mistökum.  Sporin sem tekin voru stutt og ómarkviss líkt að göngu um myrkra mýri.  Mýri hinnar mörgu forarpytta.  Og það sem verra var. Við duttum ofan í þá alla.  Því miður.  Vegna þessa hefur traust flokksmanna á forustunni beðið alvarlegan hnekki.  Við þurfum nýtt blóð.  Það er mitt mat að það skuli sækja til kvenna.  Á undanförnum árum hefur Guðfinna Bjarnadóttir rækilega stimplað sig inn í íslenskt athafnalíf, fyrst sem rektor HR og síðar sem alþingismaður.  Hún er gáfuð, kjarkmikil og fylgin sér.  Í starfi hennar í HR fóru leiðtogahæfileikar hennar vart framhjá þeim sem þar þekktu til.  Guðfinna er tvímælalaust besti kandidatinn sem flokkurinn á í dag og ég hvet hana til að gefa kost á sér.

 

Þá vantar varaformanninn.  Hann þurfum við ungan ferskan, vel menntaðan og hann finn ég í Erlu Ósk Ásgeirsdóttur.  Erla hefur verið mjög virk í pólítík, í Vöku, félagi lýðræðisinnaðra stúdenta, Heimdalli og SUS.  Hún hefur getið sér gott og á öllum vígstöðvum og er mjög frambærileg við hlið Guðfinnu.

Þarna held ég við fyrstu hugsun að tækifæri Sjálfstæðisflokksins liggi.  Hefjum til öndvegis hin kvenlegu gildi.  Karlarnir eru búnir að prófa að renna sér á hálu svelli frjálshyggunnar og runnu þar flestir á rassinn.

 

Ingibjörgu og Geir óska ég alls hins besta með von skjótan, góðan bata.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Predikarinn  -  Cacoethes scribendi

Ég held ég taki undir með þessari grein sjálfstæðismanns í Kópavoginum sem má lesa á eftirfarandi slóð : http://baldur.xd.is/

Predikarinn - Cacoethes scribendi , 23.1.2009 kl. 23:24

2 Smámynd: Georg P Sveinbjörnsson

Fólk verður síðan líka að athuga að aðrir áhrifavaldar eru líka að verki en ýmist sofandi og spilltir stjórnmálamenn og gráðugt bissnessfólk. Fólk verður að átta sig á að kreppur verða ekki til vegna tilviljana, ekki þessi og ekki þær fyrri, þær þjóna tilgangi og er hrint af stað af öflum sem nýta sér þær og upplausnina sem þær skapa. Þetta er ljótur leikur, en lesa má um það á íslensku HÉR hvernig þetta gengur fyrir sig, enginn skyldi fara í grafgötur með það að allt er þetta meira og minna rétt sem þarna er skrifað. Íslendingar eins og aðrar þjóðir eru leiksoppar í ömurlegri svikamyllu.

Georg P Sveinbjörnsson, 23.1.2009 kl. 23:28

3 Smámynd: Offari

Það er því miður ekki enn komin leiðtogi sem kann tökin á þessum snöggu ummskiptum á högum fólks. Ég hef trú á því að hann komi en biðin getur verið löng.

Offari, 24.1.2009 kl. 14:47

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband