Álftanes. Er ekki nóg komið, kæri bæjarstjóri?

Þegar ég kom heim áðan hafði borist inn um bréfalúguna bæklingurinn alftanes.is, Sérstök útgáfa til kynningar á nýju miðbæjarskipulagi.  Litprentaður, fullur skrautlegra mynda, þar sem léttklætt fólk gengur um tjarnarbakka, ráðhúsklukkan í baksýn og svanurinn heilsar að hætti útlenskra.  Ja hérna.  Flott skal það vera.

Útgefandinn er Sveitarfélagið Álftanes og ábyrðarmaðurinn er bæjarstjórinn okkar.  Maður skyldi þá ætla að hægt sé að fræðast og kynnast ólíkum sjónarmiðum um skipulagið.  Á forsíðunni er viðtal við GASSA arkitektana, þau Guðna Tyrfingsson og Auði Alfreðsdóttur.  Þau brosa til okkar lesandanna og segjast hafa hannað grænan miðbæ.  Satt er það, rækilega hefur verið krotað með græna litnum ofan í annars hnjóskulega teikninguna sem okkur hefur veirð sýnd fram að þessu.   Með því að hafa bílastæðin neðanjarðar skapast meira rými fyrir grænu svæðin sem eiga að vera milli lítilla einkalóða húsanna í kring.  Þá spyr ég:  Hver á að halda grænu svæðunum við?  Hefur það gengið svo vel hér fram að þessu? Réttur til umferðar vélknúinna ökutækja skal takmarkaður og hraðanum haldið niðri til að skapa rólega stemmingu.  Já það er trúlegt eða hitt þó að stemmingin verði róleg á Skólaveginum þegar nánast öll umferð úr miðbænum, Breiðumýri og að og frá skóla ferð þar um.  Hún verður væntanlega  einstaklega friðsæl umferðin á Skólaveginum þegar allir 60 - 100 þúsund gestirnir koma eins til að berja forsetasetrið og náttúrufegurðina augum.

Á innsíðu hvetur bæjarstjórinn til sáttar um miðbæinn og segir orðrétt:  „Þetta er fagnaðarefni og má ætla að í stað ágreinings um grundvallaratriði sem áður var sé nú fyrst og fremst álitamál uppi, en álitamál verða alltaf til staðar þegar fjallað er um skipulagsmál".  Við lestur þessara orða bæjarstjóra verður manni hreinlega orðfall.  Er maðurinn að meina það sem hann segir og segja það sem hann meinar?  Annað tveggja er hann algjörlega veruleikafirrtur eða svona ótrúlega ósvífinn.  Ég held að  ekki fari framhjá nokkrum manni hér á Álftanesi að hér logar allt í deilum!  Deilum sem snúast um grundvallaratriði í skipulaginu.  Grundvallaratriði!  Reyndar eru álitamálin líka fjölmörg.  Með þeirri grundvallarbreytingu sem gerð hefur verið á verðlaunatillögu GASSA sem felst í lokun Breiðumýrar og stóraukinni byggð á miðsvæðinu hefur öllu verið hleypt í loft upp á nýjan leik og ekki sýnt var málið endar.

Bæjarstjórinn upplýsir líka í grein sinni að bæklingurinn eigi að auðvelda íbúunum að svara spurningum í væntanlegri könnun Capacent Gallup um skipulagið.  Um hvað skyldi eiga að spyrja?  Hvernig verða spurningar orðaðar?  Fá íbúar að sjá allar niðurstöður könnunarinnar að henni lokinni?  Ég meina ALLAR því hér má ekkert undan draga.

Já, gott fólk.  Þessi bæklingur á víst að auðvelda fólki svörin þegar Gallup hringir.  Sennilega þá réttu svörin að mati bæjarstjórans því uppsetning og efni hans er einhliða fegrunaraðgerð á dæmalausu klúðri bæjarstjórnar.  Allan ferilinn hefur eitthvað verið að bætast við, hús hér og hús þar.  Bensínstöð og það nýjasta, gámastöð við hlið hennar.  Þetta er æðislegt,  skyldu nágrannar hennar ekki verða hrifnir.    Og nýjasta bullið er ráðstefnuhótel í tengslum við aðra álíka útópíu, svokallað menningar og ráðstefnuhús.  Ég hitti fyrir tilviljun í dag aðila sem hefur mikla reynslu af ráðstefnuhaldi.  Hann sagði nánast algjört skilyrði fyrir ráðstefnuhaldi í þéttbýli að þær væru í þægilegu göngufæri við miðbæjar, verslunar og skemmtanakjarna.  Nema í þeim tilfellum þar sem farið væri með fólk á afskekkt sveitahótel.  Hann sagði að sennilega yrði erfitt að selja ráðstefnur á svona stað, jafnvel þó á móti Bessastöðum væri.

Hér er ekki efni til hlutlægrar opinnar gefandi umræðu um miðbæjarskipulagið.  Þarna er einhliða áróðurspési og ekki laust við að maður brosi út í annað þegar manni verður hugsað til margmiðlunardisksins fræga forðum daga.

Finnst fólki þetta ekki góður grundvöllur til sáttar um miðbæjarskipulagið.  Ég held ekki.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Gísli Birgir Ómarsson

Óviðkomandi þessu máli, en mér var hugsað til þín í dag. Vegagerðin tók mig við eftirlit í Kjósinni í dag. En ég var innan marka svona til að það fylgi með. 

Því miður varst það ekki þú Svenni minn.

Gísli Birgir Ómarsson, 14.11.2007 kl. 23:53

2 Smámynd: Sigurður Hreiðar

Undarlegt að enn skuli hausnum barið við steininn með lokuð augu og reynt langt út yfir alla skynsemi að koma í veg fyrir vélknúna umferð og gera henni erfitt fyrir með öllum ráðum.

Gera menn sér enga grein fyrir því að íslenskt samfélag nútímans byggist á greiðum samgöngum, og greiðar samgöngur á Íslandi byggjast á notkun bílsins? Þar með talið einkabílsins?

Sigurður Hreiðar, 15.11.2007 kl. 07:59

3 Smámynd: Bogi Jónsson

Það er magnað hvað Ragnar Reykás á auðvelt með að skipta um gervi og hann leynist á ólíklegustu stöðum. Þarf Laddi að fara að passa sig á samkeppninni?

Bogi Jónsson, 15.11.2007 kl. 12:05

4 Smámynd: Ólafur Þórðarson

Er akandi umferð gert erfitt fyrir? Mér sýnist á þessu blessaða skipulagi að bílaumferðinni sé gert hærra undir höfði en nokkrum öðrum ferðamáta. Reyndar er ástandið þannig að það er ekki hægt að búa á höfuðborgarsvæðinu án þess að eiga bíldruslu og sjálfsagt er það þar sem frústrasjón bíleigenda er fundin. Að keyra bíl statt og stöðugt er bara hundleiðinlegt, félagslega einangrandi, dýrt og má lengi telja. Eitt af því fáa sem bíll er góður í (mín skoðun) er til að keyra út úr borg. Ef þú býrð í borg, þ.e.

Sem arkitekt dytti mér ekki í hug að útiloka bílaumferð frá miðbæ. En í miðbæ þurfa gangandi að hafa forréttindi og bílaumferð þarf að takmarka eitthvað ef hún á ekki að taka yfir. Nú er það svo að oft er ekki hægt að hjóla á þar til gerðum hjólastígum oft vegna þess að verið er að leggja bíldruslum á þá. Svo er rétt athugað að teikningar eru oft furðulegar, með draumórakenndum klisjum eins og hver önnur auglýsing um fyrirheitna landið, kommúnista- eða markaðsfrelsisútópíur. Spurningin er já m.a. þessi hvar áróðurinn endar og raunveruleikinn byrjar. Settu endilega link á þessar teikningar ef þú átt hann. Það væri gaman að skoða verkefnið.

Ólafur Þórðarson, 15.11.2007 kl. 18:17

5 Smámynd: Sveinn Ingi Lýðsson

Takk fyrir commentin.  Nú í kvöld var skoðanakönnunin keyrð í gegn af Capacent Gallup.  Spurningarnar virðast hafa verið samdar af bæjarstjóranum því þær eru mjög leiðandi.  Hreint magnað að fyrirtæki sem vill láta taka sig alvarlega skuli taka þátt í þessu bulli.  Meina Capacent Gallup.

Veffari:  Þú getur fundið þessar teikningar inn á vef Álftaness http://alftanes.is/umhverfi-og-skipulag/midsvaedi-alftaness/ Þar er bæði hægt að sjá núgildandi skipulag, verðlaunatillöguna sem allir voru svo glaðir með og síðan útfærslu hennar með gjörbreyttum umferðarskipulagi, 9 hæða ráðstefnuhóteli og risastórum verslanahöllum. 

Sveinn Ingi Lýðsson, 15.11.2007 kl. 22:45

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband